Reykspúandi lýðheilsa

Halla Sigrún Mathiesen, formaður SUS, skrifar um áfengismál

Ámilli Reykjavíkur og Kaupmannahafnar eru rúmir tvö þúsund kílómetrar. Lítrafjöldinn af olíu sem þarf til að komast milli borganna skiptir svo talsvert fleiri þúsundum, hvort sem farið er með skipi eða flugvél. Hvað þá ef farnar eru báðar leiðir.

En meira um það síðar.

Í dag geta Íslendingar, líkt og íbúar annarra EES-ríkja, dregið upp símann og pantað sér áfengi heim að dyrum í gegnum netverslun. Þökk sé nútímatækni og greiðum samgöngum má búast við að sendillinn berji fljótt að dyrum, jafnvel innan sólarhrings. Og það þó við búum á afskekktri eldfjallaeyju.

Þannig nýta þúsundir Íslendinga nú fjölbreytta flóru netverslana á hverjum degi. Landsmenn geta til dæmis pantað vín frá Ítalíu, viskí frá Írlandi og handverksbjór frá Tékklandi.

Eitt geta neytendur hér þó almennt ekki pantað, en það eru íslenskar vörur. Vegna lýðheilsusjónarmiða er Íslendingum óheimilt að starfrækja netverslun með áfengi hér á landi, líkt og erlendir samkeppnisaðilar þeirra geta án takmarkana.

Ef lítið handverksbrugghús í Borgarfirði vill selja Íslendingum gæðaframleiðslu sína í lokuðum umbúðum hefur það því einungis tvo kosti. Annars vegar má keppast um verulega takmarkað hillupláss í áfengisbúð ríkisins, en þar er lítið sem ekkert svigrúm fyrir litlar vörulínur, auk þess sem komast þarf í gegnum þunglamalegt inntökuferli.

Hins vegar má senda vörurnar með flugvél eða skipi í annað EES-ríki, t.d. til Kaupmannahafnar. Þar stoppa þær stutt, enda sendar rakleiðis til baka, aðra tvö þúsund kílómetra, og seldar Íslendingum í gegnum danska netverslun. Hvar nákvæmlega lýðheilsan í þessu óþarfa kolefnisspori liggur er óljóst. Öllu ljósari eru aftur á móti afleiðingar óbreytts kerfis. Þær hafa kristallast í baráttu brugghússins Steðja, sem opnaði á dögunum netverslun með vörur sínar, meðal annars til að sleppa þessari glórulausu krókaleið. Þrátt fyrir að vera í samræmi við EES-reglur og almenna skynsemi, er málið nú á borði lögreglu.

Á þriðja tug handverksbrugghúsa starfa nú í öllum landshlutum, framleiða vandaðar íslenskar vörur og tryggja um 200 manns störf í heimabyggð. Mörg þeirra reiddu sig á heimsóknir ferðamanna, sem nú eru á bak og burt. Með heimild til sölu í íslenskri netverslun, án ferðalagsins til Köben, og heimild handverksbrugghúsa til beinnar sölu á framleiðslustað, mætti því styrkja afkomu fjölda smáfyrirtækja og verja tugi starfa um allt land. Hið sama á við um veitingastaði, þar sem heimild til að selja vel valin vín, pöruð með heimsendum mat gegnum netverslun á tímum Covid, gæti gert herslumuninn.

Dómsmálaráðherra birti fyrir skömmu drög að nýju frumvarpi um jafnræði í netverslun og heimild smábrugghúsa til sölu á framleiðslustað. Málið hefur líklega aldrei verið mikilvægara. Auk þess að minnka óþarfa neikvæð áhrif núverandi kerfis gæti það bjargað rekstri fjölmargra fyrirtækja, og þar með tryggt störf. Reykspúandi ójafnræðið sem nú ræður ríkjum í nafni lýðheilsu þjónar hins vegar engum.