Heilbrigðismál

Stefna Sambands ungra sjálfstæðismanna í heilbrigðismálum sem samþykkt var í Vestmannaeyjum á 43. sambandsþingi SUS, þann 6. september 2015.

Heilbrigðismál

Nú, þegar niðurskurður í ríkisrekstri er nauðsynlegur, er brýnt að þeim fjármunum sem varið er til heilbrigðismála sé ráðstafað þannig að þjónusta sé efld og dregið úr kostnaði. Ekki má leggja stein í götu þeirra einkaaðila sem vilja koma að heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Uppfylli stofnun þau skilyrði sem gerð eru til heilbrigðisstofnana má ekki tefja eða koma í veg fyrir að slík fyrirtæki geti hafið þjónustu. Það er með öllu ótækt að ríkið setji sig upp á móti einstökum framkvæmdum í heilbrigðisgeiranum, t.d. einkarekið sjúkrahús á Suðurnesjum. Einkaframtak í heilbrigðismálum mun auka fjölbreytileika og gæði heilbrigðisþjónustu landsins. Draga ber úr afskiptum ríkisins af rekstri heilbrigðiskerfisins með því t.d. að fela einkaaðilum rekstur sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva í auknum mæli sem eykur og bætir þjónustu við sjúklinga. Ríkið skal greiða jafnmikið með sjúklingum, óháð því hvert rekstrarform þeirrar stofnunar er sem sjúklingurinn velur. Aukið valfrelsi mun skapa tækifæri fyrir ný fyrirtæki í heilbrigðisgeiranum.

Heilbrigðistengd ferðaþjónusta skapar möguleika á nýjum störfum og aukin tækifæri fyrir ungt fólk. Sameining stofnana og aukin samkeppni leiðir af sér hagræðingu og sparnað. Hagræða mætti enn frekar með sameiningu ýmissa heilbrigðisstofnana á eina hendi annaðhvort ríkis eða sveitarfélags. Þannig mætti halda sama þjónustustigi um allt land en jafnframt ná fram þeim sparnaði sem þörf er á. Meta þarf áhrif breytinga á þjónustu með tilliti til sjúklinga fremur en stofnana. Ungir sjálfstæðismenn hafna fyrirliggjandi áformum ríkisins um byggingu hátæknisjúkrahúss á lóð Landspítalans við Hringbraut, mikilvægt er að skoða betri staðarkosti fyrir nýjan spítala. Fjármögnun spítalans ætti ekki að auka skuldir ríkisins. Heimila á öllum stéttum heilbrigðisgeirans að auglýsa þjónustu sína og verð, slíkt stuðlar að aukinni samkeppni sem skilar sér í verðlækkunum, hærri launum heilbrigðisstarfsfólks og betri þjónustu.

Koma á hvatakerfi sem stuðlar að auknum bólusetningum án hamlana þar sem leikskólar halda utan um ópersónugreinanlega skráningu sem er aðgengileg foreldrum.