Öll augu á Iowa

Magnús H. Jónasson, laganemi og ákafur áhugamaður um bandarísk stjórnmál fer hér ýtarlega yfir prófkjörin í Bandaríkjunum og þá sérstaklega það sem er að eiga sér stað í Iowa fylki.

Prófkjörið í BNA hefst í kvöld.

Prófkjörið hjá Repúblikönum og Demókrötum hefur verið afar líflegt og þá sérstaklega hjá þeim fyrri. Donald nokkur Trump kom valsandi inn á sjónarviðið yfir sumartímann og bjuggust allir við að punchlína myndi fylgja stuttu eftir, enda fáir sem tóku framboðið alvarlega. Gengi Jeb Bush hefur verið einstaklega lélegt og þrátt fyrir að vera með mesta fjármagnið virðist það ekkert hjálpa honum í skoðanakönnunum. Marco Rubio hefur verið að gera góða hluti og tel ég að meiri stuðningur mun flykkjast til hans þegar líður á. John Kasich hefur verið vonbrigði en ég hélt að sem sitjandi ríkisstjóri Ohio myndi hann fá meiri stuðning frá flokknum.1 Það virðist þó bitna á honum að íhaldssamir kjósendur eru að dreifast mikið sökum þess hversu margir eru í framboði. Byrjum hins vegar á að skoða háværa vitleysinginn úr stóra eplinu sem tröllríður skoðanakönnunum.

Donald Trump

Ómögulegt að tala um þessar kosningar án þess að nefna Trump sérstaklega. Persónulega hélt ég að framboð hans myndi enda eftir frægt rifrildi hans við Megan Kelly í fyrra þar sem Roger Stone Jr. þáverandi kosningastjórinn hans ákvað að stíga til hliðar því honum líkaði ekki málflutninginn.2

Donald Trump. Mynd: Michael Vadon

Donald Trump. Mynd: Michael Vadon

Corey Lewandowski tók þá við en sagt er að hann hefur lítið vald yfir frambjóðenda sínum og sér mest megnis um að koma honum milli staða og kveikja á hátalarakerfinu. Íslendingar undra sig mikið á fylgi Trump enda hefur rasískari frambjóðandi ekki sést síðan David Duke tók stuttu framboðin sín ’88 og ’92.3

Fylgið er hins vegar ekkert til að undra sig á, pólitík í BNA er á miklu breytingaskeiði þessa stundina, litakortið er að breytast í mörgum fylkjum, frjálslyndi fer vaxandi víðsvegar sem veldur því að t.d biblíubeltið líður eins og sín gildi eigi undir högg að sækja. Þá reis úr öskunni maður sem neitar að biðjast afsökunnar á einu né neinu sem bjargvættur kristna hvíta mannsins. Þó það hefur verið umtalað hversu trúaður Donald sé í raun og veru.

Þessu til stuðnings er hægt að taka tvö dæmi. Þann 15.des 2015, stuttu eftir hann vildi banna múslimum frá því að koma til Bandaríkjanna gerði Monmouth University skoðanakönnun um afstöðu fólks til Donald Trump. Þar var m.a. spurt hvort þeim fyndist Donald Trump vera segja það sem þyrfti að segja ? (e. Do you think Trump is saying things that need to be said or is he making things worse?). Þar svöruðu 68% Repúblikana svöruðu játandi að hann væri að segja það sem þyrfti að segja sem og 40% þeirra sem stóðu utan stjórnamálaflokka (e.independant) svöruðu játandi.

„frjálslyndi fer vaxandi víðsvegar sem veldur því að t.d biblíubeltið líður eins og sín gildi eigi undir högg að sækja.“

Þrátt fyrir fordæmingu annarra frambjóðenda á ummælum hans sem og nýkjörin forseti fulltrúardeildarinnar í þinginu (e. speaker of the house) Paul Ryan ákvað að blanda sér í málið og tjá sig opinberlega gegn ummælunum sögðu einungis 21% skráðra repúblikana sig vera á móti þeim.4

Svipuð sjónarmið er uppi varðandi margumtalaða, útópíska vegginn sem hann ætlar að byggja. Þrátt fyrir að innflytjendum frá Mexikó hefur farið fækkandi í BNA5 sem og langflestir koma með flugi þá sögðust 73% Repúblikana vera fylgjandi þess að byggja vegg við landamærin í könnun þann 10.sept. 2015.6

Því ætti að vera augljóst að hann er að nýta sér fáfræði margra og hefur það haft jákvæð áhrif á kosningabaráttuna hans. Persónulega er ég frekar sannfærður um að hann muni ekki hljóta tilnefninguna. Þessi skoðun byggist á mörgum þáttum en sér í lagi vegna þess að hann hefur ekki fengið nein svokölluð „stuðningsstig“. 7

Ef stuðningsstigin eru talin situr Jeb Bush efstur með 51 stig en stuttu eftir kemur Marco Rubio með 43 stig. Til samanburðar um hvað Demókrataflokkurinn er búinn að ákveða sinn frambjóðanda þá er Hillary Clinton með 458 stig meðan Bernie Sanders er með 2 stig.8 Stuðningsstigin skipta miklu máli þegar frambjóðandi mætir í fylki eða sýslu sitjandi þingmanns til að reyna hafa áhrif á kjósendur. Þau hjálpa mikið þegar kosningabaráttan færist yfir í fleiri fylki en Iowa og New Hampshire. Það yrði einnig rosalega skrýtið að sjá aðila vinna prófkjör hjá flokknum án þess að hafa stuðning frá neinum mikilvægum aðilum innan flokksins.

Spurningin sem situr eftir er hvort Donald Trump nægilega þekkt nafn til að fara alla leið á eigin forsendum í óþökk flokksins. Sérfræðingar hafa einnig sagt að stuðningsstiga-mælikvarðinn sé vafasamur mælikvarði í ár m.a. vegna fjölda framboða. Þetta veltur því allt á hvað gerist í Iowa og New Hampshire.

Demókratar í Iowa

Iowa er staður þar sem óvæntir hlutir hafa skeð áður. Árið 2004 var John Kerry í þriðja sæti með 16% fylgi í skoðanakönnunum og Howard Dean í því fyrsta með 27%. John Kerry endaði hins vegar á að vinna Iowa með 37%, John Edwards í öðru með 33% og Howard Dean í því þriðja með 17%. Svipað átti sér stað 2008 þegar Hillary var með ágætis forskot á Obama. Hún endaði þó í þriðja sæti þar sem Obama fékk 35% atkvæða, John Edwards 31% og Hillary 30%

Bernie Sanders og Hillary Clinton í rökræðum á ABC sjónvarpsstöðinni 19. desember 2015. Mynd: ABC NEWS

Bernie Sanders og Hillary Clinton í rökræðum á ABC sjónvarpsstöðinni 19. desember 2015. Mynd: ABC NEWS

Það er þó ólíklegt að Bernie Sanders muni geta gert eitthvað svipað og yrði ég mjög hissa ef hann myndi vinna Iowa. Hann eyddi nýlega stórfé í auglýsingar í Iowa í síðustu viku og er aldrei að vita hvort ótrúlegir hlutir muni gerast aftur. Mikið tal er um hvort Bernie Sanders sé að fara gera það sama og Obama. Hann, líkt og Obama var, virðist vera vinsæll hjá ungu fólki sem er að fara að Caucus-a í fyrsta skipti. Svipuð lýðfræði var á bakvið við þá sem kusu Obama 2008. Hillary er hins vegar vinsæl hjá fólki sem er eldra og hefur kosið áður.

Barack Obama í Iowa. Mynd: IowaPolitics.com

Obama eyddi 81 degi í Iowa árið 2008. Mynd: IowaPolitics.com

Hins vegar má ekki gleyma að Obama eyddi 81 degi í Iowa 2008 og grínuðust bæði David Axelrod og David Plouffe um að hann hefði getað flutt lögheimili sitt þangað og kosið sjálfan sig, því þeir voru svo mikið þarna.

Martin O‘Malley á að mínu mati engan séns á að hirða einhverja fulltrúa en með hlutfallskosningakerfinu sem Iowa notar tel ég ólíklegt hann fari yfir 15% sem þarf til þess að fá fulltrúa. Spái ég því að Hillary muni vinna fylkið en Sanders mun ekki vera langt á eftir. Hann hirðir slatta af fulltrúum í Iowa og mun það hjálpa honum mikið þegar hann færir sig yfir til New Hampshire þar sem hann er líklegri sigurvegarinn. Fyrir kosningarnar í Iowa leiðir Hillary núna með 5 ofurfulltrúa (e.superdelegates) en þeir skipta meira máli fyrir Demókrata en Repúblikana.

„Hillary er hins vegar vinsæl hjá fólki sem er eldra og hefur kosið áður.“

Repúblikanir í Iowa

Það hafa einnig komið upp óvænt úrstlit GOP megin í Iowa, flestir ættu að muna eftir Rick Santorum að vinna þar 2012. Viku fyrir kosningar var Romney með 20% fylgi og Santorum með 7% fylgi í könnun CNN/Time. Santorum vann síðan nauman sigur með 24,54 % og Romney í öðru með 24,51 % atkvæða. Skoðanakannanir eru ótrúlega erfiðar Repúblikana megin þessa stundina. Selzer & Co9 settu Cruz með 5% forystu í könnun sem var gerð 7-10. janúar. Meðan ORC10 gerðu könnun 15.-20. jan og fengu út að Trump værir með 11% forystu.

Ted Cruz er öldungarþingmaður frá Texas

Ted Cruz er öldungarþingmaður frá Texas. Líklegt er að hann vinni Iowa þar sem hann hefur mikið fylgi hjá kristnum kjósendum.

Þessar sveiflur hafa verið í gangi út janúar og því ómögulegt að segja hvor þeirra félaga er líklegri til að vinna Iowa. Persónulega tel ég að Ted Cruz muni vinna en það er einungis útaf hann er með mikið fylgi hjá kristnum kjósendum og tel ég þá líklegri til að mæta á fundarhöldin (þannig er kosið í Iowa, e. Caucus) en stuðningsmenn Trump. Ted Cruz vinnur Iowa en munurinn á honum og Trump verður ósköp lítill.

Marco Rubio mun einnig koma á óvart. Má þar meðal annars nefna opinberan stuðning Des Moines Register sem kom seint en tel að muni hafa einhver áhrif á kjósendur sem ekki náðist að taka með inní skoðanakannanir.

Hið ómögulega er enn þá hægt

Þó að Ted Cruz myndi vinna Iowa mun það ekki hafa mikil áhrif fyrir hann, ekki frekar en þegar Mike Huckabee eða Rick Santorum unnu Iowa 2008 og 2012. Donald Trump að vinna Iowa mun þó valda því að GOP munu fara af stað í herferð gegn honum. Ted Cruz sigur í Iowa mun hafa meiri neikvæð áhrif á Trump en jákvæð áhrif á Cruz. Trump er með heila kosningabaráttu byggða á „all i do is win“ laginu hans DJ Khaled. Því er áhugavert að sjá hvernig hann bregst við tapi.

Iowa ætti að vera skyldusigur fyrir Hillary hins vegar. Kosningastjórinn hennar Robby Mook þarf alvarlega að endurhugsa leikkerfi þeirra ef hún tapar Iowa, aftur. Sérstaklega í ljósi þess að Bernie vinnur líklegast New Hampshire, sem er næsta ríki til að kjósa. Það getur hins vegar allt gerst í Iowa og verður spennandi að sjá hvað gerist í nótt.

Kjósendur kynna sér hlutina eftir Iowa

Ég ákvað að bæta við þessarri mynd hérna undir endann til að sýna hversu fáir Bandaríkjamenn eru í raun að fylgjast með núna. Það er ekki fyrr en Iowa kýs sem kjósendur fara að kynna sér frambjóðendur almennilega. Það er þess vegna voða lítið að marka skoðanakannanir á landvísu fyrr en nær dregur. Það getur ennþá allt gerst og verður spennandi að fygljast með næstu mánuði.

iowa

  1. Gamla mantran um að enginn Repúblikani verður Forseti nema vinna Ohio.
  2. Þó ennþá afar virkur stuðningsmaður Donald Trump á samfélagsmiðlum.
  3. David Duke er svokallaður „Grand Wizard“ í KKK. Hann hefur opinberlega stutt Donald Trump.
  4. Sjá spurningu 10. http://bit.ly/1lM2ba2
  5. Ath. Net immigration.
  6. Sjá spurningu 8. http://bit.ly/1XPVDWc
  7. Mæld sem 1. stig fyrir opinberan stuðning frá Fulltrúardeildarþingmanni, 5. stig fyrir Öldungardeildarþingmann og 10. Stig fyrir sitjandi Ríkisstjóra. Mælikvarðinn er úr bókinni The party decides e. pólitísku fræðimennina Marty Cohen, David Karol, Hans Noel og John Zaller.
  8. http://projects.fivethirtyeight.com/2016-endorsement-primary/ miðast við 21.jan 2016.
  9. Í eigu Ann Selzer sem er langvirtasti pollster-inn í Iowa sbr. http://www.politico.com/story/2015/12/ann-selzer-iowa-pollster-216151 og http://fivethirtyeight.com/features/selzer/
  10. Opinion Research Corporation.