Stefna

Ungir sjálfstæðismenn trúa á frelsi mannsins og mannsandans. Stefna sambands er ákveðin á sambandsþingum.

Ungir sjálfstæðismenn trúa á frelsi mannsins og mannsandans. Frjáls viðskipti eru grundvöllur viðvarandi hagsældar á Íslandi og forsendur efnahagslegra framfara. Ríkisvaldið á því að lágmarka afskipti sín af viðskiptum einstaklinga og fyrirtækja. Fjölbreytni þrífst best í frjálsu samfélagi.

Ungir sjálfstæðismenn styðja Sjálfstæðisflokkinn að málum og fylgja sjálfstæðisstefnunni, sem setur traust sitt á sérhvern einstakling og frelsi hans í þeirri vissu, að fái frumkvæði hans, framkvæmdaþróttur og kapp notið sín, miði skjótast áfram. Menn eiga að fá notið ávaxta verka sinna og sjá tilgang í því að leggja sig alla fram. Sagan sýnir að þegar saman fer jafnrétti manna og umbun fyrir erfiði og atorku, þá miðar þjóðfélaginu sem heild hraðast fram á veg.

Ungir sjálfstæðismenn geta verið stoltir af sögu sinni. Mörg framfaramál á Íslandi hafa átt uppruna sinn innan raða ungra sjálfstæðismanna. Nokkur nýleg dæmi eru endurskoðun refsistefnu í fíkniefnamálum sem á sér stað um þessar mundir, frjáls útvarps- og sjónvarpsrekstur, sala bjórs, jöfnun atkvæðavægis, samkeppni á farsímamarkaði, frelsi til útsendinga gervihnattastöðva, vaxtafrelsi, einkavæðing atvinnuvega, lækkun skatta og frjáls afgreiðslutími verslana.

Stefna Sambands ungra sjálfstæðismanna er mótuð á þingum sambandsins.

Hér má sjá stefnu sambandsins sem ákveðin var á 44. sambandsþingi SUS, 8.-11. september 2017 sem bar yfirskriftina: „Frelsi, farsæld og fjölbreytni“: