Fylgjum stefnunni

Ungir sjálfstæðismenn skora á ráðherra og þingmenn Sjálfstæðisflokksins að beita sér af hörku gegn atlögum sérhagsmunahópa í landbúnaði sem skerða hag neytenda.

Hin ýmsu hagsmunaöfl reyna nú að knýja fram undanþágur og breytingar í skugga heimsfaraldursins. Hagsmunaöfl í landbúnaði eru þar engin undantekning, en þau reyna nú að ná fram breytingum sem skerða samkeppnisumhverfi matvörumarkaðarins og þar með hag neytenda og verslunarfyrirtækja. Samband ungra sjálfstæðismanna tekur undir áhyggjur Félags atvinnurekenda og skorar á Sjálfstæðisflokkinn að beita sér af hörku gegn því að; 1) hömlur verði settar á innflutning, 2) að kjötafurðastöðvar fái undanþágu frá samkeppnislögum og 3) að endurskoðun á tollasamningi Íslands og Evrópusambandsins skerði viðskiptafrelsi.

Samkvæmt stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins á að leggja kapp á að stuðla að alþjóðlegri verslun og viðskiptum og virkri samkeppni svo hagur neytenda geti vaxið og dafnað. Það er því gífurlega mikilvægt, að þrátt fyrir heimsfaraldur og háværar raddir sérhagsmunaaðila, að ekki verði vikið frá þessari grundvallarstefnu. Jafnvel þó sumar aðgerðir eigi aðeins að vera tímabundnar, þá hefur íslensk hagsaga kennt okkur að fátt er jafn varanlegt og tímabundnar aðgerðir stjórnvalda.

Þó fortíð Íslands sé lituð af fákeppni, tollum og höftum, getur Sjálfstæðisflokkurinn sýnt að framtíð Íslands eigi að einkennast af frelsi og tækifærum. Íslenskur landbúnaður er vel í stakk búinn til þess að aðlagast alþjóðlegu samkeppnisumhverfi og hefur SUS fulla trú á því að íslenskur landbúnaður þurfi ekki á verndarvæng ríkisins að halda, heldur fremur útsjónasemi, fjárfestingu og sókn. Eflaust getur það verið freistandi að rétta út hjálparhönd á þessum tímum, en það sem enn meira máli skiptir er að fylgja leikreglum, gildum og þeirri stefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn státar sig af.