Hvert haust er lagt fram á alþingi frumvarp til breytinga á ýmsum lögum er varða fjármál ríkisins, bandormurinn er það kallað. Frumvarpið er samið í beinum tengslum við fjárlög og hefur áhrif bæði á tekju- og gjaldahlið fjárlagafrumvarpsins. Í síðasta bandormi var lagt til afnám tolla á fatnað og skó og þannig staðið við yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við gerð kjarasamninga vorið 2015. Bandormurinn mælti hins vegar fyrir um frekara afnám tolla í ljósi þess að fjármálaráðuneytinu bárust ábendingar um óheppilegt misræmi við álagningu tolla. Þannig var athygli fjármálaráðuneytisins vakin á því
„að misháir tollar væru lagðir á einnota bleiur og bleiufóður annars vegar og margnota bleiur og bleiufóður hins vegar.“
Þá hafði ráðuneytið vaknað upp við þann vonda draum að fólk með mjólkuróþol var ekki jafnsett fólkinu á spenanum þegar kom að ís. Nýlega voru felldir niður tollar á drykkjarvörum úr sojabaunum og öðru sambærilegu sem mjólkuróþolsfólk drekkur gjarnan. Hins vegar hefur ís unnin úr þessum vörum verið tollaður í drep. Svo bandormurinn tók á þessu. Og varahlutum í reiðhjól.
Frábært. Þessi dæmi úr bandorminum sýna hversu furðuleg tollaframkvæmdin hefur verið og ógagnsæ. Þegar bandormurinn kom til afgreiðslu alþingis, í Efnahags- og viðskiptanefnd, voru lögð á borðið fleiri dæmi um mismunun milli vörutegunda. Til dæmis 59% tollurinn á kartöflusnakk, það sem kallast í tollheimum:
„nasl, svo sem skífur, skrúfur, hringir, keilur og stangir o.þ.h., þó ekki úr kartöflumjöli“
Sem sagt snakk úr eiginlegum kartöflum. Snakk úr kartöflumjöli, og maískornum, hefur ekki borið neinn toll. Auðvitað brást nefndin við þessari ábendingu með því að leggja til afnám þessa ofurtolls, – allt þar til íslenskir snakkframleiðendur (sem nota þó ekki kartöflur í sína framleiðslu) yggldu sig og fóru ekki grafgötur með ástæðuna. Þeir sögðust vera í samkeppni við innflutning í þessum vöruflokki. Íslenskir neytendur hafa greitt um 160 milljónir á ári til þess að vernda íslenska framleiðslu sem telur um 20 störf og um það bil 5% af snakkmarkaðinum hérlendis. Svona eru verndartollar í hnotskurn.
Nefndin féll því miður frá samstöðu sinni um tollaniðurfellinguna svo undirrituð flutti málið ein en fékk að lokum marga nefndarmenn með á málið. Ánægjulegt var svo að sjá almenna samstöðu um málið í atkvæðagreiðslu. En betur má ef duga skal.
Tollar eru heimatilbúinn vandi
Tollar eru meinsemd þar sem þeir eru lagðir á, hvort sem það er gert til tekjuöflunar (sem þekkist varla lengur í þróuðum löndum) eða til verndar innlendri framleiðslu.
Því er haldið fram að öll ríki hafi tolla og þess vegna þurfi Ísland líka að hafa tolla. Því er haldið fram að Ísland þurfi að eiga „skiptimynt“ í viðræðum við önnur ríki um afnám þeirra tolla. Þetta segja einmitt þeir sem mesta hagsmuni hafa af tollum en um leið viðurkenna þeir að markmiðið er að afnema tolla. Trúi menn því hins vegar virkilega að tollar á Íslandi séu skiptimynt í viðræðum við stórþjóðir þá er okkur ekkert að vanbúnaði að spila út þessu trompi með afnámi tolla. Okkar viðskiptalönd fylgja þá í kjölfarið með afnámi á tollum á íslenskum vörum. Hví skyldu þau ekki gera það? Með því að vilja enga tolla afnema, fyrr en aðrir geri það, er horft framhjá hagsmunum neytenda. Verndartollar í öðrum ríkjum eiga ekki að duga sem afsökun fyrir því að svipta íslenska neytendur frelsinu. Með tollum eru hagsmunir allra látnir víkja fyrir hagsmunum fárra.
Milliríkjaviðskipti eru forsenda hagsældar. Það er siðlaust að kippa veikum stoðum undan fólki í þróunarlöndum sem reynir að koma vörum sínum á þá markaði í velmegunarlöndum. Tollar gera það.
Tollar eru deyjandi fyrirbæri og afar umfangsmikið alþjóðastarf miðar að því að fella niður tolla, t.d. GATT (e. General Agreement on Tarriffs and Trade). Það hefur gengið hægt en aukin milliríkjaviðskipti á netinu þokar nú málinu hraðar áfram. Íslensk stjórnvöld eiga að taka langt fram úr skriffinnskunni í GATT og hætta froðusnakkinu. Afnemum alla tolla.
- Bandormsfrumvarpið, með tilheyrandi umfjöllun um tolla, má finna hér
- Atkvæðagreiðslan um snakkið.