Stjórnmálaályktun SUS 2018

Milliþing Sambands ungra sjálfstæðismanna var haldið á Selfossi 28.-30. september. Var gestgjafi þingsins Hersir í Árborg og heiðursgestur Eyþór Laxdal Arnalds. Á þinginu var samþykkt stjórnmálaályktun SUS árið 2018 sem rúmar helstu stefnu- og baráttumál sambandsins á komandi vetri.

 

 

Stjórnmálaályktun Sambands ungra sjálfstæðismanna – samþykkt á milliþingi SUS á Selfossi 29.-30. September 2018

Núverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks tók við góðu búi eftir ábyrga hagstjórn fyrri ára. Framtíðarhorfur eru jafnframt ágætar. Samband ungra sjálfstæðismanna (SUS) lýsir þó  yfir áhyggjum af þeirri útþenslustefnu sem ríkisstjórnin stendur fyrir. Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2019 munu ríkisútgjöld aukast um 55 milljarða króna. Öllum má vera ljóst að viðlíka aukning í útgjöldum ríkissjóðs er ósjálfbær til lengdar. Hyggilegra væri að lækka skatta og álögur á fólk í landinu og sá þannig fræjum fyrir verðmætasköpun og velmegun til framtíðar. Ungir Sjálfstæðismenn hafna réttlætingu fjármálaráðherra á vexti ríkisútgjalda sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. SUS fagnar áformum ríkisstjórnarinnar um að beita sér fyrir því að tekjuskattar einstaklinga verði lækkaðir, sem og að til standi samkvæmt stjórnarsáttmála að endurskoða stofn fjármagnstekjuskatts og að lækka tryggingargjald. Mikilvægt er að vinda ofan af skattahækkunum og tryggja samkeppnishæft viðskiptaumhverfi við önnur lönd. SUS telur það brýnt að Sjálfstæðisflokkurinn gæti þess í hvívetna að standa vörð um frelsi einstaklingsins og eftir fremsta megni að stuðla að auknu athafna- og viðskiptafrelsi hans í öllum sínum verkum.

Samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs

Í ljósi mikillar styrkingar krónunnar undanfarin ár, aukinna launakrafna á almennum vinnumarkaði auk lítillar eftirgjafar stjórnvalda í skattheimtu telur milliþing SUS brýnt að vekja athygli á þeim veruleika sem íslenskir atvinnurekendur búa við. Samkeppnishæfni Íslands fer síversnandi og þá eru ýmsar blikur á lofti í því sem hefur á skömmum tíma orðið einn mikilvægasti atvinnuvegur okkar, ferðaþjónustu. Milliþing SUS skorar á aðila á vinnumarkaði að sýna af sér hófsemi í komandi kjaraviðræðum, enda er brýn þörf á að aðilar sættist um sjálfbæra kjarasamninga, svo þeim ávinningi sem unnist hefur á undanförnum árum, öllum landsmönnum til hagsbóta, glatist ekki í verðbólgu og samdrætti. Þó er einnig mikilvægt að ríkisstjórnin komi í auknum mæli til móts við aðila á vinnumarkaði, eins og til dæmis með frekari lækkun tekjuskatts einstaklinga og hraðari lækkun tryggingagjalds. Ríkið ætti ekki að vera leiðandi í launaþróun á Íslandi.

Atvinnufrelsi

SUS fagnar áframhaldandi uppbyggingu á atvinnuvegum á landsbyggðinni. Má í þessum efnum sérstaklega nefna laxeldi, sem hefur reynst ýmsum sveitarfélögum kærkomin búbót, enda hafa flestir landshlutar lengi glímt við fólksfækkun, oft tilkomna vegna lítilla atvinnumöguleika. SUS mun þó ávallt beita sér fyrir því að viðlíka uppbygging, sem ljóst er að getur haft alvarleg áhrif á umhverfið sem og eignarétt annara aðila, skuli einungis ráðist í að vel ígrunduðu máli og í fyllsta samræmi við lög, sem skulu jafnframt vera samin á vísindalegum forsendum með það að leiðarljósi að náttúru og dýralífi sé sem minnst raskað. Þá fagnar Samband ungra sjálfstæðismanna því að uppbygging á laxeldi á landi sé hafin hérlendis.

SUS hefur þungar áhyggjur af afleiðingum úrskurðar úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál, um að fella úr gildi rekstrarleyfi íslenskra fiskeldisfyrirtækja, á atvinnulíf og mannlíf í brothættum byggðalögum. SUS skorar á Alþingi að bregðast við enda ótækt að atvinnustarfsemi sé sett í óvissu vegna óvandaðrar stjórnsýslu ríkisstofnana.

SUS vill standa kyrfilega vörð um atvinnufrelsi á Íslandi og hafnar öllum tilraunum til skerðingar á því. Hvalveiðar eru þar ekki undanskildar, enda fela þær í sér sjálfbærar veiðar á nytjastofnum sjávar. Illa upplýst umræða erlendis á ekki að stjórna því hvernig Íslendingar skilgreina eigið atvinnufrelsi.

Sjálfstæður rekstur í heilbrigðiskerfinu

SUS mun áfram beita sér fyrir því að sjálfstæður rekstur í heilbrigðiskerfinu fái að blómstra, enda hafa slíkar ráðstafanir skilað mikilli hagræðingu og jafnframt ánægju í þeim löndum þar sem slíkt er útfært á skynsaman máta. Þá lýsir SUS yfir áhyggjum af fjandsemi heilbrigðisráðherra gagnvart sjálfstæðum rekstri í heilbrigðiskerfinu og fagnar því að nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi mótmælt ráðherranum. SUS telur þó að töluverður fjöldi þingmanna flokksins megi standa sig betur í að berjast fyrir fjölbreyttari rekstrarformum, öllum landsmönnum til hagsbóta.

Stefna í málefnum fólks með fíknivanda

Mikið gæfuspor væri að afglæpavæða vörslu neysluskammta af ólöglegum vímuefnum. Refsistefna gegn neytendum ólöglegra vímuefna hefur beðið skipbrot. Ljóst er að fælingamáttur refsistefnunnar er minniháttar og afleiðingin er sú að fólk sem glímir við fíknisjúkdóma fær síður þá hjálp sem það þarf. Má þar nefna úrræðaleysi foreldra barna með fíknivanda, ásamt þeim hópi er glímir bæði við geðræn vandamál og fíknivanda. SUS skorar því á ríkisstjórnina að fjölga úrræðum fyrir þessa viðkvæmu hópa þjóðfélagsins.Þá telur SUS einnig áhyggjuefni hve þungir dómar hafa fallið í málum burðardýra undanfarin ár og telur þörf á breyttri nálgun í þeim efnum.

Milliríkjasamskipti

Samband ungra sjálfstæðismanna styður frjáls vöruviðskipti milli landa. SUS telur því varhugavert að utanríkisráðherra geti upp á sitt einsdæmi sett viðskiptaþvingarnir á ríki án þinglegrar meðferðar. SUS skorar á utanríkisráðherra að liðka fyrir því að gagnkvæmar viðskiptaþvinganir milli Íslands og Rússlands verði afnumdar. Þá mun SUS hvetja stjórnvöld til að standa vörð um vestræn gildi svo Ísland geti haldið áfram að vera einn helsti framvörður tjáningafrelsis, umburðarlyndis og lýðræðis í heiminum. SUS fagnar auknum umsvifum Bandaríkjahers á Norður- Atlantshafi og styður aukna viðveru hans í landhelgi Íslands.

Farveitur

Íslenskir neytendur hafa nú um nokkurt skeið verið hlunnfarnir um aukna samkeppni og valfrelsi á leigubílamarkaði í gegnum farveitur líkt og Uber og Lyft. Er þetta afrakstur þróttlausrar verndarhyggju fámennrar starfsstéttar sem neitar að aðlaga sig að samtímanum. Þá mun SUS þrýsta á stjórnvöld er varðar afnám þessara lögvernduðu einokunartilburða.

Frelsi í sölu ólyfsseðilsskyldra lyfja

Milliþing SUS telur með öllu ótækt að apótek skuli óáreitt fá að viðhalda einokun sinni á smásölumarkaði ólyfsseðilsskyldra lyfja. Ekki einungis eru ýmis samkeppnis- og hagkvæmisrök sem mæla gegn óbreyttu fyrirkomulagi, heldur má einnig víkja að stöðu íbúa landsbyggðarinnar, enda eru apótek oft ekki að finna í minni byggðarlögum. Er það mat SUS að með þessu sé að óþörfu verið að skerða lífsgæði og frelsi fólks í landinu.

#metoo

Ungir sjálfstæðismenn fagna aukinni umræðu um kynbundið áreiti og ofbeldi. Með aukinni og opinni umræðu aukum við frelsi einstaklinga sem hafa lifað í skömm vegna kynbundins ofbeldis. Mikilvægt er að standa með fórnarlömbum kynferðisofbeldis, bæði konum og körlum, enda um alvarlegt samfélagslegt vandamál að ræða.

Seinagangur í innleiðingu Notandastýrðar persónulegrar aðstoðar (NPA)

SUS harmar tafir sem hafa orðið á innleiðingu NPA. NPA stuðlar að auknum lífsgæðum og athafnafrelsi einstaklinga með fatlanir. Því hvetur SUS hlutaðeigandi aðila til að greiða fyrir innleiðingu sem kostur er.