Atvinnumál
Orkumál
Ísland býr yfir gríðarlegum auðlindum í formi umhverfisvænna orkugjafa – vatnsafls, jarðvarma og vindorku. Ísland ætti hæglega að geta orðið óháð jarðefnaeldsneyti fyrst allra landa og á sama tíma nýtt græna orku til atvinnuuppbyggingar um land allt. Ísland á að stefna að því að vera miðpunktur orkusækins iðnaðar og laða til sín t.d. gagnaver, hátækni matvælaframleiðslu, rafhlöðuframleiðslu o.fl. með samkeppnishæfu raforkuverði. Til þess þarf aukið framboð raforku og aukna samkeppni á raforkumarkaði. Ísland á sömuleiðis að vera vakandi fyrir tækifærum sem gætu fylgt lagningu sæstrengja til annarra landa og þróun nýrra orkugjafa. Skapa ætti hvata til aukinna framleiðslu á grænu vetni sem hentar til útflutnings.
Sjávarútvegur
Íslenskur sjávarútvegur er sá eini innan OECD sem greiðir sértæka skatta meðan samkeppnisaðilar íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja eru flestir ríkisstyrktir. Kerfið á Íslandi er bæði sjálfbært og arðbært, sem hefur leitt af sér fjölda afleiddra fyrirtækja í sjávarútvegstengdri starfsemi. Þar að auki skapar greinin lífsviðurværi þúsunda fjölskyldna um land allt. Tryggja þarf að gjaldheimta í sjávarútvegi skilji eftir svigrúm til fjárfestinga, ekki síst grænna fjárfestinga, til að viðhalda samkeppnishæfni og áframhaldandi verðmætasköpun greinarinnar.
SUS fagnar þátttöku sjávarútvegsfyrirtækja á hlutabréfamarkaði og öðrum aðgerðum sem opna atvinnugreinina almenningi og auka vitund um starfsemi greinarinnar. Þar er fiskeldi engin undantekning, en áframhaldandi vöxtur fiskeldis er mikilvægur fyrir íslenskt efnahagslíf. Þar sem fiskeldi í sjó getur haft áhrif á náttúru og dýralíf, sem og eignarétt annarra aðila, skal einungis ráðist í frekari uppbyggingu í fyllsta samræmi við lög og vísindi.
Ferðaþjónusta
Ferðaþjónusta er ein af grunnstoðum atvinnulífsins á Íslandi og áframhaldandi uppbygging hennar er mikilvæg fyrir byggðir í landinu. Vöxtur greinarinnar er ekki sjálfsagður og tryggja þarf að regluverk sé sem einfaldast, aðgangshindranir rekstraraðila séu í lágmarki og leyfisskyldur sem fæstar. SUS styður gjaldtöku af hálfu landeigenda og hins opinbera á ferðamannastöðum, en eðlilegt er að þeir sem þá heimsæki greiði fyrir uppbygginguna. Þar sem ferðamannastaðir eru í eigu ríkisins ætti að bjóða út rekstur nauðsynlegrar þjónustu.
Fjármálamarkaðir
Fjármálamarkaðir leika lykilhlutverk í samkeppnishæfni atvinnulífsins. Með aukinni tækni- og alþjóðavæðingu eiga íslenskar fjármálastofnanir undir högg að sækja. Draga þarf úr kostnaði í bankakerfinu með heildarendurskoðun á eiginfjárkröfum íslenskra banka, íþyngjandi skatta og þunglamalegs regluverks, til að bæta kjör einstaklinga og atvinnurekenda. Einnig til að skapa svigrúm fyrir þær fjárfestingar sem nauðsynlegar eru í bankakerfinu á tækniöld. SUS áréttar að það er ekki hlutverk ríkisins að standa í samkeppnisrekstri á bankamarkaði, frekar en í öðrum geirum, og fagnar því að hafist sé handa við að losa um eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka. Mikið fé er bundið í eignarhaldi ríkisins í bankakerfinu sem er betur varið á öðrum stöðum.
Orkumál
Ísland býr yfir gríðarlegum auðlindum í formi umhverfisvænna orkugjafa – vatnsafls, jarðvarma og vindorku – sem eru í senn um fjórðungur útflutningstekna þjóðarbúsins. Ísland ætti hæglega að geta orðið óháð jarðefnaeldsneyti fyrst allra landa og á sama tíma nýtt græna orku til atvinnuuppbyggingar um land allt. Ísland á að stefna að því að vera miðpunktur orkusækins iðnaðar og laða til sín t.d. gagnaver, hátækni matvælaframleiðslu, rafhlöðuframleiðslu o.fl. með samkeppnishæfu raforkuverði. Til þess þarf aukið framboð raforku og aukna samkeppni á raforkumarkaði. Ísland á sömuleiðis að vera vakandi fyrir tækifærum sem gætu fylgt lagningu sæstrengja til annarra landa og þróun nýrra orkugjafa. Hrinda þarf í framkvæmd framleiðslu á grænu vetni sem hentar til útflutnings.
Landbúnaður og matvælaframleiðsla
Íslenskur landbúnaður á í samkeppni við erlendan ríkisstyrktan landbúnað. Einfalda þarf regluverk fyrir bændur til þess að stuðla að framþróun og nýsköpun í matvælaframleiðslu til dæmis með því að halda áfram með rýmkun á regluverki á heimaslátrun og vinnslu matvæla. Stefna ber að því að losa landbúnað við fjárstuðning ríkisins eins og hægt er, leggja framleiðslutakmarkanir af og vinna að því að hann geti búið við eðlilega markaðsafkomu. Það er best gert með því að lækka tilkostnað á öllum sviðum framleiðslu. Þá er mikilvægt að áfram sé losað sé um innflutningstakmarkanir á erlendum landbúnaðarafurðum í samráði við bændur.
Nýsköpun
Ísland á allt undir því að nýsköpun nái að blómstra. Nýsköpun verður ekki til án framtakssamra einstaklinga og fjármagns, sem sjá ávinning af áhættunni sem henni fylgir. Hlutverk hins opinbera er að tryggja að hér sé fjármögnunarumhverfi og mannauður sem hvetur til nýsköpunar. SUS fagnar stofnun sprota- og nýsköpunarsjóðsins Kríu en telur að til lengri tíma ætti að stefna að fjármögnunarumhverfi án aðkomu hins opinbera. Þá þarf að auðvelda erlendum sérfræðingum frá öllum heimshornum að setjast hér að og leggja enn meiri áherslu á nýsköpun á öllum stigum í íslensku menntakerfi.
Verslun og þjónusta
Það er allra hagur að á neytendamarkaði ríki samkeppni. Afnema á einokunarsölu ríkisins á áfengi og hömlur á sölu lausasölulyfja. Þá er löngu tímabært að endurskoða fyrirkomulag leyfa til leigubílaaksturs, fjölga þeim til muna og hleypa fleiri rekstraraðilum, á borð við Uber og Lyft, inn á markaðinn.
Byggingariðnaður
Ríkið á ekki að skapa óþarfar hindranir fyrir fólk í leit að húsnæði. Skattfrjáls ráðstöfun séreignarsparnaðar og helmings afsláttur stimpilgjalda fyrir fyrstu kaupendur voru skref í rétta átt, en gera þarf skattfrjálsa ráðstöfun séreignarsparnaðar að varanlegu úrræði og afnema á stimpilgjald alfarið. Þá er endurskoðunar þörf á regluverki og gjöldum í byggingariðnaðinum til að lækka kostnað, t.d. ferli sveitarfélaga við skipulagsákvarðanir, álagningu gatnagerðargjalda og kröfur um fjölda bílastæða. Hækkun fasteignaverðs verður aðeins tempruð með auknu framboði af húsnæði, en þar skiptir miklu máli að lóðum sé útdeilt til að auka framboð þeirra og þar með framboð húsnæðis. Varast skal aðgerðir sem snúa að eftirspurnar hliðinni.