Menntamál

Stefna Sambands ungra sjálfstæðismanna í menntamálum sem samþykkt var á Eskifirði á 44. sambandsþingi SUS.

Í náinni framtíð er það fyrirséð að íslenskt samfélag mun standa frammi fyrir fjölda áskorana í kjölfar þeirra miklu breytinga sem fylgja þeirri nýju og miklu tæknibyltingu sem nú er að hefjast. Stóraukin vélvæðing starfa og þróun gervigreindar munu hafa gífurlegar efnahagslegar, félagslegar og stjórnmálalegar umbyltingar í för með sér. Því er það orðið eitt stærsta verkefni stjórnmálanna í dag að gera íslenskt samfélag reiðubúið fyrir komandi breytingar og þar mun íslenskt menntakerfi óumflýjanlega þurfa að spila stórt hlutverk ef vel á að takast.

Því ber að efla núverandi menntakerfi með því að stórauka sjálfstæði skóla, stuðla að auknu valfrelsi einstaklingsins og fjölbreytileika náms. Nemendur eiga að hafa raunverulegt fjölbreytt val um námsleiðir á öllum skólastigum.

Samkeppni hvetur skóla til að mæta þörfum samfélagsins hverju sinni og býður upp á fjölbreytileika og einstaklingsmiðaðra nám. Þannig geta nemendur stundað nám á eigin forsendum og eru ekki allir steyptir í sama mót. Það verður þó ekki tryggt nema gerðar verði miklar breytingar á núverandi skólakerfi ásamt því að aðlaga aðalnámskrá að sveigjanlegra kerfi.

Frelsi skólanna er forsenda þess að hægt sé að virkja þann kraft sem býr í nemendum, kennurum og stjórnendum skólakerfisins. Reynslan sýnir að til dæmis frjálsir leik- og grunnskólar geta verið að skila betri árangri nemenda en skólar sem reknir eru af sveitarfélögum ásamt því að vera hagkvæmari.

Gera þarf róttækar breytingar á launakerfi kennara og gefa skólastjórnendum aukið svigrúm til að semja við starfsmenn sína á einstaklingsgrundvelli. Miðlægir kjarasamningar, líkt og þeir sem nú eru gerðir við kennara, skapa ekki árangurshvetjandi umhverfi í skólastarfi og hamlar þróun þess.

Tryggja þarf að íslensk tunga beri ekki skarðan hlut frá borði er kemur að tækniframförum og í íslensku samfélagi.

Ungir sjálfstæðismenn hvetja stjórnvöld til að auka sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum landsins.

Leik- og grunnskólar

Tryggja þarf sjálfstæði leikskóla þannig að val foreldra sé aukið og hagkvæmni tryggð. Foreldrar skulu hafa val um í hvaða leik- og grunnskóla barnið þeirra gengur. Þannig verður tryggt að sveitarfélögin greiði ákveðna upphæð með sérhverju barni óháð því hvers konar skóli verði fyrir valinu og í hvaða sveitarfélagi hann er í. Slík samkeppni er til þess fallin að efla skólastarfið.

Skólar þurfa að hafa frjálsar hendur til að byggja sér ákveðna sérstöðu, bæði í námi og kennslu. Aukin fjölbreytni í námi sem og aukin starfsráðgjöf og kynning stuðlar að því að nemendur geti fyrr kosið að fara verknámsleið í stað bóknáms og þannig minnkað brottfall úr framhaldsskólum.

Tryggja þarf að allir einstaklingar sem útskrifast úr grunnskóla geti lesið sér til gagns. Aukinn sveigjanleiki skal vera á milli skólastiga. Bæði á þann hátt að leikskólabörn geti farið yngri í grunnskóla og grunnskólanemar geti lokið framhaldsskólaáföngum ellega að bráðgerðir nemendur séu í auknum mæli leyft að færast upp um bekki. Einblína þarf á getu leik – og grunnskólanema og koma til móts við þarfir þeirra. Þá er mikilvægt að skoða hvernig best er að stytta grunnskólagöngu um eitt ár til að auka samkeppnishæfni íslenskra námsmanna í alþjóðlegu tilliti.

Framhaldsskólar

Auka þarf valfrelsi nemenda í framhaldsskólum og nútímavæða kennsluhætti, það eflir sérstöðu skólanna og eykur fjölbreytileika náms og sveigjanleika þess. Aukinn sveigjanleiki milli skólastiga felur ekki einungis í sér hagræðingu í menntakerfinu heldur jafnframt hagræðingu fyrir samfélagið þar sem fólk fer fyrr út á vinnumarkaðinn.
Fjölga þarf sjálfstætt reknum framhaldsskólum sem mynda sér sérstöðu og bjóða þannig nemendum upp á fjölbreyttara og betra val námsleiða sem er betur sniðið að þeim sem einstaklingum. Taka ætti upp ávísunarkerfi í framhaldsskólakerfinu.

Afnema ætti lögbundna mætingarskyldu til að veita skólum aukið frelsi til að setja sín viðmið. Það myndi auka metnað kennara við kennslu og koma betur til móts við nemendur með sérþarfir.

Háskólar

Menntun, vísindi og nýsköpun gegna lykilhlutverki við uppbyggingu atvinnulífs og eflingu lífsgæða á Íslandi til frambúðar. Háskólanám er fjárfesting fyrir bæði nemendur og samfélagið og æskilegt er að opinberum háskólum verði veitt heimild til innheimtu skólagjalda.

Kappkosta þarf að auka samvinnu og samhæfingu íslenskra háskóla- og vísindastofnanna. Mikilvægt er að skoða sameiningar slíkra stofnanna í því samhengi. Framlög hafa verið aukin til rannsókna og nýsköpunar. Sú fjárfesting er ein meginstoð háskólastarfsemi og verðmætasköpunar og þarf að hafa markaðslegar forsendur að markmiði í auknum mæli.

Sérstaklega ber að styðja við frumkvöðla og nýsköpunarstarf háskólanna og auka tengsl þeirra við atvinnulífið. Endurskoða þarf hlutverk rannsóknarstofnana og meta hvort starfsemi þeirra sé í takt við nútímaþarfir háskóla og atvinnulífs. Sá rammi sem mótaður er um starfsemi háskóla má ekki draga úr frelsi þeirra til sjálfstæðrar starfsemi og stjórnunar. Samstarf og samkeppni þarf að haldast í hendur og gott samstarf við erlenda háskóla mun laða að íslenska og erlenda námsmenn og kennara allt með það í huga að styrkja stöðu háskólastarfsemi á Íslandi.

Halda þarf áfram vinnu við nýtt lánasjóðsfrumvarp síðustu ríkisstjórnar. Tryggja þarf að nýtt lánasjóðskerfi að norrænni fyrirmynd jafni stöðu nemenda, taki mið af breyttum þörfum atvinnulífs og sé árangurshvetjandi.