Heilbrigðismál

Stefna Sambands ungra sjálfstæðismanna í heilbrigðismálum sem samþykkt var á Eskifirði á 44. sambandsþingi SUS.

Nauðsynlegt er að skera niður í rekstri ríkisins, en brýnt era ð tryggja að þeim fjármunum sem varið er til heilbrigðismála sé ráðstafað þannig að þjónusta sé efld og með því dregið úr óþarfa kostnaði. Efla þarf nýsköpun í heilbrigðiskerfinu og ríkið má á engan hátt torvelda einkaaðilum sem koma fram með nýjungar í heilbrigðisþjónustu.

Sjálfstæður rekstur verði aukinn

Ríkið má ekki með nokkru móti leggja stein í götu þeirra einkaaðila sem vilja koma að heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Uppfylli stofnun þau skilyrði sem gerð eru til reksturs heilbrigðisstofnana má ekki tefja eða koma í veg fyrir að slík fyrirtæki geti hafið þjónustu. Það er með öllu ótækt að ríkið setji sig upp á móti einstökum framkvæmdum í heilbrigðisgeiranum.

Einkaframtak í heilbrigðismálum mun auka fjölbreytileika og gæði heilbrigðisþjónustu landsins sem og efla nýsköpun í greininni. Draga ber úr afskiptum ríkisins af rekstri heilbrigðiskerfisins t.d með því að fela einkaaðilum rekstur heilbrigðistofnana í auknum mæli sem eykur og bætir þjónustu við sjúklinga.

Ríkið skal greiða jafnmikið með sjúklingum, óháð því hvert rekstrarform þeirrar stofnunar er sem sjúklingurinn velur. Aukið valfrelsi mun skapa tækifæri fyrir ný fyrirtæki í heilbrigðisgeiranum. Heimila á öllum stéttum heilbrigðisgeirans að auglýsa þjónustu sína og verð, slíkt stuðlar að aukinni samkeppni sem skilar sér í verðlækkunum, hætti launum heilbrigðisstarfsólks og betri þjónustu.

Auka þarf skilvirkni og stytta biðlista

Meta þarf áhrif breytinga á þjónustu m.t.t. sjúklinga frekar en stofnana. Einnig þyrfti að endurskoða starfsskipulag stofnana innan heilbrigðiskerfisins. Verklagsreglur þurfa að vera mun skýrari og tryggja þarf að tími lækna nýtist betur. Gera þarf heilbrigðisstarfsmönnum í auknum mæli kleift að vinna verkefni sem ekki krefjast sérfræðikunnáttu lækna.

Setja þarf stjórn yfir Landspítalann til að tryggja að fjármagn fari í það sem máli skiptir og nýtist sem best. Brýnt er að stjórnvöld marki sér heildræna framtíðarstefnu í heilbrigðismálum.

Geðheilbrigðismál og ungt fólk

Stórauka þarf geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi. Forvarnir, aðgengi að þjónustu og eftirfylgni skiptir þar höfuðmáli. Bæta þarf samstarf grunn- og framhaldsskóla og heilbrigðisstofnana þegar kemur að geðheilbrigðismálum barna og ungmenna með fjölgun stöðugilda skólasálfræðinga. Sjá verður til þess að börn og ungmenni hafi greiðan aðgang að geðheilbrigðisþjónustu án aðkomu foreldra eða forráðamanna.

Sporna þarf gegn fjölgun ungra öryrkja til dæmis með því að efla starfsendurhæfingu og beita starfsmati frekar en örorkumati. Vinna þarf markvisst að því að koma fólki sem getur út í atvinnulífið og fækka þar með fólki sem er að þiggja bætur.

Aukið valfrelsi í heilbrigðiskerfinu

Samþykki tveggja heilbrigðissérfræðinga á ekki að vera skilyrði fyrir því að konur geti gengið undir fóstureyðingu. Sjálfsákvörðun konu á að vera algjör. Einnig ætti að leyfa staðgöngumæðrun undir sömu forsendum.

Mikilvægt er að skoða hvort leyfa eigi dánaraðstoð hérlendis líkt og tíðkast víðast annarstaðar.

Nútímaleg heilbrigðisþjónusta

Efla stafræna heilbrigðisþjónustu í samræmi við nútíma tækni. Vinna þarf markvisst að því að koma snjalllausnum að í heilbrigðiskerfinu svo sem fjarþjónustu þegar hún á við. Heilbrigðiskerfið þarf að fylgja tækniþróuninni.

Nútímavæða samskiptakerfi með öllum mögulegum tækninýjungum til að brúa bil sjúklinga og starfsmanna heilbrigðisgeirans. Myndi það auðvelda fyrir sjúklingum og aðstandendum að halda utan um sín mál.

Persónuvernd

Allar kynfæraaðgerðir á börnum verði óheimilar án samþykkis þeirra, óháð aldri.