Innanríkismál

Stefna Sambands ungra sjálfstæðismanna í innanríkismálum sem samþykkt var á Eskifirði á 44. sambandsþingi SUS.

Verja þarf stjórnarskrána

Standa ber vörð um stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Þar er að finna grundvallarréttindi manna sem mega ekki vera vafa undirorpin þegar á reynir. Allar breytingar á núverandi stjórnarskrá skal nálgast af yfirvegun og ró. Tryggja þarf áframhaldandi vernd eignarréttar. Jafnframt er mikilvægt að pólitískar stefnuyfirlýsingar, svo sem ákvæði um ríkiseign að náttúruauðlindum, rati ekki inn í stjórnarskrána.

Virða þarf mannréttindi

Mannréttindi eru sá grundvöllur sem íslenskt samfélag byggir á. Mikilvægt er að þau séu skýr og ótvíræð svo enginn velkist í vafa um rétt sinn eða annarra á hverjum tíma.

Virða ber atvinnufrelsi og hafna ber hvers konar afskiptum sérhagsmunahópa af því frelsi. Einstaklingar skulu hafa rétt til að velja sína atvinnu. Viðurkenning á atvinnufrelsi sjálfráða fólks tryggir því einnig aðgang að réttarkerfinu ef það telur á sér brotið. Bann við atvinnustarfsemi ýtir henni undir yfirborðið öllum til tjóns. Jafnframt er ítrekaður stuðningur við óheft tjáningarfrelsi. Lögum sem hefta frelsi fjölmiðla er hafnað með öllu. Tjáningu fólks eða hópa má aldrei skorður setja með lögum nema til að verja mannréttindi annarra.

Tryggja þarf að enginn munur sé á samvistum og réttindum einstaklinga eftir kynhneigð þeirra.

Aukin skilvirkni dómstóla

Rekstur dómstóla er eitt af grunnhlutverkum hins opinbera. Nauðsynlegt er að einstaklingar geti fengið úrlausn ágreiningsmála sinna fyrir hlutlausum dómstólum. Til að þetta sé hægt verður að tryggja að dómstólum sé veitt nægt fjármagn svo að þeir geti afgreitt mál skjótt og örugglega.

Skipun dómara á að vera í höndum dómsmálaráðherra. Ekki er lýðræðislegt að ókjörnir fulltrúar í nefndum, prófessorar við háskóla eða dómarar sjálfir, ákveði hverjir verða dómarar. Slíkir aðilar þurfa ekki að sæta pólitískri ábyrgð gagnvart almenningi, eins og ráðherra sem með veitingarvaldið fer.

Ábyrg löggæsla

Löggæsla er grunnskylda hins opinbera. Öryggi og réttindi einstaklinganna byggja á því að sterk löggæsla sé starfandi. Lögreglan má aldrei hvika frá því að tryggja almennum borgurum frið og öryggi þó að hávær, en fámennur hópur manna, beiti ofbeldi til að lýsa óánægju sinni. Heimildir lögreglu til að hefja rannsókn verða að byggja á rökstuddum grun um refsiverða háttsemi. Þetta kemur í veg fyrir að brotið sé á stjórnarskrárbundnum rétti til friðhelgi einkalífs og öðrum mannréttindum. Tillaga um forvirkar rannsóknarheimildir brýtur gegn grundvallar mannréttindum. Aldrei má hafna meiri hagsmunum fyrir minni.

Löggjafarstefna í vímuefnamálum verði endurskoðuð

Í áratugi hefur markaður með ólögleg fíkniefni farið vaxandi og neysla ólöglegra fíkniefna hefur að sama skapi aukist verulega. Að auki hafa samfélagsleg vandamál tengd fíkniefnaneyslu aukist, svo sem glæpir og heilbrigðisvandamál. Það hefur náðst góður árangur í að minnka drykkju og reykingar barna og unglinga án þess að grípa hafi þurft til að banna og refsinga hvað fullorðna einstaklinga varða.

Undirheimahagkerfið tengt sölu fíkniefna veltir milljörðum á ári. Ungir Sjálfstæðismenn vilja fá þessa starfsemi upp á yfirborðið. Ríkissjóður hagnast í formi skatttekna, fíklar fara í meðferð en ekki í fangelsi og lögreglan og dómstólar geta farið að einbeita sér að málum sem skipta raunverulegu máli. Horfast ætti í augu við fíkniefnavandann sem heilbrigðismál en ekki dómsmál. Sömu sögu má segja um vændi, betra væri að færa þá iðju upp á yfirborðið eins og Amnesty International leggur til.

Frjáls sala áfengis

Afnema ber einokunarstefnu ríkisins við sölu áfengis og sala áfengis gefin frjáls. Það er ekki hlutverk ríkisins að standa í rekstri smásöluverslana. Einnig er mikilvægt að bann við auglýsingu áfengis verði afnumið. Á 21. öldinni er heimurinn eitt markaðssvæði og er fráleitt að innlendir framleiðendur áfengis skuli vera óheimilt að auglýsa vöru sína, á sama tíma og auglýsingar frá erlendum framleiðendum birtast íslendingum nánast daglega í gegnum erlenda miðla. Á Íslandi geta þeir einir keypt áfengi sem náð hafa 20 ára aldri. Lækka ber áfengiskaupaaldurinn niður í 18 ár. Engin rök standa til þess að treysta ekki sjálfráða einstaklingum til að kaupa löglega neysluvöru.

Veðmálastarfsemi

Afnema skal einokun Íslenskrar getspár á veðmálastarfsemi. Rýmka skal fyrir auglýsingum á veðmálum og afnema skal auglýsingabann erlendra veðmálafyrirtækja, íslenskir fyrirtæki verða af tugum milljóna króna á ári hverju sökum þess og íslenskir skattgreiðendur tapa líka, þó svo erlend veðmálafyrirtæki séu með sterka markaðsstöðu hér á landi.

Ný tækni, ný tækifæri

Mikil bylting hefur orðið á síðustu árum með tilkomu nýrra tæknilausna á borð við Uber. Hefur þetta skapað tækifæri fyrir einstaklinga að nýta eignir sínar sem áður voru einungis kostnaðarberandi til að skapa tekjur. Hér á landi hefur lengi ríkt einokunarkerfi á sviði fólksflutninga. Mikilvægt er að afnema öll sérleyfi til fólksflutninga og þeir gerðir frjálsir með öllu.

Ungir Sjálfstæðismenn leggja einnig áherslu á mikilvægi þess að varðveita íslenska tungu og koma henni í hugbúnað helstu tæknifyrirtækja heims. SUS fagnar nýrri verkáætlun mennta- og menningarmálaráðherra um máltækni.

Tryggja þarf jafnan rétt einstaklinga í hvívetna

Ljóst er að til að hægt sé að byggja upp frjálst og réttlátt þjóðfélag skuli einstaklingar metnir að verðleikum sínum og þeim ekki mismunað. Jákvæð mismunun skerðir jafnræði einstaklinga og frelsi og er eins og hugtakið ber með sér mismunun.

Öllum hugmyndum um þvingað jafnræði er hafnað. Jafnréttislöggjöf hefur snúist upp í andhverfu sína þar sem einstaklingar eru ekki lengur metnir að verðleikum sínum eða raunverulegri hæfni. Algjört óréttlæti felst í því að mismuna einstaklingum á grundvelli kynferðis, trúabragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.

Ótækt er að sérstök nefnd sé starfandi sem hefur puttana í því hvaða nöfn foreldrar velja börnum sínum. Leggja ber Mannanafnanefnd niður og afnema lögin um mannanöfn sem allra fyrst. Ríkið treystir fólki til þess að eignast og ala upp börn, eðlilegt er að það traust nái einnig yfir hvað foreldrarnir velja að nefna börn sín. Er það ekki hlutverk hins opinbera að hlutast til um það.

Ungir sjálfstæðismenn leggja til að ríkið hætti allri óþarfa gagnasöfnun og skráningu um einstaklinga, svo sem kyns og trúarskoðana.

Ríki og kirkja

Mikilvægt er að aðskilnaður ríkis og kirkju komist til framkvæmdar sem fyrst og að fjárhagstengsl ríkis og kirkju verði aðskilin að fullu. Ekki er rétt að ríkið geri upp á milli trúfélaga eða annist innheimtu félagsgjalda þeirra. Það er ekki hlutverk hins opinbera að starfrækja trúfélög. Ungum sjálfstæðismönnum finnst einnig að ríkið eigi ekki að innheimta félagsgjöld af þeim einstaklingum sem skráðir eru utan trúfélaga. Er þetta ekkert annað en auka skattur á þessa einstaklinga.

Uppreist æru

Ungir sjálfstæðismenn vilja sjá breytingar á löggjöf er varðar uppreist æru. Íslenska ríkið á ekki að standa að því að veita dæmdum einstaklingum uppreist æru sinnar, æra verður ekki endurreist með einu pennastriki. Dæmdum einstaklingum á þó að vera kleift að öðlast aftur ýmis borgaraleg réttindi, eins og kjörgengi til Alþingis eða gegna ákveðnu embætti, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Skilgreina þarf því í ýmsum lagabálkum hvað felst í „óflekkuðu mannorði“ þannig að skilyrðin fyrir endurheimt borgaralegra réttinda sé skýr og gagnsæ. Ungir sjálfstæðismenn fagna þeim tillögum að lagabreytingu sem Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, vinnur nú að í dómsmálaráðuneytinu og mun leggja fram á komandi þingi.

Samgöngur

Hugmyndin að borgarlínunni er góð og hefur þó jákvæð skipulagsáhrif í borginni. Með nýjum leiðum og uppbyggingu mun höfuðborgarsvæðið njóta góðs af. Ungir Sjálfstæðismenn leggja til að sú leið sem valin verður, verði sú hagkvæmasta og í samræmi við nýjustu tækni og tækniþróun á 21. öldinni. Styrkja þarf fjölbreytta ferðamáta, svo sem hjólreiðar.

Uppbygging innviða þarf að eiga sér stað og þarf ríkið ekki alfarið að sjá um þá uppbyggingu þar sem einkaaðilar eru vel til þess fallnir. Sanngjarnara er að þeir sem nota borgi, sbr. Hvalfjarðargöngin.

Tryggja þarf aðgengi allra landsmanna að góðum og öruggum samgöngum og skulu þær vera í samræmi við þarfir íbúa.

Innflytjendur og alþjóðleg vernd

Ungir Sjálfstæðismenn vilja að Ísland taki á móti flóttamönnum og hælisleitendum í neyð. Ávallt skal hafa mannúðarsjónarmið, skilvirkni og skynsemi að leiðarljósi. Ungir Sjálfstæðismenn fagna breytingum dómsmálaráðherra á lögum og reglugerð um útlendinga sem gerir Útlendingastofnun m.a. kleift að hraða málsmeðferð eins og unnt er.

Ungir sjálfstæðismenn fagna þeim fjölbreytileika sem vinnst í samfélaginu með komu flóttamanna og innflytjenda. Rýmka ber þær heimildir sem gera fólki utan EES svæðisins kleift að búa og starfa á Íslandi.