Ályktun um aðgerðir stjórnvalda vegna Covid 19
Takmarkanir vegna Covid 19 voru hertar 12. nóvember síðastliðinn. Þetta er gert þrátt fyrir að 99% smitaðra þurfi ekki á spítalainnlögn að halda og flestir smitaðra upplifi venjuleg flensueinkenni eða séu með lítil sem engin einkenni.
Rök sem sett eru fyrir enn frekari takmörkunum eru þau að mikilvægt sé að vernda heilbrigðiskerfið. Heilbrigðisráðherra hefur haft tvö ár til að aðlaga spítalann að ástandinu. Í stað þess að létta álagi af spítalanum, t.a.m. með því að úthýsa verkefnum sem einkaaðilar geta séð um, þá hefur ráðherrann lagt áherslu á að færa verkefni frá einkaaðilum yfir á Landspítala með auknu álagi.
Mjög ríkar kröfur eru, og eiga að vera, gerðar til beitingu frelsisskerðandi aðgerða. Að mati SUS uppfyllir rekstrarvandi ríkissjúkrahúsins ekki þær kröfur. Ráðast þarf að rót vandans og undirbúa sjúkrahúsið fyrir smitbylgjur, sem eru ekki á förum og eru orðnar partur af nýjum raunveruleika. Félagsleg og efnahagsleg áhrif af slíkum takmörkunum eru þess eðlis að þau ættu að vera algjört neyðarúrræði.
Hlutfall bólusettra 12 ára og eldri er 89% og í upphafi faraldursins var talað um að hjarðónæmi myndi nást á þeim tímapunkti. Komið hefur á daginn að yfirlýsingar sóttvarna yfirvalda þess efnis að hjarðónæmi náist með ákveðnum fjölda skammta af bóluefni eru byggðar á vísindalegum getgátum og því ljóst að þær nægja ekki sem langtímaáætlun stjórnvalda um hvernig „lifa megi með veirunni“.
Stjórnvöld verða að setja fram langtímaáætlanir vegna veirunnar svo að einstaklingar geti hagað sínum lifnaðarháttum eftir því og að atvinnurekendur, og sérstaklega þau sem hafa atvinnu sína af viðburðahaldi, búi ekki við þann ótta að þeim gæti orðið skylt að loka eða haga sér með einum eða öðrum hætti með skömmum fyrirvara.
Frelsisskerðandi aðgerðir verða ekki réttlætanlegar til lengdar og kallar SUS eftir því að öllum takmörkunum verði aflétt hið fyrsta. Á sama tíma kallar SUS eftir heilbrigðisráðherra sem er tilbúinn að veita borgurum frelsi sitt að nýju.