Efnahags- og skattamál

Samband ungra sjálfstæðismanna (SUS) sér gnægð tækifæra í íslensku efnahagslífi á komandi árum. Til þess að grípa þessi tækifræi kallar SUS eftir því að Sjálfstæðisflokkurinn ráðist í ítarlega naflaskoðun á stefnu sinni sem snýr að hlutverki hins opinbera. Samhliða þessari naflaskoðun er tímabært að endurskoða skattkerfið með róttækum hætti svo hægt verði að stuðla að auknum sparnaði og frekari fjárfestingu. Með endurskilgreiningu á hlutverki hins opinbera er fyrst og fremst átt við það að Sjálfstæðisflokkurinn sé skýr á því hvaða þjónustu hið opinbera eigi að veita og hvaða þjónusta tilheyri ekki verkahring hins opinbera. 

Skýr markmið í skattamálum

Skattar eru samkomulag samfélagsins til þess að standa skil af sameiginlegum útgjöldum og því ætti hið opinbera ávallt að nálgast skattlagningu með friðhelgi eignaréttar og jafnræði að leiðarljósi. Skattar ættu í grunninn að vera fáir, lágir og einfaldir fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Allar smáþjóðir ættu að sjá hag sinn í samkeppnishæfu skattaumhverfi, því lífskjör þeirra eru oft háðari alþjóðlegri verslun og viðskiptum. Tilgangur skattkerfisins er að afla ríkinu tekna og því ætti, eftir fremsta megni, að minnka umsvif ríkisvaldsins og þannig draga úr þörfinni á skatttekjum. SUS kallar eftir því að Ísland setji sér markmið um að komast á topp 5 lista International Tax Competitiveness Index. Samband ungra sjálfstæðismanna kallar eftir því að stjórnvöld afnemi alla tolla og láti fjármagnstekjuskatt aðeins leggjast á raunávöxtun. 

Sjálfbær ríkisrekstur

Heimsfaraldurinn hefur sannað mikilvægi traustrar efnahagsstefnu og hóflegrar skuldastöðu hins opinbera. Leggja þarf kapp á niðurgreiðslu opinberra skulda svo ríkissjóður geti tekist á við ófyrirséð efnahagsleg áföll í framtíðinni. Ráðast þarf í skýrar aðgerðir til þess að tryggja að ríkissjóður verði rekinn með sjálfbærum hætti á næstu árum. Í þessu skyni ætti ríkið að sameina ríkisstofnanir, selja opinber fyrirtæki og fasteignir sem ekki eru nýttar með hagkvæmum hætti. 

Hið opinbera á ekki að vera í samkeppnisrekstri. Leggja þarf áherslu á að minnka umsvif hins opinbera á ýmsum vígstöðum og færa þarf fleiri verkefni til einkaaðila sem geta sinnt þeim með hagkvæmari hætti. Þeim markmiðum er hægt að ná án þess að skerða þjónustu. Til þess að hefja nýtt og farsælt hagvaxtarskeið telur SUS t.d. mikilvægt að stjórnvöld auki samvinnu einka- og opinberra aðila við uppbyggingu innviða. 

Hefjast skal handa við sölu ríkisfyrirtækja. Hið opinbera á ekki að vera í samkeppnisrekstri, óháð geirum. SUS fagnar til að mynda vel heppnaðri sölu á hlutum í Íslandsbanka. Færa þarf fleiri verkefni til einkaaðila sem snúa til að mynda að heilbrigðisþjónustu, menntamálum og eftirlitsstarfsemi. Til eru fjölmörg norræn fordæmi. Nýta skal tækifæri í samvinnu einka- og opinberra aðila við uppbyggingu innviða, svo hægt sé að stuðla að frekari hagvexti og atvinnusköpun.

Atvinnumál

Launahækkanir á Íslandi hafa síendurtekið verið umfram getu atvinnulífsins. Afleiðing þess hefur verið meiri verðbólga, hærra vaxtastig og skert samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja. Til að tryggja sjálfbæra launaþróun skorar SUS á stjórnvöld að taka upp samningalíkan að norrænni fyrirmynd.