Sala á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka

Samband ungra sjálfstæðismanna (SUS) fagnar ákvörðun Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um að hefja söluferli á hluta ríkisins í Íslandsbanka og tekur undir með Bankasýslu ríkisins, Seðlabanka Íslands, fjárlaganefnd Alþingis og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis, sem öll mæla með sölu á hluta í bankanum. Fyrir utan góðar aðstæður til þess að selja hluta bankans, á ríkið að mati SUS almennt að minnka umsvif sín í fyrirtækjarekstri. Bankarekstur er þar ekki undanskilinn.
Eignarhald íslenska ríkisins í bankakerfinu er það hlutfallslega mesta í Evrópu. Með eignarhaldi ríkisins á Íslandsbanka og Landsbanka eru bundnir hundruðir milljarða af fjármunum almennings. Þeim fjármunum væri betur varið á öðrum vígstöðvum en í bankarekstri. SUS leggur áherslu á að aðeins er stefnt að sölu á 25-35% af eignarhluta ríkisins og er gert ráð fyrir því að hægt verði að fá allt að 119 milljarða króna með sölu á öllum bankanum. Með þeim fjármunum væri til dæmis hægt að fjármagna tvo nýja Landsspítala eða allar samgönguframkvæmdir sem stefnt er að í samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Bankinn verður því áfram í meirihlutaeigu hins opinbera. Skuli nýir fjárfestar koma með virðisaukandi hugmyndir, mun ríkið áfram njóta hlutfallslega mests ávinnings.
Á tímum kórónakreppu, þar sem uppsafnaður halli ríkissjóðs yfir næstu fimm ár stefnir í þúsund milljarða og skuldir ríkissjóðs eru að aukast, þarf að forgangsraða í ríkisfjármálum og verja fjármunum þar sem aðkoma ríkisins er sannarlega nauðsynleg. SUS telur að hið opinbera geti lagt enn frekari áherslu á viðbótarfjárfestingar sem eru þjóðhagslega hagkvæmar, skapa störf, veita hagkerfinu kröftuga viðspyrnu og nýtast íslensku samfélagi til lengri tíma litið.