Skattamál

Stefna Sambands ungra sjálfstæðismanna í skattamálum sem samþykkt var í Vestmannaeyjum á 43. sambandsþingi SUS, þann 6. september 2015.

Skattar eru samkomulag samfélagsins til þess að standa skil af sameiginlegum útgjöldum og því ætti hið opinbera ávallt að nálgast skattlagningu með friðhelgi eignarréttar og jafnræði að leiðarljósi. Skattar ættu í grunninn að vera fáir, lágir, flatir og einfaldir og þar með aðlaðandi fyrir bæði einstaklinga og fyrirtæki.

Allar smáþjóðir ættu að sjá hag sinn í því að hafa samkeppnishæft skattaumhverfi, því lífskjör þeirra eru oft háðari verslun og viðskiptum. Tilgangur skattkerfisins er að afla ríkinu tekna og því ætti eftir fremsta megni að minnka umsvif ríkisvaldsins og þannig draga úr þörfinni á skatttekjum. Árið 2014 var Ísland í 24. sæti á International Tax Competitiveness Index lista en landið hefur alla burði til þess að koma sér í efstu sætin. Til þess þarf að setja skýr langtímamarkmið og vinna að þeim jafnt og þétt.

Einstök skilyrði

Alltof hátt hlutfall af tekjum heimilanna fer í beina og óbeina skatta sem draga úr kaupmætti og sparnaðar getu þeirra. Einnig eru skattalögin þannig uppsett að þau refsa fólki fyrir viðbótarframlag sitt og því mætti í raun segja að þau virki letjandi fyrir einstaklinga sem vilja eða þurfa að leggja meira á sig.

Efla þarf skattvitund íslensks almennings en hann vinnur nú meirihluta ársins fyrir hið opinbera. Einstaklingar ættu því að standa sjálfir í skilum á skattinum en ekki fyrirtæki og viðsemjendur. Sundurliðun á því hvert peningar skattgreiðenda fara ætti að koma fram á skattkýrslunni.

Ungir Sjálfstæðismenn fagna afnámi vörugjalda og tolla. Ísland ætti að stefna á flatan tekjuskatt og afnema allar tegundir eigna- og erfðaskatta. Einnig þarf að afnema útvarpsgjaldið og lækka neysluskatta til muna. Ungir sjálfstæðismenn leggja einnig til að neysluskattar á barnavörum verði afnumdir. Þessar aðgerðir myndu bæta fjárhagsstöðu einstaklinga til muna, auka svigrúm þeirra til sparnaðar eða fjárfestinga af öðru tagi og skapa traust umhverfi fyrir unga foreldra.

Aðlaðandi umhverfi

Fjölbreytt og sterkt atvinnulíf er undirstaða allra heilbrigðra hagkerfa en til þess að það geti þrifist þarf að tryggja einfalda, sanngjarna og stöðuga skattastefnu. Fyrirtæki þurfa að geta vaxið og dafnað svo Ísland reynist lífvænlegt bæði fyrir fyrirtækin og einstaklinga. Skattalöggjöfin ætti að vera hagfelld fyrir smá, meðalstór og stór fyrirtæki og ýta undir verðmætasköpun, hvetja til fjárfestingar og þar með ýta undir hagvöxt. Íslenskt skattaumhverfið ætti einnig vera aðlaðandi fyrir erlend fyrirtæki og fjárfesta sem vilja setjast hér að eða fjárfesta á hér á landi.

Breyta þarf núverandi skattalöggjöf með því að afnema ýmsa liði og lækka aðra. Tekjuskatt á fyrirtæki ætti að lækka í 15%, afnema ætti alla umhverfis- og auðlindaskatta og einnig hið svokallaða tryggingagjald. Með þessu væri hægt að bæta samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja og skapa aukið svigrúm til vaxtar. Slíkar breytingar stuðla einnig að aukinni fjárfestingu og atvinnusköpun og hafa þar með jákvæð áhrif á hagkerfið. Afnám tryggingargjaldsins myndi einnig skapa tækifæri fyrir einkaaðila t.d. tryggingafélög, til þess að bjóða upp á atvinnuleysistryggingar líkt og þau gera nú með tryggingar vegna vinnutaps af öðrum ástæðum.

Afnema ætti neðri mörk útsvars til sveitarfélaganna og þar með færa þeim fullan rétt til þess að ákveða útsvarshlutfallið sjálf. Þessi breyting myndi hafa góð áhrif á samkeppnismöguleika sveitarfélaganna. Einnig þarf að setja skýr ákvæði um skattlagningu nýsköpunarfyrirtækja, tvísköttunarsamninga og tekjuskatt erlendra aðila með takmarkaða skattskyldu. Einnig þarf að afnema alla afdráttarskatta og skilgreina vel frádráttarreglur vegna arðs, sölu- og gengishagnaðar, afskrifta eða vaxtagreiðslna. Til þess að bæta samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja mætti einnig skoða hvort hægt sé að veita sérstaka skattaafslætti til fyrirtækja, t.d. verktaka sem stunda tímabundna vinnu erlendis. Að öðru leyti þarf að tryggja það að fyrirtæki sem stunda viðskipti með afleiður og verðbréf þurfi ekki að halda eftir staðgreiðsluskatti af hagnaði einstakra viðskipta.