Menntamál

Stefna Sambands ungra sjálfstæðismanna í menntamálum sem samþykkt var í Vestmannaeyjum á 43. sambandsþingi SUS, þann 6. september 2015.

Menntun

Núverandi menntakerfi ber að efla með því að stuðla að auknu valfrelsi einstaklingsins, meira frjálsræðis skóla og fjölbreytileika náms, en ekki eingöngu með hærri fjárframlögum frá hinu opinbera. Nemendur eiga að hafa raunverulegt val um námsleiðir á öllum skólastigum.

Samkeppni hvetur skóla til að mæta þörfum samfélagsins hverju sinni og býður upp á fjölbreytileika og einstaklingsmiðaðra nám. Þannig geta nemendur stundað nám á eigin forsendum og eru ekki allir steyptir í sama mót. Það verður þó ekki tryggt nema gerðar verði miklar breytingar á núverandi skólakerfi ásamt því að aðlaga aðalnámskrá að sveigjanlegra kerfi.

Frelsi skólanna er forsenda þess að hægt sé að virkja þann kraft sem býr í nemendum, kennurum og stjórnendum skólakerfisins. Reynslan sýnir að til dæmis frjálsir leik- og grunnskólar geta verið að skila betri árangri nemenda en skólar sem reknir eru af sveitarfélögum ásamt því að vera hagkvæmari.

Framboð skólabóka er best tryggt á frjálsum markaði. Fela ber einkaaðilum útgáfu námsefnis og leggja Námsgagnastofnun niður í þeirri mynd sem hún er í dag.

Gera þarf róttækar breytingar á launakerfi kennara og gefa skólastjórnendum aukið svigrúm til að semja við starfsmenn sína á einstaklingsgrundvelli. Miðlægir kjarasamningar, líkt og þeir sem nú eru gerðir við kennara, skapa ekki árangurshvetjandi umhverfi í skólastarfi og hamlar þróun þess.

Leik- og grunnskólar

Tryggja þarf frelsi leikskóla þannig að val foreldra sé aukið og hagkvæmni tryggð. Foreldrar skulu hafa val um í hvaða leik- og grunnskóla barnið þeirra gengur. Þannig verður tryggt að sveitarfélögin greiði ákveðna upphæð með sérhverju barni óháð því hvers konar skóli verði fyrir valinu og í hvaða sveitarfélagi hann er í. Slík samkeppni er til þess fallin að efla skólastarfið.

Skólarnir þurfa að sýna fram á hvað þeir standa fyrir í raun og veru og að þeir geti byggt á ákveðinni sérstöðu, bæði í námi og kennslu. Aukin fjölbreytni í námi sem og aukin starfsráðgjöf og kynning stuðlar að því að nemendur geti fyrr kosið að fara verknámsleið í stað bóknáms og þannig stórminnkað brottfall úr framhaldsskólum.

Tryggja þarf að allir einstaklingar sem útskrifast úr grunnskóla geti lesið sér til gagns. Aukinn sveigjanleiki skal vera á milli skólastiga. Bæði á þann hátt að leikskólabörn geti farið yngri í grunnskóla og grunnskólanemar geti lokið framhaldsskólaáföngum. Einblína þarf á getu leik – og grunnskólanema og koma til móts við þarfir þeirra. Þá er mikilvægt að skoða hvernig best er að stytta grunnskólagöngu um eitt ár til að auka samkeppnishæfni íslenskra námsmanna í alþjóðlegu tilliti.

Framhaldsskólar

Auka þarf valfrelsi nemenda í framhaldsskólum, það eflir sérstöðu skólanna og eykur fjölbreytileika náms og sveigjanleika þess. Fagna ber nýju námsmati en jafnframt ber að leggja enn meiri áherslu á að það sé fjölbreyttara og ítarlegra. Aukinn sveigjanleiki milli skólastiga felur ekki einungis í sér hagræðingu í menntakerfinu heldur jafnframt hagræðingu fyrir samfélagið þar sem fólk fer fyrr út á vinnumarkaðinn.

Eftir að samræmd próf í grunnskólum voru lögð af er enginn samræmdur mælikvarði á getu nemenda sem útskrifast úr grunnskóla. Réttast væri að framhaldsskólum yrði í sjálfvald sett að setja fram inntökuskilyrði sín hvort sem þau væru í formi inntökuprófs eða viðtals. Það er lágmarksvirðing við nemendur að jafnræði ríki á milli þeirra sem sækja um skólavist.

Afnema ætti lögbundna mætingarskyldu til að veita skólum aukið frelsi til að setja sín viðmið. Það myndi auka metnað kennara við kennslu og koma betur til móts við nemendur með sérþarfir.

Háskólar

Háskólum á Íslandi verði frjálst að innheimta skólagjöld. Með því er verið að reyna stuðla að minni verðbólgu í háskólagráðum og minnka sóun á fjármunum. Tilkoma frjálsra skóla gagnast því ekki aðeins þeim nemendum sem þá sækja heldur einnig nemendum þeirra skóla sem fyrir voru starfræktir.

Taka skal Lánasjóð íslenskra námsmanna (LÍN) og lánakerfið til gagngerrar endurskoðunar með tilliti til hagsmuna heildarinnar og þá meðal annars endurskoða tekjutengingar og styrki. Ætti markmiðið að vera að leggja LÍN niður til lengri tíma litið þannig að viðskiptabönkum verði síðan fengið hlutverk hans í hendur.