Handan við storminn

Áherslur handan við heimsfaraldur

Eftir rúmt ár af kórónuveirunni fer að styttast í kaflaskil. Bólusetningar ganga ágætlega og nágrannalönd hafa gefið út opnunaráætlanir, sem fylla mann bjartsýni og von um að þetta ástand takmarkana og hafta taki enda og hér muni eðlilegt líf hefjast á ný. Í síðustu viku opnuðu barir í Englandi og grímuskylda hefur formlega verið afnumin í Ísrael. Þrátt fyrir nýleg smit þá er ljós við enda ganganna með áframhaldandi bólusetningum.

Umræðan undanfarin misseri hefur stjórnast af veirunni, hvort sem það eru nýjustu smittölur eða aðgerðir stjórnvalda. Það er óhjákvæmilegt og að vissu leyti eðlilegt, en samhliða baráttunni verðum við líka að hugsa lengra en til næsta upplýsingafundar almannavarna. Geðheilsunnar og framtíðarinnar vegna.

Staðan er sú að við stöndum frammi fyrir stærsta tækifæri í rúma öld til þess að stilla áttavitann, hugsa stórt og fara fulla ferð áfram þegar yfir lýkur. Hugsjónirnar sem verða ofan á og ákvarðanirnar sem verða teknar á næstu mánuðum munu ráða úrslitum um það hvernig Ísland verður eftir 10, 20 og 30 ár. Jafnvel lengur. Ungt fólk sem hefur núna glatað heilu ári af bestu árum lífs síns á skilið að hlakka til tækifæranna sem við getum skapað.

Faraldurinn hefur sýnt okkur mikilvægi þess að ríkissjóður sé ekki skuldsettur í botn og hafi svigrúm til að takast á við óvænt áföll. Til að rétta aftur úr kútnum þarf alvöru umræðu um það hvert hlutverk hins opinbera á að vera fram veginn og hvort umsvif þess í dag séu forsvaranleg meðan atvinnulífið er í endurlífgun. Hvort ekki sé eðlilegra að hið opinbera sinni grunnþjónustu og greiði leið fyrirtækja, í stað þess að leggja stein í götu þeirra. Það er ekki síst mikilvægt í ljósi þeirra fjárfestinga sem nauðsynlegar eru til að skapa sjálfbæra framtíð og þeirra starfa sem verða til þegar nýsköpun er áhættunnar virði. Með uppfærðri forgangsröðun getum við gert miklu betur í heilbrigðis- og menntamálum og það í auknu samstarfi við einkaaðila, en jafn mikilvægir málaflokkar eiga ekki bara að hvíla á herðum hins opinbera. Við þurfum allar hendur á dekk fyrir verkefnið fram undan.

Undanfarna mánuði höfum við í Ungum sjálfstæðismönnum nýtt tímann í að móta sýn á framtíð Íslands handan við storminn og höfum nú birt helstu tillögur okkar í þeim efnum. Sýnin er skýr og það fer að birta til. Við megum ekki gleyma því.