Ekkert frjálslyndi án viðskiptafrelsis

Á meðan stjórnmál í mörgum löndum í kringum okkur virðast í auknum mæli snúast um tortryggni í garð útlendinga keppast stjórnmálamenn á Íslandi við að vera frjálslyndir. Það er auðvitað fagnaðarefni, en þá er brýnt að hugur fylgi máli.

 

Hvað er frjálslyndi?

Frjálslyndi er í mínum huga tvíþætt; annars vegar persónufrelsi og hins vegar viðskiptafrelsi. Séu landsfundarályktanir Sjálfstæðisflokksins frá 2005 skoðaðar er greinilegt að andi beggja svífur þar yfir vötnum. Sem dæmi um birtingarmyndir persónufrelsis má nefna að þar er m.a. talað almennt um frelsi einstaklingsins, trúfrelsi, að flokkurinn eigi að vera leiðandi í að taka á móti útlendingum, einkum flóttamönnum, að allir eigi að hafa jöfn tækifæri, að það eigi að ríkja netfrelsi, að lækka eigi áfengiskaupa- og kosningaaldur, að höft skuli afnema, að konur eigi að hafa forræði yfir eigin líkama, að blóðgjafa skuli meta óháð kynhneigð, að leyfa skuli andlát með aðstoð, að fatlaðir stýri þjónustu fyrir sig sjálfir og að starfslok skuli vera sveigjanlegri.

Vinstrimenn eiga það til að stilla einstaklingum og atvinnulífi upp sem andstæðum í þjóðfélagsumræðunni. Að lífið sé núllsumma þar sem eins dauðir er annars brauð. Auðvitað er það ekki þannig. Fyrirtæki eru ekki sjálfsprottinn og þau verða ekki til í tómi, heldur eru þau verkfæri einstaklinga. Margar meiriháttar framfarir, uppfinningar og önnur nýsköpun síðari tíma hefur átt sér stað innan fyrirtækja. Fyrirtækið er líka með mikilvægustu uppfinningum sögunnar.

„Ef frelsi fyrirtækja er takmarkað þá er verið að takmarka frelsi einstaklinga…“

Afleðingar skerðingar viðskiptafrelsis

Skerðing á viðskiptafrelsi felst annað hvort í hlutfallslega háum sköttum eða íþyngjandi reglum. Afleiðing þess eru aukinn kostnaður fyrirtækja. Aukinn kostnaður fyrirtækja felst í fyrsta lagi í því að verð til viðskiptavina hækkar sem leiðir til þess að kaupmáttur einstaklinga minnkar. Önnur afleiðing aukins kostnaðar fyrirtækja er að hagnaður þeirra minnkar. Ein afleiðing minni hagnaðar er að skatttekjur ríkisins minnka sem þýðir að ríkið hefur minna svigrúm til að niðurgreiða opinbera þjónustu sem þýðir að einstaklingar þurfa í auknum mæli að greiða fyrir slíka þjónustu sjálfir, og kaupmáttur þeirra minnkar.

Minni arður til eigenda er önnur afleiðing minni hagnaðar fyrirtækja sem minnkar kaupmátt eigendanna. Vilji og geta þeirra til að fjárfesta í atvinnurekstri minnkar líka, sem minnkar samkeppni og hækkar verð sem skilar sér í minni kaupmætti einstaklinga. Störfum fækkar einnig sem minnkar kaupmátt og ríkið þarf að greiða fleirum atvinnuleysisbætur, það hefur þá minna svigrúm til að niðurgreiða þjónustu og kaupmáttur allra minnkar. Svigrúm til launahækkana minnkar einnig sem hefur þau augljósu áhrif að kaupmáttur einstaklinga minnkar.

 

Niðurstaða

Hagsmunir fyrirtækja og einstaklinga fara því algerlega saman og það er rangt að stilla þeim upp sem andstæðum í þjóðmálaumræðu. Ef frelsi fyrirtækja er takmarkað þá er verið að takmarka frelsi einstaklinga, ekki bara hluthafa þeirra, heldur líka starfsmanna, viðskiptavina, kröfuhafa og allra í samfélaginu. Klisja vinstrimanna um að þeir sem aðhyllist viðskiptafrelsi standi vörð um sérhagsmuni á því ekki við rök að styðjast.

Þeir sem aðhyllast persónufrelsi, en ekki viðskiptafrelsi, eru því ósamkvæmir sjálfum sér. Þeir vilja skipta sér af því hvað fólk gerir í vinnunni, en ekki hvað það gerir heima hjá sér. Það væri því eðlilegra að þeir annað hvort viðurkenndu að þeir væru stjórnlyndir, en ekki frjálslyndir, eða færu að styðja viðskiptafrelsi í ríkari mæli. Frjálslyndi er ekki frjálslyndi ef menn ætla aðeins að aðhyllast því þegar þeim hentar. Frjálslyndi er ekki valkvætt.

Greinin byggir á fyrirlestri sem höfundur flutti á fundi SUS og Ungra pírata í Valhöll 15. september 2016.