Utanríkismál

Utanríkisverslun

Samband ungra sjálfstæðismanna (SUS) telur það forgangsmál að styrkja og efla utanríkisviðskipti Íslands og standa vörð um hagsmuni íslenskra útflutningsgreina. Þrátt fyrir góðan árangur í gerð fríverslunarsamninga er nauðsynlegt að halda ótrauð áfram. Aukinn þunga ætti að leggja í að koma á fríverslunarsamningi milli Íslands og Bandaríkjanna, og algjörri fríverslun með sjávarafurðir inn á EES-svæðið. Brýnt er að fjölga áfram gerð fríverslunarsamninga við ríki utan EES, tvíhliða eða í samvinnu við önnur EFTA ríki.

Brýnt er að tryggja áfram opinn og frjálsan aðgang að innri markaði Evrópusambandsins (ESB) á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES) og treysta viðskiptasambönd við Bandaríkin og Bretland.

Áframhaldandi hagsmunagæsla innan ramma EES er mikilvæg. Þá þarf að tryggja að tækifæri til áhrifa á öllum stigum mála innan EES verði nýtt til fulls, m.a. með aukinni skilvirkni í samræmi við tillögur sérfræðihópa um framkvæmd EES samningsins.

Mikilvægt er að leita allra leiða til að tryggja framkvæmd EES-samningsins á grundvelli tveggja stoða kerfisins.

Alþjóðleg samvinna

SUS hvetur íslensk stjórnvöld til að stuðla að nánara samstarfi við önnur ríki, sér í lagi við Norðurlöndin, um áhrifaríkar aðgerðir til verndar umhverfis og lífríkis lands og sjávar.

SUS vill að Ísland styðji af einurð friðarviðleitni, eflingu mannréttinda og gagnkvæma afvopnun undir traustu eftirliti. Íslendingum ber að taka áfram virkan þátt í baráttu gegn hungri, sjúkdómum og fátækt í heiminum.

Mikilvægt er að leggja aukna áherslu á að nýta krafta íslensks atvinnulífs í þróunarsamvinnu í takt við breyttar áherslur í alþjóðasamstarfi. Aðalmarkmið skal ætíð vera að bæta hag fátækra þjóða.

Ísland er alþjóðleg fyrirmynd í jafnréttismálum og ber að beita sér áfram á alþjóðavettvangi fyrir jafnrétti kynjanna og gegn allri mismunun á grundvelli kynferðis, kynvitundar, kynhneigðar, stjórnmálaviðhorfa og trúarbragða. Mikilvægt er að áfram sé lögð áhersla á að jafnrétti og mannréttindi setji svip á utanríkisstefnu þjóðarinnar.

Áréttað er að hagsmunir Íslands eru best tryggðir með því að standa utan Evrópusambandsins og umræða um upptöku evru ótímabær.

Öryggis- og varnarmál

Ungir sjálfstæðismenn styðja þjóðaröryggisstefnu Íslands og leggja áherslu á öfluga framkvæmd hennar.

Aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna hefur verið trygging fyrir öryggi lands og þjóðar í rúm 70 ár. Reglulegar æfingar þurfa að fara fram til styrktar varnarviðbúnaði í landinu. 

Ísland á aðild að samstarfsvettvangi Norðurlanda um varnarmál, NORDEFO. Breytingar á sviði efnahagsmála, stjórnmála og vígvæðingar á norðurslóðum auka gildi þessa samstarfs.

Ísland verður að bregðast við nýjum ógnum við öryggi fjarskipta og upplýsingakerfa. Taka verður mið af þjóðaröryggi við innleiðingu nýrrar fjarskiptatækni, fylgja fordæmi vinveittra grannríkja og leita eftir nauðsynlegu samstarfi við þau um netöryggi og varnir. Tryggja þarf afnotarétt af upplýsingatækni án þess að skerða friðhelgi einkalífs.

Upplýsingaóreiða og fjármögnun hennar er vaxandi ógn sem brýnt er að fylgst verði grannt með.

SUS telur brýnt að ríki heims virði alla samninga sem fjalla um takmarkanir og bönn við notkun gereyðingarvopna. Auk þess þarf að stefna að allsherjar útrýmingu slíkra vopna, undir öruggu eftirliti. 

Hagsmunir á norðurslóðum

Mikilvægi norðurslóða heldur áfram að vaxa eftir því sem loftslag hlýnar, hafís bráðnar og siglingar aukast eftir nýrri norðausturleið. umhverfi norðurslíka er afar viðkvæmt og verður ætíð að taka tillit til þess við nýtingu auðlinda í sjó og á landi líkt og Norðurskautsráið hefur gert undir forystu Íslands. Mikilvægt er að efla tengsl, fræðslu og þekkingu á lifnaðarháttum og uppbyggingu landbúnaðar milli íbúa á norðurslóðum. Sérstaklega þegar landsvæði og lifnaðarhættir margra frumbyggjahópa eru í hættu vegna loftslagsbreytinga.    

Ungir sjálfstæðismenn telja grundvallaratriði að skipting hafsvæða og auðlindanotkun verði í samræmi við hafréttarsamning Sameinuðu þjóðanna.

Ísland er ómetanlegur hlekkur í vörnum Vesturlanda og mikilvægi landsins eykst í samræmi við aukna þýðingu norðurslóða og Norður-Atlantshafs. Varnarviðbúnað þarf ætíð að miða við sameiginlegar þarfir Íslendinga og bandamanna þeirra. Lífshagsmunir þjóðarinnar felast í því að hernaðarjafnvægi á norðurslóðum raskist ekki. Ungir sjálfstæðismenn vonast eindregið til að samstarf ríkja á norðurslóðum dafni á öllum sviðum og þar fari fram afvopnun, en ekki vopnakapphlaup, öllum til góðs.