Verður þetta ekki allt þess virði þegar það er komið útibíó í Árbæinn?

Fimmtudaginn 14. nóvember síðastliðinn lauk íbúakosningu í Reykjavík sem kölluð er „Hverfið mitt“. Hægt var að kjósa um að fá trampolín í hverfið sitt, bleik LED ljós á handrið í Vesturbænum eða útibíó í Árbæinn, svo örfá dæmi séu tekin. Flott framtak og skemmtilegt að íbúar geti tekið þátt í ákvörðunum, sem kjörnum fulltrúum er greitt fyrir að taka. Hugmyndirnar voru þar að auki gríðarlega frumlegar og spennandi, og svara í senn helstu áköllum Reykjavíkurbúa. Það er frábært að sjá að sveitarfélag í rekstrarvanda hlusti eftir þörfum sinna íbúa og leiti stöðugt sniðugri leiða til að verja almannafé.

Fjármunirnir sem áætlaðir eru í tillögurnar voru greinilega settir fram að vel ígrunduðu máli. Íbúar Vesturbæjar geta kosið um að „tyrfa sparkvöllinn á Lynghagaróló“ og áætlar Reykjavíkurborg að það kosti 5 milljónir króna. Ef farið er inn á Torf.is má sjá að dýrasta tegund torfs sem boðið er upp á kostar 890 krónur per fermeter. Ef við gefum okkur að sparkvöllurinn á Lynghagaróló sé um 400 fermetrar að stærð þá kostar torfið 356.000 krónur. Kannski er það vinnan við að tyrfa sem er svona kostnaðarsöm. Í nágrannasveitarfélögum hafa krakkar í unglingavinnunni tyrft grasbletti síns heimabæjar og er það auðþekkt að unglingar í Reykjavík eru með eftirsóttasta vinnuafli landsins með tilheyrandi launakostnaði. Ekki liggur þó fyrir hve stóran sparkvöll Reykjavíkurborg leggur til að tyrfa en sé keypt torf fyrir hátt í 5 milljónir króna má ætla að það verði einn stærsti sparkvöllur í heimi. Þennan metnað mættu fleiri sveitarfélög taka sér til fyrirmyndar.

Önnur tillaga sem Reykjavíkurborg bauð íbúum sínum upp á var að hreinsa veggjakrot, en borgin áætlaði 5 milljónum í það verkefni. Það er mikilvægt að íbúar fái val um það hvort veggjakrot sé hreinsað. Skiptar skoðanir eru í þjóðfélaginu um ágæti þessa listforms og alls ekki allir sem kunna vel við það að veggjakrot sé hreinsað. Það er til a mynda fyrir neðan allar hellur að flest önnur sveitarfélög leggist í það að hreinsa veggjakrot upp á sitt einsdæmi, án þess að ráðfæra sig fyrst við íbúana. Þar er farið á mis við stóran hóp sem nýtur ásýndar veggjakrots og ljóst að Reykjavíkurborg mun ekki gera sömu mistök. Hægt er að kjósa um fleiri slík umdeild mál, eins og t.d. hvort gera eigi endurbætur á gangstéttum í Þingholtunum og hvort klára eigi yfirborðsfrágang á malarsvæði í Vesturbænum. Það er fráleitt að hugsa til þess að yfirborðsfrágangurinn hefði verið kláraður án þess að Reykjavíkurbúar hefðu nokkuð um það að segja. Spennandi verður að sjá hvort íbúum í Árbænum og Breiðholti hljótist þau forréttindi að geta kosið um hvort sópa eigi göturnar og slá grasið í hverfinu í íbúakosningunum á næsta ári.

Í Hlíðunum stóð til boða að láta merkja heiti stíganna á Klambratúni. 6 milljónir króna voru áætlaðar í það þarfa verk. Fyrst og fremst er það ákveðið öryggisatriði að stígarnir séu merktir en reglulega heyrir maður fregnir af fólki sem villst hefur á Klambratúni sem er heilir 10 hektarar á stærð. Í lýsingu verkefnisins er ennfremur birt mynd af einum vegpresti úr timbri, sem dæmi um merkingu á Klambratúni. Fróðlegt verður að sjá hvaða eðalvið Reykjavíkurborg ákveður að nota í þann vegprest, sem eflaust verður sá dýrasti og flottasti í heimi. Stendur kannski til að Dagur B. Eggertsson höggvi timbrið sjálfur?

Heilt yfir litið var íbúakosning Reykjavíkuborgar mjög þörf enda hafa íbúar kallað lengi eftir slíkri kosningu og sást það svart á hvítu þegar kosningaþátttökumetið var slegið í fyrra. Nýja metið er 12,3% og hefur önnur eins kjörsókn ekki sést síðan kosið var til stjórnlagaþings. Tími ákvarðana réttkjörinna fulltrúa er sannarlega liðinn og skynsamleg nýting fjármuna er svo leiðinleg þegar bleik LED ljós eru annars vegar. Kosning af þessu tagi er í raun svo þörf að í fyrra fóru tugir milljóna í umsýslu- og auglýsingakostnað. Kannski hefur þessum kostnaði verið bætt við vegprestinn sem stendur til að reisa á Klambratúni. Eða kannski hefur nokkrum milljónum verið bætt við allar tillögurnar til að dekka kostnaðinn við verkefnið í heild sinni. En verður þetta ekki allt þess virði þegar það er komið útibíó í Árbæinn?