Í tíufréttum Ríkisútvarpsins miðvikudaginn, þann 20. janúar, var viðtal við mannréttindastjóra Reykjavíkurborgar. Í viðtalinu kom fram að mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar rannsakaði persónuleg skeyti hjá starfsmönnum borgarinnar til að kanna hvað starfsmennirnir segja á vefmiðlum, vina á milli og veita þeim tiltal fari þeir yfir strikið að mati skrifstofunnar.
Einnig kom fram að þetta væri einhverslags samstarf við hinn nýja lögreglufulltrúa innan lögreglunnar sem á að rannsaka og kortleggja “hatursglæpi” á internetinu. Manni er spurn hvort mannréttindastjóri sem ekki þekkir hugtök eins og friðhelgi einkalífs eða tjáningarfrelsi sé á vetur setjandi en satt að segja eru bæði þessi mál með hreinum endemum.
Fyrir utan hið augljósa að menn hafa ákveðin stjórnarskrárbundin mannréttindi, mannréttindi eins og tjáningarfrelsi, þarf að halda því til haga að skilgreining á hatursglæp er nokkuð matskennd og í raun er engin nákvæm skilgreining til. Það næsta sem kemst er hugsanlega misvíð túlkun á ákvæði almennra hegningarlaga sem aðeins einu sinni í sögunni hefur reynt á hér á landi. Lögreglufulltrúi með slíkt vald hefur sjálfdæmi til að ákveða hvað honum finnst siðleg umræða og hvað ekki, hvað skal kortlagt og hvað ekki. Með þeim skerðingum á friðhelgi einkalífsins sem því fylgir.
„Skrifstofan sem kennir sig við mannréttindi telur sitt nýfundna verkefni vera að halda uppi húsaga, þá sem einhverslags siðferðis- og skoðanalögga.“
Nýi lögreglufulltrúinn sem nú kortleggur stjórnmálaskoðanir landsmanna gat ekki einu sinni svarað því aðspurður hvort skopmyndir teldust til hatursglæps. Svo matskennt er þetta. Ekkert virðist þó því til fyrirstöðu að tölvupóstar og önnur persónuleg samskeyti verði skoðuð í kortlagningunni.
Það sem er jafnvel ógnvænlegra er þetta tal lögreglufulltrúans um að “kortleggja“ hlutina. Hvað þýðir það? Á að safna saman skoðunum fólks í einhverslags gagnabanka? Svona eins og STASI í Austur-Þýskalandi gerði. Hugur þess flokks sem lögreglufulltrúinn tók sæti fyrir á Alþingi leitar vissulega oft til austurs, það vita menn, og lofsamaði helstefnu kommúnismans og vinnubrögðin sem þar voru við líði á sínum tíma. En við skulum vona að slík vinnubrögð verði aldrei liðin í okkar samfélagi.
Hvað mannréttindaskrifstofuna varðar er algjörlega augljóst að það er ekki hennar að siða til starfsfólk borgarinnar, né að ráðast á friðhelgi einkalífsins. Hvað þá að veita starfsmönnum tiltal vegna skoðana.
Ég veit ekki hvort þetta sé misheppnuð tilraun sem er ætluð til að veita mannréttindaskrifstofunni tilgang. Fram að þessu hefur tilgangurinn verið afar óljós sem er undarlegt í ljósi þess að skrifstofan fær á annað hundrað milljónir árlega.
Tilgangurinn hefur nú verið fundinn eftir allan þennan tíma. Skrifstofan sem kennir sig við mannréttindi telur sitt nýfundna verkefni vera að halda uppi húsaga, þá sem einhverslags siðferðis- og skoðanalögga. Verst er að á sama tíma ætlar skrifstofan að brjóta öll þau grundvallarmannréttindi sem talin eru eðlileg í vestrænu samfélagi, þ.e. rétt til friðhelgi einkalífs og frelsi til tjáningar, sem er grundvallarforsenda lýðræðisins.
Hvað sem mönnum finnst er þetta óásættanleg aðför að bæði friðhelgi einkalífsins sem og frelsi manna til þess að tjá sig. Og ber að grípa inní þessa þróun sem fyrst.