Atvinnumál

Stefna Sambands ungra sjálfstæðismanna í atvinnumálum sem samþykkt var í Vestmannaeyjum á 43. sambandsþingi SUS, þann 6. september 2015.

Ungir sjálfstæðismenn fagna því að afnám gjaldeyrishafta sé í augsýn. Afnám haftanna er grundvöllur hagvaxtar til framtíðar og aukinnar fjárfestingar í landinu, sem mun skila sér í auknum störfum og meiri velmegun. Á Íslandi þarf að byggja upp íslenskan hlutabréfamarkað, stuðla að innlendri- og erlendri fjárfestingu og koma hagvexti á skrið. Mikilvægt er að stjórnvöld skapi heilbrigt og hvetjandi umhverfi fyrir atvinnulíf svo nýta megi krafta einstaklinga til fulls.

Halda þarf áfram að lækka og fækka sköttum.

Ferðamál
Þjónusta við ferðamenn er orðin einn af undirstöðuatvinnuvegum Íslands. Mikilvægt er að hið opinbera láti ekki steina í götu ferðaþjónustunnar, ýmist með aukinni skattlagningu eða regluvæðingu. Þá leggja ungir sjálfstæðismenn áherslu á að þeir sem heimsæki ferðamannastaði greiði fyrir uppbyggingu þeirra. Ekki er sanngjarnt að uppbygging ferðamannastaða sé fjármögnuð með skattlagningu á þá sem ekki sækja ferðamannastaði heim.

Bankar
Selja ber eignarhlut ríkisins að fjármálastofnunum hið fyrsta. Ekki er tilgangur ríkisins að standa í rekstri fjármálafyrirtækja og stuðla þannig að óheilbrigðri samkeppni á fjármálamarkaði. Eignarhlutir ríkisins í bönkum eiga að vera seldir hæstbjóðendum. Íslendingar eiga ekki að njóta forgangs við sölu bankanna, líkt og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis hefur lagt til.

Iðnaðar og orkuframleiðsla
Engin iðnfyrirtæki eiga að njóta sérkjara í skattamálum. Orkufyrirtæki eiga að vera rekin á viðskiptalegum grunni. Fráleitt er að stjórnmálamenn hafi afskipti af því hvernig fyrirtæki selja eigi raforku. Selja ber raforku hæstbjóðanda. Virkjanarekstur er fjárfrek fjárfesting sem skilar ekki arðsemi fyrr en eftir langan tíma. Ekki er rétt að leggja almannafé, hvorki frá ríki né sveitarfélögum í slíkar áhættufjárfestingar. Mikilvægt er að ríkið vinni ekki gegn áforum einkafyrirtækja um að byggja upp iðnað í landinu.

Mikilvægt er að sem mest landsvæði í eigu hins opinbera verði selt á markaði og fært í hendur einstaklinga. Koma þarf í veg fyrir að ríkið geti slegið eign sinni á land í eigu einstaklinga.

Hugsanlegt er að verðmæta auðlindir leynist í jörðu innan efnahagslögsögu Íslands eða landgrunni. Mikilvægt er að hið opinbera haldi að sér höndum við slíka auðlindanýtingu líkt og í öðrum atvinnurekstri og torveldi ekki frekari framþróun á þessu sviði með íþyngjandi skattlagningu eða öðrum hömlum.

Sjávarútvegur
Íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið stuðlar að aukinni verðmætasköpun í greininni á meðan það kemur í veg fyrir ofveiði og verndar nytjastofna. Lykillinn að þessu tvennu eru framseljanlegar aflaheimildir. Með því að aflaheimildir geti skipt um hendur á opnum markaði eru mestar líkur a að þær rati í hendur þeirra sem skapa úr þeim mestu verðmætin, sér og þjóðinni til heilla.

Nauðsynlegt er að standa vörð um þennan undirstöðuatvinnuveg Íslendinga. Sérsköttun á tiltekna atvinnugrein umfram aðrar skal ekki liðin og ber því að afnema alla slíka skatta, svo sem eins og veiðigjöld.

Allar hugmyndir um gjörbyltingu fiskveiðistjórnunarkerfisins með því að taka aflaheimildur úr höndum þeirra sem hafa keypt þær á opnum markaði eru skaðlegar, þ.m.t. hugmyndir sjávarútvegsráðherra um að ríkið leigi út aflaheimildir í tiltekinn tíma. Ósanngjarnt yrði að færa aflaheimildir ýmist í hendur þeirra sem hafa selt frá sér heimildir eða þeirra sem vilja fá að spreyta sig í greininni en treysta sér ekki í þá fjárfestingu sem til þarf. Það er óþolandi fyrir þá sem hafa fjárfest í sjávarútvegi að eiga það stöðugt yfir höfði sér að misvitrir stjórnmálamenn gjörbylti öllum þeim forsendum sem þeir hafa gefið sér fyrir stundarvinsældir í kosningum eða skoðanakönnunum.

Mikilvægt er að allir nytjastofnar séu innan aflamarkskerfisins. Nauðsynlegt er að takmarka möguleika stjórnmálamanna á að ráðskast með þessa miklu auðlind og nota sem pólitíska fyrirgreiðslu hvort sem er í formi strandveiða, byggðakvóta, línuívilnunar eða einhvers annars.

Jafnframt er nauðsynlegt að aflamarkskerfið nái til nýrra nytjastofna og ýmissa flökkustofna sem leita á Íslandsmið, svo hægt sé að skapa úr þeim eins mikil verðmæti og kostur er, án þess að ganga of nærri þeim.

Landbúnaður
Hágæðaafurðir og ímynd landsins gefa landbúnaðinum áður óþekkt tækifæri innanlands og erlendis. Ferðamenn sem heimsækja landið kalla eftir afurðum úr héraði og breiða út orðspor þeirra þegar heim er komið. Stefna ber að því að losa landbúnaðinn við fjárstuðning ríkisins og vinna að því að hann geti búið við eðlilega markaðsafkomu. Meðal annars þarf að að gera það með því að stuðla að lækkun tilkostnaðar á öllum stigum framleiðslunnar. Leggja ber af framleiðslutakmarkanir í landbúnaði. Framleiðsla afurða er ekki takmörkuð auðlind sem þarf að stýra með kvótakerfi. Þvert á móti er aukin framleiðsla jákvæð fyrir neytendur og er til þess fallin að finna rétt verð og magn við eftirspurn.

Einnig þarf að skoða kosti þess að nýta önnur og afkastameiri búfjárkyn til framleiðslunnar án þess þó að fórnað sé sérstöðu á markaðnum. Þá er einnig mikilvægt að losað sé um innflutningstakmarkanir á erlendum landbúnaðarafurðum í samráði í bændur.