Umhverfis- og samgöngumál

Í umhverfis- og samgöngumálum leggur SUS áherslu á úrbætur í samgöngum með samvinnu ríkis og einkaaðila. SUS vill setja samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins í forgang og tryggja frelsi einstaklingsins til að velja samgöngumáta. SUS leggur áherslu á nýsköpun í loftslags- og umhverfismálum og vill tryggja hvata fyrir einstaklinga og fyrirtæki til að stuðla að orkuskiptum. SUS telur mikilvægt að tryggja óhindraða dreifingu á orku á milli landshluta. Þá berst SUS fyrir bindingu gróðurhúsalofttegunda og leggur að auki áherslu á hringrásarhagkerfið og sjálfbærni. SUS vill stuðla að náttúruvernd en treysta einstaklingum til að framfylgja sjálfbærri nýtingu auðlinda.

Samgöngur

Samgöngur eru lífæð samfélagsins og hafa áhrif á hvern einasta landsmann. Mikilvægt er að ráðast í alvöru úrbætur í samgöngum með auknum framkvæmdum. Í slíkum framkvæmdum er nauðsynlegt að nýta fjölbreytta fjármögnun og fara samstarf við einkaaðila með svokallaðri PPP (e. Public and Private Partnership) leið. Með samstarfi hins opinbera og einkaaðila er hægt að ráðast í fleiri innviðaverkefni enn ella og stuðla í leiðinni að fjölgun starfa og auknum hagvexti.

Vegna yfirvofandi orkuskipta í samgöngum þarf að endurhugsa fjármögnun kerfisins upp á nýtt, í því samhengi er hægt að skoða veggjöld sem fýsilegan kost. Heimila skal framkvæmdaraðilum að innheimta vegtolla en gæta skal hófs í verðlagningu og tryggja þarf jafnræði milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins.

Orkuskipti eru nauðsynleg til að standast kröfur um minni losun gróðurhúsalofttegunda. Tryggja þarf hvata fyrir einstaklinga og fyrirtæki til að stuðla að orkuskiptum í samgöngum. Hið opinbera á að beita hvötum í formi skattaafsláttar til að stuðla að orkuskiptum í stað hærri skatta, boða og banna. Gera þarf niðurfellingu á virðisaukaskatti vegna umhverfisvænna ökutækja ótímabundna og hækka þarf hámarkið sem slík niðurfelling takmarkast við.

Setja þarf Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins í forgang og tryggja frelsi einstaklingsins til að velja samgöngumáta og á enginn einn samgöngumáti að þrengja að öðrum.

Reykjavíkurflugvöllur gegnir mikilvægu öryggishlutverki fyrir allt landið og er því brýnt að hann verði óskertur í Vatnsmýri þar til annar jafn góður eða betri kostur er tilbúinn til notkunar.

Raforka og fjarskipti

Ísland býr yfir gífurlegu magni af umhverfisvænum orkugjöfum, s.s. vatnsafl, jarðvarma og vindorku. Flýta þarf uppbyggingu innviða til að tryggja óhindraða dreifingu á orku milli landshluta og til nýtingaraðila. Ráðast þarf í innviðauppbyggingu við t.d. hafnir og flugvelli og tryggja nægt framboð af rafmagni. Einfalda þarf regluverk og koma í veg fyrir að einstaka aðilar geti hindrað uppbyggingu á mikilvægum grunninnviðum, s.s. raforkudreifikerfi. SUS fagnar frábærum árangri í ljósleiðaravæðingu á Íslandi. Afhendingaröryggi raforku á landsbyggðinni þarf að tryggja sem fyrst. 

Stuðla þarf að heilbrigðri samkeppni á raforkumarkaði og fella skal niður flutningsgjald af raforku í þeim tilvikum þar sem unnt er að tengja starfsemi beint við virkjanir.

Loftslagsmál

Loftslagsmál eru eitt af mest aðkallandi málefnum 21. aldarinnar. Ísland er í kjörstöðu til að vera leiðandi í loftslagsmálum á heimsvísu, einkum vegna staðsetningar, náttúruímyndar og grunninnviða. Nýsköpun og einkaframtakið eru forsendur þess að stjórnvöld geti náð þeim metnaðarfullu markmiðum sem þau hefur sett sér. Minnka þarf skrifræði og auka skilvirkni í styrkjaumhverfi á sviði nýsköpunar.

Ísland á að vera miðpunktur nýsköpunar í umhverfismálum og laða að sér alþjóðleg fyrirtæki, fjárfesta og frumkvöðla sem starfa á þessum vettvangi.

Stærstu einstöku aðgerðirnar til að binda gróðurhúsalofttegundir eru uppgræðsla á votlendi og jarðvegsbinding. Hið opinbera þarf að stuðla að frekari hvötum fyrir slíkum aðgerðum og efla samstarf við landeigendur. Ráðast verður strax í átak að efla skógrækt og grisja þá skóga sem fyrir eru.

Veita þarf skattalega hvata fyrir grænum lánum og grænum skuldabréfum. Taka þarf sérstakt tillit til umhverfisvænna fjárfestinga í útreikningi á veiðigjaldi. 

Hringrásarhagkerfið

Ísland á að vera sjálfbært með sínu hringrásarhagkerfi. Til að mynda þegar kemur að endurnýtingu og endurvinnslu. Efla þarf innviði og tryggja þarf aðkomu einkaaðila að slíkum verkefnum, til dæmis með PPP (e. Public and Private Partnership) fyrirkomulagi.

Endurskoða þarf ramma og verðskrá Úrvinnslusjóðs m.t.t. fjárhagslegra hvata til að minnka kolefnisspor og styrkja innlenda virðiskeðju. Mikilvægt er að samræma merkingar fyrir flokkun, söfnun úrgangs og endurvinnslu til að gera framkvæmdina skýrari og einfaldari milli sveitarfélaga og landshluta.

Innleiða þarf hagræna hvata fyrir matargjafir og létta á óþarflega umfangsmiklu regluverki um matvæli til að minnka sóun.

Náttúruvernd

Einstaklingum er best treystandi til að framfylgja sjálfbærri nýtingu auðlinda. Virða ber eignar- og nýtingarrétt einstaklinga á lögvernduðum auðlindum og ekki skal gripið til eignarnáms eða skerðingar á slíkum réttindum einstaklinga.

SUS lýsir yfir andstöðu við stofnun Hálendisþjóðgarðs í núverandi framsetningu. Ákvörðun um stofnun hálendisþjóðgarðs þarf að vera gerð í góðri samvinnu allra hagsmunaaðila, einkum sveitarfélaga. Kostnaðar- og rekstraráætlun verður að liggja fyrir við stofnun þjóðgarðs. Tryggja verður ferðafrelsi einstaklinga um hálendið. Stíga verður varlega til jarðar þegar vænlegir virkjunarkostir og flutningsleiðir fyrir raforku eru friðlýst, enda framboð af rafmagni forsenda orkuskipta.