Efnahagsmál

Stefna Sambands ungra sjálfstæðismanna í efnahagsmálum sem samþykkt var í Vestmannaeyjum á 43. sambandsþingi SUS, þann 6. september 2015.

Núverandi ríkisstjórn tók við nöturlegu búi í kjölfar kosninganna 2013. Þrátt fyrir að fyrsta hreinræktaða vinstri stjórn lýðveldisins hafi fengið rúman tíma til þess að takast á við eftirköst efnahagshrunsins 2008 var efnahags- og atvinnulíf þjóðarinnar enn í dvala vorið 2013. Margt vatn hefur nú runnið til sjávar og ber að fagna því að horfur í íslensku efnahagslífi eru nú allt aðrar en þær voru við lok síðasta kjörtímabils. Sá árangur hefur ekki komið af sjálfu sér, heldur má þakka hann meðal annars auknu aðhaldi í ríkisrekstrinum og einfaldari og lægri sköttum á heimili og atvinnulíf, auk þess sem ýtt hefur verið undir verðmætasköpun og fjárfestingar.

Ungir sjálfstæðismenn fagna þeim árangri sem ríkisstjórnin og fjármálaráðherra hafa náð í að koma böndum á ríkisbúskapinn. Á hinn bóginn hefur gengið allt of hægt að vinda ofan af öllum skaðanum sem unninn var á síðasta kjörtímabili. Ungir sjálfstæðismenn hvetja ríkisstjórnina því að nýta tímann til næstu kosninga vel, þar sem óvíst er að næsta kjörtímabil verði jafngifturíkt.

Stemmt stigu við skuldasöfnun

Ungir sjálfstæðismenn lýsa yfir ánægju sinni með þau skref sem stigin hafa verið til þess að lækka skuldir ríkisins á síðustu tveimur árum. Hins vegar er ljóst að betur má ef duga skal. Skuldir ríkisins nema í dag um 1.400 milljarða. Það ætti að vera forgangsverkefni í íslenskum stjórnmálum að finna leiðir til þess að skera niður í útgjöldum ríkisins, svo að skuldasöfnun nútímans verði ekki baggi um langa framtíð. Skuldasöfnun sveitarfélaga er jafnframt ennþá áhyggjuefni og er ljóst að í sumum þeirra hafa verið skrifaðir háir kosningavíxlar sem á endanum munu falla á kynslóðir framtíðarinnar. Ekki er forsvaranlegt að sum sveitarfélög séu rekin þannig að endar nái ekki saman, jafnvel þó innheimt sé lögbundið hámarksútsvar.

Afnám tolla er eðlilegt framhald

Afnám vörugjalda verður að teljast ein bestheppnaða skattalækkun ríkisins um langa hríð. Vörugjöld, sem oftar en ekki byggðu á huglægu mati um það hvað teldist til „lúxusvarnings“, skekktu um langa hríð stöðu innflutnings í landinu, auk þess sem þau höfðu neikvæð áhrif á verðlag í landinu almenningi til handa. Það finnast líklega fáir sem sakna vörugjaldanna og vonandi enn færri sem gætu hugsað sér að leggja þau aftur á. Ungir sjálfstæðismenn fagna áformum fjármálaráðherra um að afnema flestalla vörutolla frá og með áramótunum 2016.

Tollar eru, þvert á það sem margir halda, nánast hverfandi hluti af tekjum ríkisins, og þjóna einkum þeim tilgangi að skekkja samkeppnisstöðu atvinnugreina og að tryggja óeðlilegan stuðning ríkisins við tilteknar atvinnugreinar á kostnað neytenda og almennings. Jafnframt hvetja ungir sjálfstæðismenn ríkisstjórnina til þess að afnema sem fyrst tolla á matvæli líka um leið og skoðað er hvernig hægt er að styðja við samkeppnishæfni íslensks landbúnaðar með öðrum hætti.

Tímaskekkjan loksins löguð

Það er mikið fagnaðarefni að áætlun um losun fjármagnshafta sé að koma til framkvæmda. Gjaldeyrishöftin voru á sínum tíma hugsuð sem tímabundin ráðstöfun, en hafa nú, átta árum síðar, valdið þjóðinni ómældum skaða, skerðingu á viðskiptafrelsi og bjagað öll verð á eigna- og fjármálamörkuðum. Gjaldeyrishöftin eru tímaskekkja sem eiga heima á öskuhaug sögunnar. Ungir sjálfstæðismenn styðja öll skref í átt til losunar haftanna, en hvetja um leið til þess að skoðuð verði einhliða upptaka myntar sem gjaldgeng sé í alþjóðaviðskiptum.

Skammsýni á vinnumarkaði

Ungir sjálfstæðismenn átelja forystu verkalýðsfélaganna fyrir skammsýni í kjaramálum. Í stað þess að reynt sé að hækka laun jafnt og þétt, þannig að kaupmáttur aukist, er krafan sett á óraunhæfa prósentuhækkanir, sem augljóst er að munu brenna upp á verðbólgubálinu, auk þess sem of háar launahækkanir fara beinustu leið út í verðlag og vísitölu neysluverðs. Umbjóðendur verkalýðsforystunnar sitja á endanum eftir með minni kaupmátt og hærri afborganir af lánum sínum. Þetta kemur sérstaklega niður á ungu fólki sem er að stíga sín fyrstu skref á fasteignamarkaði. Þá gagnrýna ungir sjálfstæðismenn ríkisstjórnina fyrir að hafa ekki staðið fast við sitt í kjaradeilu við opinbera starfsmenn og þannig átt sinn þátt í að koma af stað launaskriðinu. Nauðsynlegt er að stokka upp tilhögun kjaraviðræðna og byggja þar á reynslu nágrannaþjóða okkar.