Sveitastjórnar- og samgöngumál

Stefna Sambands ungra sjálfstæðismanna í sveitastjórna- og samgöngumálum sem samþykkt var í Vestmannaeyjum á 43. sambandsþingi SUS, þann 6. september 2015.

Sjónarmið ungra sjálfstæðismanna eiga ekki aðeins við í landsmálum. Undanfarin ár hefur sú þróun átt sér stað að æ fleiri málefnaflokkar hafa færst frá ríkinu á hendur sveitarfélaga. Slík yfirfærsla verkefna er í grunninn jákvæð og þróun í rétta átt frá miðstýringu hins opinbera. Sveitarfélögum er þó þröngt sniðinn stakkurinn varðandi framkvæmd þessara verkefna og eru mörg í erfiðleikum með að sinna þeim. Flest eru þau illa rekin og má það meðal annars rekja til lélegrar fjárhagsstjórnunar og metnaðarfullrar tilætlunarsemi löggjafans gagnvart sveitarfélögum. Á Íslandi eru mörg lítil sveitarfélög sem hafa ekki rekstrargrundvöll til að veita þá þjónustu sem ríkið ætlast til að íbúum sveitarfélagsins sé veitt. Farsælla væri að veita sveitarfélögum frelsi til að ákvarða þau verkefni sem það vill helst sinna, enda yrði slíkt að lokum ákveðið af íbúum þess sveitarfélags. Hvert sveitarfélag skal hafa frelsi til að sinna þörfum íbúa á sem hagkvæmastan hátt.

Byggðamál

Ungir sjálfstæðismenn leggjast gegn núverandi fyrirkomulagi í byggðamálum hér á landi. Ljóst er að minni byggðarlögum á landsbyggðinni verður ekki bjargað til lengri tíma með kostnaðarsömum tilfærslum ríkisstofnana og annars konar niðurgreiðslum á vegum hins opinbera. Aukið frelsi í sjálfstjórn sveitarfélaga mun leiða til aukinnar samkeppnishæfni minni sveitarfélaga og gera þau að fýsilegri búsetukosti. Sveitarfélög á Íslandi eiga að keppast um að bjóða upp á bestu þjónustuna með sem lægstum tilkostnaði. Leysa þarf sveitarfélögin undan viðjum ríkisvaldsins og gefa þeim svigrúm að ákvarða að hvaða marki skattar og gjöld verða innheimt og hvers konar þjónustu sveitarfélagið vill veita. Mikilvægt skref í þá átt er að afnema lögbundið hámarks- og lágmarksútsvar. Það er eðlilegt að hvert sveitarfélag fyrir sig ákveði hvaða þjónusta verði þar í boði. Slíkt fyrirkomulag myndi sporna við núverandi byggðarþróun auk þess að leiða af sér lægri álögur á íbúa, betri þjónustu og fjölbreyttari rekstrarform.

Fjármál sveitarfélaga

Skattar og gjöld sem sveitarfélag innheimtir skulu endurspegla kostnaðinn við að reka þá þjónustu sem sveitarfélagið veitir. Afnema skal fasteignaskatt en halda áfram innheimtu fasteignagjalda, enda er eðlilegt að fasteignaeigendur standi straum af kostnaði sem hlýst vegna fasteigna þeirra.

Umfang Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga hefur aukist gríðarlega undanfarna áratugi og er staðan orðin þannig að um 10% af tekjum sveitarfélaga koma úr Jöfnunarsjóði. Ungir sjálfstæðismenn telja að afnema þurfi Jöfnunarsjóðinn. Það er ólíðandi að skattgreiðendur ríkisins þurfi að bera ábyrgð á sveitarfélögum sem starfa ekki endilega í lýðræðislegu umboði þeirra. Hvetja þarf sveitarfélög með virkum aðgerðum til að sýna aðhald í rekstri og er afnám Jöfnunarsjóðs mikilvægt skref í þeirri vegferð þar sem fyrirkomulagið umbunar illa reknum sveitarfélögum og refsar þeim sem eru vel rekin. Halda má því fram að kerfið hvetji sveitarfélög til þess að sýna kæruleysislega hegðun í rekstri í þeirri von um að fá úthlutun úr Jöfnunarsjóði.

Afnema skal lögbundið lágmarksútsvar, ef slíkt fyrirkomulag stenst stjórnarskrá, og ættu sveitarfélög að leitast við að halda útsvarinu í lágmarki. Mikilvægt er að íbúar viti hvernig fjármunum sveitarfélagsins sé varið. Það er gert með því að opna bókhald sveitarfélaga og tilheyrandi stofnana auk þess sem upplýsa þarf um hinar ýmsu niðurgreiðslur og gæluverkefni. Slíkt er gert til þess að auka kostnaðarvitund íbúa og veitir kjörnum fulltrúum aðhald. Sveitarfélag skal eingöngu veita íbúum þess nauðsynlega þjónustu, en ríkið verður að veita sveitarfélögum svigrúm til að ákveða sjálf hvaða þjónustu þau vilja veita. Menningarstarfsemi er ekki hluti af nauðsynlegri þjónustu. Yfirskuldsett sveitarfélög eiga að einbeita sér að grunnþjónustunni í þágu allra íbúa, ekki frístundum sumra. Öll menningar- og listasöfn í eigu sveitarfélaga skulu því lögð niður eða seld til einkaaðila.

Velferðarmál

Þróun síðustu ára er sú að málefnaflokkar hafa færst frá ríki til sveitarfélaga og styðja ungir sjálfstæðismenn þá þróun, enda er eðlilegt að þjónusta hins opinbera sé starfrækt eins nálægt borgurunum og mögulegt er. Skoða þarf hvort sveitarfélög geti ekki tekið við fleiri verkefnum frá ríkinu og má nefna heilsugæslu í því samhengi. Sveitarfélög eiga að reyna að ná fram sparnaði með útboðum á verkefnum sem þeim ber að sinna í velferðarmálum til einkaaðila.

Íþrótta- og tómstundamál

Undanfarin ár hafa sveitarfélög ausið miklu fjármagni til inn í íþróttafélögin. Oft er það gert með ógagnsæjum aðferðum eins og að sveitarfélag greiði skuldir íþróttafélaga eða leigi þeim aðstöðu undir markaðsverði. Þannig er illa farið með fé almennings. Í stað slíks fyrirkomulag er hentugra að aðstoða tekjulága foreldra með ávísanakerfi svo börn þeirra geti iðkað íþróttir. Skattgreiðendur eiga ekki að fjármagna starfsemi keppnisíþrótta fyrir fullorðna.

Umhverfis- og samgöngumál

Ungir sjálfstæðismenn leggja áherslu á að atvinnulíf og náttúra starfi saman í samlyndi við hvort annað. Mikilvægt er að núlifandi kynslóðir skili nátturunni til komandi kynslóða í sama ef ekki betra ástandi en við tókum við henni. Vinna þarf markvisst að því að skapa hvata fyrir einstaklinga, jafnt sem fyrirtæki til að hugsa í auknum mæli um áhrif athafna sinna, t.d. með auknu umfangi eignarréttar og skaðabótaréttar.

Skipulagsvaldið er hjá sveitarfélögunum og telja Ungir sjálfstæðismenn það svívirðilega aðför að lýðræðinu ætli ríkið að svipta sveitarfélögum umráðarétti sínum með lagasetningu til þess að haga skipulagi eftir geðþótta sitjandi ráðherra ríkisstjórnar hverju sinni.

Ungir sjálfstæðismenn hvetja sveitarfélög til að þróa byggð þéttar en hefur verið gert undanfarna áratugi. Venjuleg íslensk fjölskylda eyðir mun meiri hluta tekna sinna í samgöngur en gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Þéttari byggð myndi gera fólki kleift að nota fjölbreyttari samgöngumáta en við gerum í dag sem sem myndi á endanum skila sér í sparnaði fyrir sveitarfélagið þar sem vegnakerfið yrði minna í sniðum. Þéttari byggð er einnig til þess fallin að sveitarfélagið geti sameinað t.d. grunnskóla og leikskóla og aðra grunnþjónustu til að ná fram sparnaði í yfirstjórn þeirra.

Samgöngur

Samgönguframkvæmdir eiga að vera í höndum einkaaðila. Það mun flýta samgöngubótum, minnka skattbyrði og hleypa krafti í verktakastarfsemi. Rétt er að leggja niður alla skatta og gjöld á eldsneyti. Fordæmi eru fyrir innheimtu vegtolla og nægir þar að nefna Hvalfjarðargöngin. Vegtollar eru innheimtir til að standa straum af kostnaði vegna vegaframkvæmda og viðhaldi vega. Réttast er að þeir sem nýta sér viðkomandi samgöngumannvirki greiði fyrir þá þjónustu sem þeir þiggja en ekki sérhver skattgreiðandi. Ungir sjálfstæðismenn fagna því að leita eigi fjárfesta til framkvæmda á Sundabraut, en greiða þarf leið þeirra töluvert. Markaður vegaframkvæmda er þegar töluvert niðurgreiddur af skattgreiðendum þrátt fyrir að notendur þeirra komi annars staðar að. Aukinn straumur erlendra ferðamanna hefur gífurleg áhrif á vegnotkun, leiðir til aukinnar viðhaldsþarfar vega og þar af leiðandi kostnaðar. Ungir sjálfstæðismenn hvetja innanríkisráðherra til að standa við orð sín um þróun í átt að aukinni notkun vegtolla.

Færa skal rekstur strætisvagna í hendur einkaaðila. Aðrir fólksflutningar skulu jafnframt vera í höndum einkaaðila og án opinberra styrkja. Strætó bs. ætti að slá af sókn sinni inn á markað fyrirtækja sem annast fólksflutninga. Skattgreiðendur eiga ekki að fjármagna strætisvagnaferðir. Ungir sjálfstæðismenn leggjast alfarið gegn þeim hugmyndum borgaryfirvalda að reisa sporvagnakerfi á höfuðborgarsvæðinu, með aðkomu yfirvalda. Ríkið á ekki að gangast í ábyrgð fyrir einkaframkvæmdum í samgöngumálum, eins og gert var vegna Vaðlaheiðarganga. Þá eru sporvagnakerfi að verða úrelt sem samgöngutæki og er fyrirsjáanlegt að slíkt kerfi muni falla úr notkun við tilkomu sjálfakandi bíla á markað.

Halda skal flugvellinum í Reykjavík á sínum stað í núverandi mynd þar til / ef betri kostur finnst. Taka verður tillit til ferðatíma á sjúkrahús, veðuraðstæðna og vegalengdar til miðborgar. Flugvöllurinn er hagsmunamál allra landsmanna og horfa þarf til vilja þeirra þegar skipulagsmál flugvallarins eru rædd.