Utanríkismál

Stefna Sambands ungra sjálfstæðismanna í utanríkismálum sem samþykkt var í Vestmannaeyjum á 43. sambandsþingi SUS, þann 6. september 2015.

Evrópa

Ungir sjálfstæðismenn telja nú sem áður hagsmunum Íslands best borgið utan Evrópusambandsins. Ungir sjálfstæðismenn styðja hins vegar þjóðréttarsamninga um frjáls viðskipti milli landa og eru því hlynntir áframhaldandi aðild að Evrópska efnahagssvæðinu og Schengen.

Varnarmál

Það er skylda hvers ríkis að gæta öryggis borgara sinna. Aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO) er liður í því að gæta öryggis íslenskra borgara. Vestræn samvinna er besta leiðin til þess að tryggja öryggi vestrænna lýðræðisríkja. Með aðild að NATO sýna Íslendingar ábyrgð hvað varðar öryggi sitt. Íslendingar eiga að leggja sitt af mörkum í starfi NATO í takt við fjárhag landsins.

Hins vegar telja ungir sjálfstæðismenn aðild að NATO ekki nægjanlega í sjálfu sér til þess að gæta að öryggis lands og landhelgis. Íslenska ríkið er ekki burðugt til þess vegna smæðar sinnar að reka her. Því telja ungir sjálfstæðismenn að íslenska ríkið eigi að gera varnarsamninga við nágrannaríki sín til þess að tryggja að eðlilegum varnarstörfum sé sinnt frá degi til dags.

Varnarþörf landsins snýr ekki eingöngu að hernaðarlegum þáttum, t.d. er rétt að kalla eftir stefnumótun yfirvalda er varðar tölvu- og gagnaöryggi, efnahagsöryggi, og öðrum borgaralegum þáttum. Íslenska ríkið á að beita sér fyrir því að gagnasöfnun erlendra ríkja um íslenska ríkisborgara sé hætt.Ungir sjálfstæðismenn hafna því að íslensk stjórnvöld styðji hvers konar hernaðaríhlutun í öðrum ríkjum nema hún sé á vettvangi Sameinuðu þjóðanna eða NATO.

Norðurslóðir og hafsvæðið í kringum Ísland

Íslenskum stjórnvöldum ber að gæta hagsmuna Íslands hvað varðar málefni Norðurskautsins. Ljóst er að með opnun nýrra siglingaleiða mun skipaumferð í kringum Ísland aukast til muna. Aukin skipaumferð kallar á frekari aðgerðir í eftirlits- og öryggismálum.

Utanríkisdeilur

Ungir sjálfstæðismenn fordæma aðgerðir Rússlands í Úkraínu. Innlimun Krímskaga og hernaðarstuðningur landsins við aðskilnaðarsinna í austur Úkraínu eru skýrt brot á alþjóðalögum og verður að linna. Ungir sjálfstæðismenn styðja að íslenska ríkið fordæmi þessar aðgerðir. Þá harma Ungir sjálfstæðismenn viðskiptaþvinganir sem beinast að almennum borgurum.

Loftlagsmál

Hlýnun jarðar er eitt það helsta vandamál sem steðjar að mannkyninu í dag. Íslenska ríkið á að þrýsta á að alþjóðasamningur verði gerður á vettvangi Sameinuðu þjóðanna þar sem komið verður á mengunarkvótum sem ganga kaupum og sölum á markaði.

Þróunaraðstoð

Frjáls verslun er besta þróunaraðstoðin. Ungir sjálfstæðismenn telja að besta þróunaraðstoðin sé að fella einhliða niður tolla á milli Íslands og þróunarríkja. Einnig teljum við að eðlilegt sé að vestræn ríki skoði það að afskrifa skuldir á mjög illa stödd þróunarríki. Íslenska ríkið á að styðja við þau þróunarverkefni sem miða að uppbyggingu innviða og eflun menntunar og heilbrigðisþjónustu.

Ungir sjálfstæðismenn styðja móttöku flóttafólks enda skylda okkar sem meðlimur í alþjóðasamfélaginu. Íslandi ber að taka við eins mörgum flóttamönnum og við getum sinnt af kostgæfni.

Önnur mál er varðar sjálfstæði og utanríkismál

Mikilvægt er að ná fram hagræðingu í rekstri utanríkisþjónustunnar án þess að það skaði orðstír eða stöðu Íslands á erlendri grundu. Þannig má samræma og sameina rekstur einstaka sendiráða, reka þau í samstarfi við önnur Norðurlönd, fela einkaaðilum aukin verkefni erlendis o.s.frv. Gera þarf átak í gerð fríverslunar-, tvísköttunar- og loftferðasamninga og efla þarf samskipti við erlend ríki með viðskiptasjónarmið í huga.