Ályktun SUS vegna stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og Vinstri Grænna

Sjálfstæðisflokkurinn, Framsókn og Vinstri Grænir hafa nú myndað meirihluta og nýja ríkisstjórn. Málaflokkar voru færðir á milli ráðuneyta og ráðherrar færðu sig um set í aðra ráðherrastóla. Stjórnarsáttmálinn endurspeglar stefnu ríkisstjórnar næstu 4 árin og mun hún vinna eftir honum. 

Í nýafstöðnum kosningum til Alþingis hlaut Sjálfstæðisflokkurinn 24,4% atkvæða, mest allra flokka, flokkurinn er því stærsti flokkurinn í ríkisstjórnarsamstarfinu. Stjórnarsáttmálinn ætti að endurspegla niðurstöður kosninganna og því ætti stefna Sjálfstæðisflokksins að vera áberandi í sáttmálanum. Mörg mál rötuðu í sáttmálann sem endurspegla stefnu flokksins, svosem að draga úr eignarhaldi ríkisins í fjármálakerfinu, efling Sjúkratrygginga Íslands og að auka sveigjanleika starfsloka hjá hinu opinbera. Þó voru ýmis mál sem að rötuðu í sáttmálann sem ganga þvert á stefnu flokksins, þá helst stofnun þjóðgarðs, mannréttindastofnun og fleira sem eykur við ríkisbáknið. 

Stjórnarflokkarnir þrír hafa ólíkar stefnur og ber stjórnmálasáttmálinn þess merkis. Ungir Sjálfstæðismenn hefðu viljað sjá skýrari stefnu í ýmsum málaflokkum, þá einna helst heilbrigðismálum en Ungir Sjálfstæðismenn eru verulega vonsviknir yfir því að Sjálfstæðisflokkurinn fari ekki með þann málaflokk. Þar er markmiðið skýrt, að bæta þjónustu við fólkið í landinu en leiðin að markmiðinu er heldur óskýr. SUS hefði viljað sjá ákvæði um að leitast verði eftir því að úthýsa verkefnum til einkaaðila, uppfylli þeir þau skilyrði sem gerð eru til reksturs heilbrigðisstofnanna. 

Að mati Ungra Sjálfstæðismanna hefðu frelsismál mátt vera meira áberandi í sáttmálanum. Þá helst endurskoðun á stöðu RÚV á fjölmiðlamarkaði, afnám einokunar ÁTVR á áfengissölu, afglæpavæðing neysluskammta og meiri áherslu á að úthýsa verkefnum til einkaaðila í heilbrigðismálum, svo fátt eitt sé nefnt. Í haust afhenti stjórn Ungra Sjálfstæðismanna þingmönnum flokksins stjórnmálaályktun SUS en þar er að hægt að finna helstu áherslumál SUS í hverjum málaflokki. SUS hvetur þingmenn til þess að vinna að þeim málum á þingi og innan síns ráðuneytis.