Ályktun SUS um nýja ríkisstjórn og stjórnarsáttmála

Samband ungra sjálfstæðismanna fagnar nýrri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, undir forystu Bjarna Benediktssonar, og lýsir yfir ánægju sinni með frjálslynda stefnuyfirlýsingu hennar.

Sérstaklega ber að hrósa áherslum ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum þar sem stefnt er að því að Ísland verði skuldlaust innan tíu ára, á sama tíma og stór skref verða stigin til þess að opna bókhald ríkisins. Þannig verður hægt að nýta sterka stöðu ríkissjóðs til þess að draga úr álögum á fólk og fyrirtæki, treysta grunnþjónustu hins opinbera og búa jafnframt í haginn fyrir komandi kynslóðir.

Eins er fagnaðarefni að til standi að einfalda skattaumhverfi fyrirtækja, lækka tryggingagjaldið og draga úr þörf fyrir ívilnanir og afslátt af opinberum gjöldum. Í þeim efnum mætti þó ganga mun lengra, fólki og fyrirtækjum til hagsbóta og lækka til að mynda tekjuskatt, erfðafjárskatt og fjármagnstekjuskatt. Ungir sjálfstæðismenn árétta að enn er mikið verk fyrir höndum að vinda ofan af öllum skattahækkunum vinstristjórnarinnar sálugu.

Ánægjulegt er að ný ríkisstjórn skuli setja sölu á eignarhlut ríkisins í bankakerfinu á dagskrá. Ríkið verður að draga sig út úr áhættusömum rekstri fjármálafyrirtækja sem allra fyrst, en heilladrjúg leið til þess væri að afhenda almenningi ákveðinn hlut í fyrirtækjunum án endurgjalds. Mikilvæg eru einnig þau áform um að endurskoða gjaldmiðilsstefnu landsins. Ríkisstjórninni gefst þannig kjörið tækifæri til þess að skoða af fullri alvöru einhliða upptöku annars gjaldmiðils.

Þá eru afdráttarlaus fyrirheit stefnuyfirlýsingarinnar um að búvörusamningarnir verði endurskoðaðir, með valfrelsi bænda og neytenda að leiðarljósi, mikið ánægjuefni.

Ungir sjálfstæðismenn harma hins vegar áform ríkisstjórnarinnar um að skylda fyrirtæki með 25 starfsmenn eða fleiri til þess að taka upp ríkisstaðlaða jafnlaunavottun. Slík aðgerð yrði fyrirtækjum verulega íþyngandi og myndi auka kostnað og skrifræði svo um munar. Laun eiga að ráðast á frjálsum markaði, ekki innan stofnana ríkisins.

Ungir sjálfstæðismenn horfa björtum augum til stjórnarsamstarfsins og binda vonir sínar við að ný ríkisstjórn muni starfa í anda þess frjálslyndis sem endurspeglast skýrlega í stefnuyfirlýsingunni, aukins frelsis á öllum sviðum og lægri skatta.

Samþykkt þann 17.01.2017