Utanríkismál

Stefna Sambands ungra sjálfstæðismanna í utanríkismálum sem samþykkt var á Eskifirði á 44. sambandsþingi SUS.

Evrópumál

Ungir sjálfstæðismenn telja nú sem fyrr hagsmunum Íslands best borgið utan Evrópusambandsins.

Ungir sjálfstæðismenn styðja þjóðréttarsamninga um frjáls viðskipti milli landa og eru því hlynntir áframhaldandi aðild að EFTA, evrópska efnahagssvæðinu og Schengen.

Norðurslóðir og hafsvæðið í kringum Ísland

Íslenskum stjórnvöldum ber að gæta hagsmuna Íslands hvað varðar málefni norðurslóða. Ljóst er að með opnun nýrra siglingaleiða mun skipaumferð í kringum landið aukast til muna, sem aftur kallar á frekari aðgerðir í eftirlits- og öryggismálum. Skoða ber þau tækifæri, sem felast í byggingu umskipunarhafnar, opnum augum.

Miklu máli skiptir að rödd Íslands heyrist þegar málefni norðurslóða eru rædd og að allar helstu ákvarðanir, sérstaklega um nýtingu auðlinda og siglingar, séu ræddar á vettvangi þar sem Ísland á fulltrúa.

Loftslagsmál

Hlýnun jarðar er eitt helsta vandamál sem steðjar að mannkyninu. Brýnt er að ríki heims taki höndum saman til þess að sporna við aðsteðjandi umhverfisvá, en breytingar á veðurfari munu ekki síst hafa áhrif hér á landi. Ungir sjálfstæðismenn fagna Parísarsamkomulaginu, og harma það að sumar vinaþjóðir okkar skuli standa utan þess.

Öryggis- og varnarmál

Vestræn samvinna skiptir höfuðmáli í öryggi landsins. Aðildin að Atlantshafsbandalaginu (NATO) er sem fyrr hornsteinn íslenskrar öryggisstefnu. Ungir sjálfstæðismenn telja að landið eigi að leggja sitt af mörkum til þeirra borgaralegu verkefna sem unnin eru á vettvangi bandalagsins. Ísland er og verður herlaust land. Því telja ungir sjálfstæðismenn að varnarsamningurinn við Bandaríkin, auk samvinnu við önnur nágrannaríki okkar, sé nauðsynleg viðbót við aðildina að NATO.

Ungir sjálfstæðismenn fagna því að loksins hafi tekist að setja á laggirnar sérstakt þjóðaröryggisráð með aðkomu allra flokka á þingi. Þá fagna þeir því sérstaklega að tekist hafi að móta þjóðaröryggisstefnu sem taki tillit til hinna fjölbreyttu þátta öryggismála.

Þróunaraðstoð

Ungir sjálfstæðismenn telja að markmið þróunaraðstoðar sé að auka velsæld íbúanna í þróunarríkjunum. Einn lykilþáttur til að ná því markmiði er að afnema viðskiptahindranir, svo sem með því að fella einhliða niður tolla á milli Íslands og þróunarríkja. Íslenska ríkið á einnig að styðja við þau þróunarverkefni sem miða að uppbyggingu innviða og eflun menntunar og heilbrigðisþjónustu. Þá mætti skoða það betur, hvernig íslenskir einkaaðilar geti beitt sér í þróunarmálum og horfa þar til þess fordæmis sem hinar Norðurlandaþjóðirnar hafa sett.

Ungir sjálfstæðismenn telja að Íslandi beri að taka við fólki á flótta undan ofsóknum og átökum. Mikilvægt er að umsóknir hælisleitenda fái mannsæmandi úrvinnslutíma en séu ekki á volki í kerfinu í langan tíma.

Önnur mál er varða sjálfstæði og utanríkismál

Ungir sjálfstæðismenn fagna nýframkomnum tillögum sem miða að því að auka skilvirkni utanríkisþjónustunnar. Mikilvægt er að henni sé sinnt á sem bestan hátt, án þess að keyrt sé fram úr hófi miðað við stöðu landsins á alþjóðavísu. Gera þarf átak í gerð fríverslunar-, tvísköttunar- og loftferðasamninga og efla þarf samskipti við erlend ríki með viðskiptasjónarmið í huga. Ungir sjálfstæðismenn telja brýnt að hugað sé að auknu samstarfi við Breta í kjölfar útgöngu þeirra úr Evrópusambandinu. Þá vilja ungir sjálfstæðismenn að sérstaklega verði leitað eftir fríverslunarsamningum við Bandaríkin.

Ungir sjálfstæðismenn styðja fullveldi þjóða og harma því afskipti utanaðkomandi ríkja af innanlandsmálum þeirra, nema mannúðarsjónarmið liggi að baki.