Efnahags- og skattamál

Stefna Sambands ungra sjálfstæðismanna í efnahags- og skattamálum sem samþykkt var á Eskifirði á 44. sambandsþingi SUS.

Efnahags- og skattamál

Ungir sjálfstæðismenn fagna þeim árangri sem náðst hefur í að koma böndum á ríkisbúskapinn, en telja þó að mikilvægt sé að ganga enn lengra í þeim aðgerðum. Aðstæður í íslensku efnahagslífi hafa aldrei verið betri og hægt er að færa rök fyrir því að toppnum hafi verið náð í bili. Þá skiptir máli að búa sér í haginn og að draga úr áhættuþáttum til þess að þola óvænta bresti sem komið geta upp á í náinni framtíð. Einnig þarf að huga að undirstöðuatriðum til þess að tryggja hagsæld á Íslandi til frambúðar. Lækkun skatta og sala eigna eru mikilvægir þættir í því að minnka umsvif ríkisins, koma böndum á báknið og búa í haginn fyrir framtíðina.
Skattkerfið

Skattar eru samkomulag samfélagsins til þess að standa skil af sameiginlegum útgjöldum og því ætti hið opinbera ávallt að nálgast skattlagningu með friðhelgi eignaréttar og jafnræði að leiðarljósi. Skattar ættu í grunninn að vera fáir, lágir og einfaldir fyrir einstaklinga og fyrirtæki.

Allar smáþjóðir ættu að sjá hag sinn í samkeppnishæfu skattaumhverfi, því lífskjör þeirra eru oft háðari verslun og viðskiptum. Tilgangur skattkerfisins er að afla ríkinu tekna og því ætti eftir fremsta megni að minnka umsvif ríkisvaldsins og þannig draga úr þörfinni á skatttekjum. Árið 2016 var Ísland í 22. sæti á International Tax Competitiveness Index lista, en landið hefur alla burði til þess að koma sér í efstu sætin. Til þess þarf að setja skýr langtímamarkmið og vinna að þeim jafnt og þétt.

Stefna ber að því að tekjuskattur og útsvar einstaklinga lækki í áföngum í samtals 20% á næstu árum og að því markmiði verði náð fyrir árið 2025. Einfalt og skilvirkt skattaumhverfi dregur úr hvata til undanskota og eykur vilja til atvinnuþátttöku. Mikilvægt er að líta til heildaráhrifa skattkerfisins og samspil þess og almannatrygginga. Skattstofnar eiga að vera breiðir og gæta þarf að því að jaðarskattar hafi sem minnst áhrif á ákvarðanatöku og velferð almennings.

Lækka þarf tryggingagjaldið verulega og einfalda virðisaukaskattskerfið enn frekar. Fækka skal undanþágum og stuðla þannig að meiri skilvirkni. Ekki á að beita virðisaukaskattskerfinu í tekjujöfnunartilgangi eða til stuðnings ákveðnum atvinnugreinum. Nauðsynlegt er að auka hlutdeild sveitarfélaga í tekjum hins opinbera án þess að auka skattheimtu. Skoða skal þann kost að sveitarfélög greiði ekki virðisaukaskatt af þjónustu og fjárfestingu. Sveitarfélög skulu fá hlutdeild í fjármagnstekjuskatti og sköttum af umferð. Einnig skal stefnt að því að afnema lögbundið lágsmarks útsvar.

Mikilvægt er að endurskoða skattlagningu fjármagnstekna, þar með talda skattlagningu leigutekna, sem leiðir af sér hærra leiguverð og meiri skattaundanskot. Ungir sjálfstæðismenn leggja til að fjármagnstekjuskattur verði lækkaður í 10%.

Mikilvægur liður í að tryggja samkeppnishæfni Íslands er að stjórnvöld stuðli að því að hægt verði að laða að sérfræðiþekkingu inn í íslenskt atvinnulíf t.a.m. með sérfræðiskattlagningu að sænskri eða kanadískri fyrirmynd.

Viðskiptaumhverfið

Ísland á ekki einungis að vera áhugaverður áfangastaður fyrir ferðamenn, heldur skal kappkosta við að gera landið aðlaðandi fyrir fólk og fyrirtæki víðsvegar að úr heiminum. Regluverk hér þarf að vera einfalt og skilvirkt, þannig að það stuðli að aukinni verðmætasköpun. Ungir sjálfstæðismenn fagna þeim áföngum sem hafa náðst, en telja að ganga þurfi enn lengra til þess að tryggja það að nýsköpunarfyrirtæki geti þrifist hér þrátt fyrir að þau færi viðskipti sín í auknum mæli út fyrir lögsöguna.

Frjáls samkeppni er einn af hornsteinunum í stefnu Sjálfstæðisflokksins. Tryggja þarf að samkeppnissjónarmið skipi ríkan sess í lagasetningu. Leita þarf allra leiða til að tryggja öfluga samkeppni á sem flestum sviðum íslensks atvinnulífs, þar með töldum í fjármála-, heilbrigðis- og menntakerfunum. Virk samkeppni er neytendum til hagsbóta, en einnig þarf að tryggja öfluga og skilvirka neytendavernd. Brýnt er að regluverk atvinnulífsins verði endurskoðað með einföldun, hagræðingu og aukna skilvirkni að leiðarljósi.

Mikilvægt er að draga enn frekar úr aðgangshindrunum á íslenskum mörkuðum. Ungir sjálfstæðismenn telja að endurskoða beri búvörulögin frá grunni til að auka hagkvæmni og samkeppnishæfni íslensks landbúnaðar. Sömu lög og reglur eiga að gilda um landbúnað og aðrar atvinnugreinar.

Leggja skal áherslu á að Ísland geri fríverslunarsamninga við önnur ríki. Þannig er lagður grunnur að frekari markaðssókn íslenskra útflutningsgreina. Skattaumhverfi fyrirtækja á að vera með þeim hætti að ekki þurfi ívilnanir eða afslátt af opinberum gjöldum til að tryggja alþjóðlega samkeppnishæfni.

Alþjóðavæðingin þarf að fá að njóta sín og því hvetja Ungir sjálfstæðismenn Alþingi Íslendinga til þess að beita sér fyrir því að nýsköpunarfyrirtæki geti komið til Íslands til þess að móta og þróa bæði vörur og þjónustu án þess að vera heft af lögum og reglum.

Fjármálakerfið

Fjármálakerfið á Íslandi er stórt í hlutfalli við landsframleiðslu og óhagkvæmt metið út frá vaxtamun og kostnaðarhlutfalli. Smæð markaðarins og há skattlagning hefur áhrif á kostnað lántaka en þó á að vera svigrúm á komandi árum til að draga úr kostnaði í bankakerfinu og minnka vaxtamuninn.

Gæta þarf að því að skattlagning fjármálafyrirtækja bitni ekki á viðskiptavinum bankanna eða á alþjóðlegri samkeppnishæfni bankakerfisins. Ungir sjálfstæðismenn álykta að skattar á fjármálafyrirtæki eigi að vera almennir og án undanþága. Afnema skal sérstakan bankaskatt.

Stjórnvöld eiga að lýsa því yfir að bankar starfi á eigin ábyrgð, en ekki skattgreiðenda. Því á það að vera forgangsatriði að ráðast í sölu á hlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Ungir sjálfstæðismenn álykta að Íbúðalánasjóður dragi sig út af almennum íbúðalánamarkaði.
Peningastefnan

Mikilvægt er að skilja á milli stjórnmála og hagfræði, sérstaklega þegar að peningastefnan á í hlut. Hér eiga hagvísindin að ráða för og því skiptir máli að hafa hæfasta fólk sem landið hefur upp á að bjóða í Seðlabanka Íslands.

Þó þarf að tryggja að peningastefnan dragi ekki úr samkeppnishæfni Íslands og stefni íslenskum efnahag ekki í hættu. Peningastefnan á einnig að stuðla að vexti og viðgangi efnahagslífsins og aukinni velmegun. Mestu skiptir að verðlag sé stöðugt og vaxtakostnaður heimila og fyrirtækja sé ekki óhóflega hár. Reynsla síðustu ára sýnir að stöðugu gengi fylgi stöðugleiki í verðlagi.

Mikilvægt er að ríkisfjármál, peningastefna og kjarasamningar spili saman svo vaxtamunur milli Íslands og helstu viðskiptalanda verði ekki úr hófi. Einnig skal kanna til þrautar hvort betur henti að taka upp mynt sem gjaldgeng er í alþjóðaviðskiptum í stað íslensku krónunnar.

Vinnumarkaðurinn

Ungir sjálfstæðismenn styðja að tekið verði upp vinnumarkaðsmódel að norrænni fyrirmynd. Miða skal við að launahækkanir fylgi framleiðni til langs tíma og að útflutningsgreinar setji viðmið fyrir launahækkanir. Ennfremur þarf ríkari aga í samningastefnu ríkissáttasemjara.

Sala eigna

Ungir sjálfstæðismenn telja að selja eigi ákveðnar eignir ríkisins. Til að mynda má nefna fjármálafyrirtæki, rekstur flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og annan rekstur Isavia sem og RÚV. Ráðast þarf í úttekt á hagkvæmni húsnæðis ríkisstofnana og ríkið selji í framhaldinu allar þær eignir sem ekki eru nauðsynlegar. Ungir sjálfstæðismenn leggja á það ríka áherslu að sala eigna ríkisins fari fram í opnu og gegnsæju ferli.

Skuldir hins opinbera

Vaxtakostnaður hins opinbera er enn allt of hár. Ungir sjálfstæðismenn fagna þeim árangri sem náðst hefur í að greiða niður skuldir hins opinbera, en leggja þó áherslu á að niðurgreiðsla skulda verði áfram forgangsatriði. Sé toppi hagsveiflunnar náð er sér í lagi mikilvægt að tryggja sjálfbærni ríkissjóðs með lægri vaxtabyrði og búa í haginn með hagstæðari skuldastöðu ríkissjóðs.

Ríkisútgjöld

Mikilvægt er að huga að ríkisútgjöldunum, sérstaklega á þenslutímum sem þessum. Sjálfstæðisflokkurinn á að sýna fordæmi og leggja áherslu á að draga úr útgjöldum ríkisins. Í jákvæðum efnahagslegum horfum er mikilvægt að ríkið haldi að sér höndum til að ýta ekki undir sveiflumyndun, heldur gefi einstaklingum og fyrirtækjum rúm til að njóta sín í atvinnulífinu.