Stjórnskipunarmál

Stjórnarskráin er grundvöllur stjórnskipunar landsins. Þar er auk þess kveðið á um grundvallarréttindi manna sem mega ekki vera vafa undirorpin þegar á reynir, en ákvæði núgildandi stjórnarskrár hafa samtvinnast réttarvitund þjóðarinnar í áranna rás og eru mikilvæg undirstaða réttaröryggis. Allar breytingar á núverandi stjórnarskrá skal nálgast af yfirvegun og skynsemi. Heildarendurskoðun sem umturnar öllum ákvæðum stjórnarskrárinnar samræmist illa sjónarmiðum um réttaröryggi og fyrirsjáanleika. Að sama skapi telur SUS mikilvægt að breytingar á stjórnarskrá séu gerðar í víðtækri pólitískri sátt og hafnar því alfarið að tillögur stjórnlagaráðs frá 2012 verði teknar upp og innleiddar í heild sinni.

Aftur á móti fagnar SUS öllum yfirveguðum umræðum um nauðsynlegar breytingar á stjórnarskrá. Mikilvægt er að pólitískar stefnuyfirlýsingar rati ekki inn í stjórnarskrána, enda er það hlutverk almennra laga að taka mið af pólitísku umhverfi hverju sinni.

Endurskoða þarf hlutverk og stöðu forseta Íslands. Setja þarf embættinu skýrt hlutverk og valdmörk. Landsdómur skal lagður niður og samhliða skal fara fram endurskoðun á ákvæðum um ráðherraábyrgð og eftirlitshlutverk Alþingis skilgreint betur, t.a.m. þarf að gera betur grein fyrir hlutverki stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. 

Rekstur dómstóla er eitt af grunnhlutverkum hins opinbera. Nauðsynlegt er að einstaklingar geti fengið úrlausn ágreiningsmála sinna fyrir hlutlausum dómstólum. 

Skipun dómara á að vera í höndum dómsmálaráðherra. Mikilvægt er að sjálfstæði dómstóla sé gætt við skipun dómara, þar sem tekið er tillit til faglegs mats tiltekinna fulltrúa. Þó getur slíkt hæfismat ekki verið of útilokandi, veita þarf ráðherra tiltekið svigrúm við skipun dómara, enda sætir ráðherra pólitískri ábyrgð gagnvart almenningi