Covid – 19

Lagalegur grundvöllur aðgerða

Ógn gegn almannaheill er forsenda fyrir heimild stjórnvalda til að grípa til sóttvarnatakmarkana sem skerða stjórnarskrárvarin réttindi almennings. Framan af faraldri var óumdeilt að veirufaraldurinn ógnaði almannaheill, en nú þegar nær öll þjóðin er fullbólusett er mikilvægt að ákvarðanir taki mið af breyttri stöðu, enda veitir bólusetning yfir 90% vörn gegn alvarlegum veikindum af Delta afbrigði veirunnar auk þess að draga verulega úr smithættu, samkvæmt gögnum Landlæknisembættisins á Englandi.

Heilbrigðiskerfið

Nýjasta smitbylgjan hefur sýnt að flest þau sem smitast af veirunni reynast einkennalaus eða nær einkennalaus. Flöskuhálsinn liggur í fáum gjörgæsluplássum á Landspítala fyrir þá fáu sem veikjast alvarlega. Að mati SUS er varhugavert að nær fullbólusett þjóð þurfi nú að búa við frelsisskerðandi takmarkanir vegna þess að heilbrigðisyfirvöld létu hjá líða að fjölga gjörgæsluplássum. Þess má geta að Karólínska sjúkrahúsið í Svíþjóð fimmfaldaði gjörgæslupláss sín á þremur vikum í upphafi faraldurs. Hefðu íslensk heilbrigðisyfirvöld sýnt sömu fyrirhyggju væru þær takmarkanir sem þjóðin býr við nú varla þarfar.

Það hefur lengi verið baráttumál Sjálfstæðisflokksins að auka samvinnu hins opinbera við einkaaðila í heilbrigðismálum með það fyrir augum að efla þjónustu til almennings. Það er fagnaðarefni að heilbrigðisráðherra hafi loks séð ljósið og gengið til samninga við einkaaðila í því skyni að efla gjörgæsluþjónustu á þessum viðsjárverðu tímum. Það hefði þó þurft að gerast mun fyrr, auk þess sem betur má ef duga skal. Það er trú SUS að fjárfesting í öflugri gjörgæslu mun skila sér margfalt til baka, enda fylgir sóttvarnatakmörkunum mikill samfélagslegur kostnaður sem forðast má ef afkastageta er aukin þannig að spítalinn ráði við faraldur í bólusettu samfélagi án takmarkana.

SUS hugnast ekki hugmyndir um sérstaka sóttvarnastofnun. Ísland hefur náð einstökum árangri í viðureigninni við veiruna, svo eftir hefur verið tekið á heimsvísu, án slíkrar stofnunar. Fjármunum sem færu í slíka stofnun væri betur varið á öðrum sviðum heilbrigðiskerfisins.

Upplýsingagjöf til almennings

Upplýsingagjöf í faraldrinum hefur verið afar einsleit og einkum snúið að smitum og veikindum af völdum veirunnar, á meðan upplýsingagjöf um aðrar lýðheilsubreytur sem takmarkanir hafa áhrif á hefur verið ábótavant.

Viðkvæmir hópar, börn og ungmenni

Mikilvægt er að miða aðgerðir að því að vernda viðkvæma hópa án þess að aðgerðirnar skerði stjórnarskrárvarin réttindi almennings. Huga þarf að því að takmarkanir bitni ekki á öðrum viðkvæmum hópum, til dæmis börnum og ungu fólki. SUS hefur miklar áhyggjur af andlegri heilsu, félagsmótun og námsframvindu barna og ungmenna. Þessi hópur ber almennt því sem næst enga heilsufarslega áhættu af veirusmiti en hefur fært mestu fórnirnar. Afleiðingar sóttvarnatakmarkana á framtíð þeirra eiga margar hverjar eftir að koma í ljós síðar meir og sumar eru þegar farnar að sýna sig, samanber 80% aukningu í innlögnum á BUGL á síðasta ári.

Í þessu skyni ætti að vera forgangsmál að falla frá því fyrirkomulagi að senda börn og ungmenni undir 18 ára aldri í sóttkví, enda hefur það sýnt sig nú þegar að fyrirkomulagið raskar skólahaldi þeirra verulega, tómstundum og félagslífi, auk þess að bitna illa á atvinnulífinu. Leggja ætti áherslu á einstaklingsbundnar sóttvarnir og að einstaklingum sé treyst til þess að nálgast frelsi af ábyrgð.