Stjórnmálaályktun 46. sambandsþings SUS
Framkvæmdastjórn SUS afhenti í gær Birgi Ármannsyni, formanni þingflokks Sjálfstæðismanna, og þingflokki Sjálfstæðisflokssins stjórnmálaályktun 46. sambandsþings SUS.
46. sambandsþing SUS var haldið í Reykjanesbæ í samstarfi við Heimi, Félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ helgina 10.-12. september 2021.
Skrifaðar voru ályktanir í eftirfarandi málaflokkum; allsherjar- og menntamálum, umhverfis- og samgöngumálum, heilbrigðismálum, Covid-19, stjórnskipunar- og eftirlitsmálum, efnahags- og skattamálum, atvinnuvegamálum og utanríkismálum. Helstu áherslur SUS í þessum málaflokkum eru eftirfarandi:
Í umhverfis- og samgöngumálum leggur SUS áherslu á úrbætur í samgöngum með samvinnu ríkis og einkaaðila. SUS vill setja samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins í forgang og tryggja frelsi einstaklingsins til að velja samgöngumáta. SUS leggur áherslu á nýsköpun í loftslags- og umhverfismálum og vill tryggja hvata fyrir einstaklinga og fyrirtæki til að stuðla að orkuskiptum. SUS telur mikilvægt að tryggja óhindraða dreifingu á orku á milli landshluta. Þá berst SUS fyrir bindingu gróðurhúsalofttegunda og leggur að auki áherslu á hringrásarhagkerfið og sjálfbærni. SUS vill stuðla að náttúruvernd en treysta einstaklingum til að framfylgja sjálfbærri nýtingu auðlinda.
Í heilbrigðismálum hvatti SUS m.a. til þess að ríkið stæði ekki í vegi fyrir aðkomu einkaaðila að heilbrigðiskerfinu. Mikilvægt væri að forgangsraða heilbrigðisþjónustu á Landspítalanum til þess að auka gæði og skilvirkni spítalans og að einfaldari eða valkvæðum aðgerðum væri útvistað. Var einnig lögð áhersla á að fé fylgdi sjúklingi og að þeim væri gert kleift að velja hvar þeir sæki heilbrigðisþjónustu. Auk þess var kallað eftir aukinni nýsköpun, snjallvæðingu og skilvirkni. Enn fremur var vakin athygli á þörf fyrir betri geðheilbrigðisþjónustu og fyrirbyggjandi heilbrigðisþjónustu.
Í menntamálum leggur SUS áherslu á að fjölga sjálfstæðum skólum og að fé fylgi hverjum nemenda. SUS telur að gera eigi RÚV að sjálfstæðum fjölmiðli. SUS vill lækka áfengisaldurinn í 18 ára, afnema einokunarsölu ríkisins á áfengi og hömlur á sölu lausasölulyfja, auk þess sem sambandið telur að heimila eigi auglýsingar á áfengis- og tóbaksvörum. Þá telur SUS að fíkniefnaneysla sé heilbrigðismál og neysla þeirra og varsla neysluskammta eigi ekki að vera refsiverð.
Í utanríkismálum leggur SUS áherslu á áframhaldandi fjölgun á fríverslunarsamningum við ríki utan EES. Ísland eigi að halda áfram að beita sér fyrir jafnrétti kynjanna og gegn annars konar mismunun á alþjóðavettvangi. SUS telur að hagsmunum Íslands sé best borgið utan ESB og leggst alfarið gegn inngöngu í sambandið.
Í ályktunum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar SUS er lögð áhersla á stjórnarskrármál. Þar kemur fram að ákvæði núgildandi stjórnarskrár séu mikilvæg undirstoð réttaröryggis og réttarvitundar þjóðarinnar. Því telur SUS rétt að nálgast breytingar á stjórnarskrá af yfirvegun og skynsemi. Umræðum um nauðsynlegar breytingar á stjórnarskrá er fagnað, en áréttað að breytingar á stjórnarskrá þurfi að gera í víðtækri pólitískri sátt.
Fjallað var sérstaklega um Covid-19 í ályktunum SUS. Ungir sjálfstæðismenn leggja m.a. áherslu á að sóttvarnaaðgerðir taki mið af breyttri stöðu á Íslandi, þar sem nær öll þjóðin er fullbólusett. Mikilvægt sé að aðgerðir til að vernda viðkvæma hópa bitni ekki á öðrum hópum sem séu viðkvæmir fyrir þeim afleiðingum sem frelsisskerðingar hafa í för með sér, en fjöldatakmarkanir hafa þegar raskað lýðheilsu verulega. Auk þess kallar SUS eftir aukinni samvinnu við einkaaðila og að bætt sé úr upplýsingagjöf til almennings.
Í ályktun SUS í efnahags- og skattamálum er m.a. kallað eftir endurskoðun á hlutverki ríkisins. Vill SUS að Ísland setji sér það markmið að verða meðal efstu 5 á lista International Tax Competitiveness Index. SUS hvetur til þess að ríkið minnki umsvif sín í samkeppnisrekstri, að hafist handa verði við sölu ríkisfyrirtækja og að tryggja verði að ríkissjóður sé rekinn með sjálfbærum hætti. Þá skorar SUS á stjórnvöld að fylgja norrænni fyrirmynd og tryggja sjálfbæra launaþróun.