Stjórnmálaályktun SUS 2019

Samband ungra sjálfstæðismanna samþykkti eftirfarandi stjórnmálaályktun á 45. sambandsþingi SUS sem haldið var á Akureyri um liðna helgi.

Stjórnmálaályktun Sambands ungra sjálfstæðismanna
Núverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks tók við góðu búi eftir ábyrga hagstjórn fyrri ára. Við njótum nú ávaxta þeirrar ábyrgu hagstjórnar og eru framtíðarhorfur með ágætum.

Fjárlagafrumvarp og útgjaldavöxtur íslenska ríkisins

Þrátt fyrir að hagfræðileg sjónarmið styðji við hugmyndir fjárlagafrumvarpsins um aukna opinbera fjárfestingu til að vinna gegn niðursveiflu í hagkerfinu um þessar mundir hefur Samband ungra sjálfstæðismanna (SUS) áhyggjur af útþenslustefnu íslenska ríkisins. Hagvaxtarskeiðið var ekki nýtt til þess að draga úr umsvifum íslenska ríkisins. Viðlíka aukning í ríkisútgjöldum er ósjálfbær til lengdar. Hyggilegra væri að lækka skatta og álögur á fólk og fyrirtæki í landinu og sá þannig fræjum fyrir verðmætasköpun og velmegun til framtíðar. Ungir Sjálfstæðismenn hafna réttlætingu fjármálaráðherra á vexti ríkisútgjalda sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Mæta verður útgjaldaaukningu á sviði heilbrigðis-, almannatrygginga- og öldrunarmála með niðurskurði á öðrum sviðum íslenska ríkisins, enda fyrirséð að vöxtur verði áfram í útgjöldum til fyrrnefndra málaflokka á næstu árum og áratugum.

SUS fagnar áformum ríkisstjórnarinnar um lækkun á tekjuskatti einstaklinga. Sambandið hvetur Sjálfstæðisflokkinn og samstarfsflokkana í ríkisstjórn til að beita sér áfram fyrir frekari skattalækkunum, til að mynda með lækkun tryggingagjalds og endurskoðun stofns fjármagnstekjuskatts. Mikilvægt er að vinda ofan af skattahækkunum og tryggja samkeppnishæft viðskiptaumhverfi við önnur lönd.

SUS telur brýnt að Sjálfstæðisflokkurinn gæti þess í hvívetna að standa vörð um frelsi einstaklingsins og eftir fremsta megni að stuðla að auknu athafna- og viðskiptafrelsi hans í öllum sínum verkum.

Samkeppnishæfni og atvinnumál

Í ljósi mikillar styrkingar krónunnar undanfarin ár, aukinna launakrafna á almennum vinnumarkaði auk lítillar eftirgjafar stjórnvalda í skattheimtu telur sambandsþing SUS brýnt að vekja athygli á þeim veruleika sem íslenskir atvinnurekendur búa við. Samkeppnishæfni Íslands fer síversnandi og þá eru ýmsar blikur á lofti í því sem hefur á skömmum tíma orðið einn mikilvægasti atvinnuvegur okkar, ferðaþjónustu. SUS fagnar því að tekist hafi að rita undir lífskjarasamninginn í vor. Aðkoma ríkisstjórnarinnar var mikilvæg á þeim óvissu tímum sem ríktu í kjaramálum. Nú þar sem launakostnaður á Íslandi er farinn að draga úr samkeppnishæfni landsins, vonar SUS að ríkisstjórnin gangi lengra til þess að efla samkeppnishæfnina á ný til að mynda með frekari fjárfestingu í menntun og sérþekkingu. Mikilvægt er einnig að huga að undirstöðu málum á borð við frekari lækkun tekjuskatts einstaklinga og lækkun tryggingagjalds. Einnig leggur SUS áherslu á að ríkið eigi ekki að vera leiðandi í launaþróun á Íslandi.

Samkeppnishæfni á fjármálamarkaði

Með aukinni tækni- og alþjóðavæðingu hefur samkeppnisstaða fjármálafyrirtækja á íslandi versnað og kostnaður við rekstur fjármálafyrirtækja aukist.

Draga þarf úr kostnaði bankakerfisins með því að afnema hamlandi og íþyngjandi regluverk. Hér á landi hafa verið sett ákvæði í lög sem ekki er að finna í sameiginlegri evrópskri löggjöf. Þar á meðal má nefna séríslenskar kvaðir um auknar eiginfjárkröfur, verulegar takmarkanir á kaupaukum og sérstakri skattlagningu, eins og bankaskatti.

Framangreindar hömlur leiða til hærri vaxta og lakari samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Gæta þarf þess að skattar á fjármálafyrirtækja skili sér ekki í verri kjörum fyrir almenning eða skerði alþjóðlega samkeppnishæfni fjármálafyrirtækja. Til að koma í veg fyrir fákeppni þurfa stjórnvöld að gæta að því að lágmarka aðgangshindranir.

Ríkið er ekki heppilegur eigandi fjármálafyrirtækja, þar með talið banka. SUS áréttar að það er engin þörf á eignarhaldi ríkisins á fjármálafyrirtækjum til lengri tíma litið. Ríkið á að selja eignarhlut sinn í íslensku bönkunum en þar er mikið fé bundið sem væri betur varið á öðrum vígstöðum í þágu almennings.

Byggðamál

SUS fagnar áframhaldandi uppbyggingu atvinnuvega á landsbyggðinni. Má í þessum efnum sérstaklega nefna laxeldi, sem hefur reynst ýmsum sveitarfélögum kærkomin búbót, enda hafa flestir landshlutar lengi glímt við fólksfækkun, oft tilkomna vegna lítilla atvinnumöguleika. SUS mun þó ávallt beita sér fyrir því að viðlíka uppbygging, sem ljóst er að getur haft alvarleg áhrif á umhverfið sem og eignarétt annara aðila, skuli einungis ráðist í að vel ígrunduðu máli og í fyllsta samræmi við lög. Slík áform skulu jafnframt vera samin með það að leiðarljósi að náttúru og dýralífi sé sem minnst raskað. Þá fagnar Samband ungra sjálfstæðismanna aukinni uppbyggingu fiskeldis á landi. Mikilvægt er að tryggja raforkuöryggi til brothættra byggða á landsbyggðinni og stendur staðbundinn raforkuskortur víða uppbyggingu fyrir þrifum vegna hægrar uppbyggingar á dreifikerfi raforku.

SUS vill standa kyrfilega vörð um atvinnufrelsi á Íslandi og hafnar öllum tilraunum til skerðingar á því. Hvalveiðar eru þar ekki undanskildar, enda fela þær í sér sjálfbærar veiðar á nytjastofnum sjávar. Umræða erlendis á ekki að stjórna því hvernig Íslendingar skilgreina eigið atvinnufrelsi.

SUS telur mikilvægt að standa vörð um sjálfstæði sveitarfélaga og ákvörðunarrétt þeirra. Jafnframt styður SUS hagræðingu og sameiningu minni sveitarfélaga, en mikilvægt er að íbúar fái að hafa ákvörðunarvald í þeim málum. Einnig leggur þingið til að hægt sé að bæta samkeppnishæfni sveitarfélaga til að mynda með því að afnema lágmarksútsvar.

Frelsi í heilbrigðismálum

SUS mun áfram beita sér fyrir því að sjálfstæður rekstur í heilbrigðiskerfinu fái að blómstra, enda hafa slíkar ráðstafanir skilað mikilli hagræðingu og jafnframt ánægju í þeim löndum þar sem slíkt er útfært á skynsaman máta. Þá lýsir SUS yfir áhyggjum af andstöðu heilbrigðisráðherra gagnvart sjálfstæðum rekstri í heilbrigðiskerfinu og fagnar því að nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi mótmælt ráðherranum. SUS telur þó að töluverður fjöldi þingmanna flokksins megi standa sig betur í að berjast fyrir fjölbreyttari rekstrarformum, öllum landsmönnum til hagsbóta. Í því samhengi má horfa til Norðurlandanna, en þar er einkarekstur í heilbrigðiskerfinu töluvert lengra kominn. Á sama tíma þarf að huga að skilvirkni í rekstri í ríkisreknum heilbrigðisstofnunum.

Sambandsþing SUS telur með öllu ótækt að apótek skuli óáreitt fá að viðhalda einokun sinni á smásölumarkaði ólyfsseðilsskyldra lyfja. Ekki einungis eru ýmis samkeppnis- og hagkvæmisrök sem mæla gegn óbreyttu fyrirkomulagi, heldur má einnig víkja að stöðu íbúa landsbyggðarinnar, enda eru apótek oft ekki að finna í minni byggðarlögum. Er það mat SUS að með þessu sé að óþörfu verið að skerða lífsgæði og frelsi fólks í landinu.

Stefna í málefnum fólks með fíknivanda

Mikið gæfuspor væri að afglæpavæða vörslu neysluskammta af ólöglegum vímuefnum. Refsistefna gegn neytendum ólöglegra vímuefna hefur beðið skipbrot. Ljóst er að fælingamáttur refsistefnunnar er minniháttar og afleiðingin er sú að fólk sem glímir við fíknisjúkdóma fær síður þá hjálp sem það þarf. Má þar nefna úrræðaleysi foreldra barna með fíknivanda, ásamt þeim hópi er glímir bæði við geðræn vandamál og fíknivanda. SUS skorar því á ríkisstjórnina að fjölga úrræðum fyrir þessa viðkvæmu hópa þjóðfélagsins. Þá telur SUS einnig áhyggjuefni hve þungir dómar hafa fallið í málum burðardýra undanfarin ár og telur þörf á breyttri nálgun í þeim málum.

Milliríkjasamskipti

Samband ungra sjálfstæðismanna styður frjáls viðskipti milli landa. Þá hvetur fundurinn stjórnvöld til að standa vörð um vestræn gildi svo Ísland geti haldið áfram að vera einn helsti framvörður tjáningafrelsis, umburðarlyndis og lýðræðis í heiminum. SUS fagnar auknu samstarfi Atlantshafsbandalagsins í Norður-Atlantshafi og styður viðveru þess í landhelgi Íslands. Sambandið bendir á að miklir viðskiptalegir hagsmunir Íslands felast í góðum viðskiptasamningum við Evrópu, en telur mikilvægt að hagsmunagæsla Íslands á sviði EES-mála verði styrkt til muna til þess að fyrirbyggja innleiðingu gerða sem falla illa að íslensku samfélagi. SUS er á móti inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Loks geldur SUS varhug við þátttöku Íslands í kínverska verkefninu „Belti og braut“ og telur Íslandi farnast best að hafna þátttöku í slíku uppbyggingarverkefni.

Innviðir og samgöngumál

Samband ungra Sjálfstæðismanna telur mikilvægt að stjórnvöld hugi að fjárfestingu í innviðum, til þess að leggja grunn að aukinni hagsæld. Ekki má líta framhjá þátttöku einkaaðila í fjármögnun og framkvæmd innviðaverkefna, enda hefur hún sannað gildi sitt. Sambandið telur æskilegt að þeir sem noti vegakerfið greiði í samræmi við notkun sína. Hins vegar þarf að huga að því að aðrir skattar verði þá lagðir af, sem nú eru fyrir hendi. Þá telur SUS jafnframt varhugavert að íbúar eins landsvæðis verði látnir greiða veggjöld á meðan hið opinbera ræðst í víðáttumiklar framkvæmdir í öðrum landshlutum án tilheyrandi veggjalda.

Íslenskir neytendur hafa nú um nokkurt skeið verið hlunnfarnir um aukna samkeppni og valfrelsi á leigubílamarkaði í gegnum farveitur líkt og Uber og Lyft. Er þetta afrakstur þróttlausrar verndarhyggju fámennrar starfsstéttar sem neitar að aðlaga sig að samtímanum. Þá mun SUS þrýsta á stjórnvöld er varðar afnám þessara lögvernduðu einokunartilburða.

Áreiti og ofbeldi

Ungir sjálfstæðismenn fagna aukinni umræðu um kynbundið áreiti og ofbeldi. Með aukinni og opinni umræðu aukum við frelsi einstaklinga sem hafa lifað í skömm vegna ofbeldis. Mikilvægt er að standa með fórnarlömbum líkamslegs-, andlegs-, og kynferðisofbeldis, enda um alvarlegt samfélagslegt vandamál að ræða.

Fjölmiðlafrumvarp menntamálaráðherra

SUS lýsir yfir harðri gagnrýni á fyrirhugað fjölmiðlafrumvarp menntamálaráðherra. Það er ekki hlutverk ríkisins að niðurgreiða rekstur einkafyrirtækja. Því telja ungir sjálfstæðismenn það vera hættulega vegferð að láta skattgreiðendur standa undir ritstjórnarkostnaði fjölmiðla. Frekar ætti að endurskoða hlutverk Ríkisútvarpsins með þeim hætti að það standi ekki í samkeppnisrekstri við einkarekna fjölmiðla. Um er að ræða ráðstöfun á skattfé sem ómögulegt verður að vinda ofan af þegar á líður. Gerum rekstrarum hverfi fjölmiðla betra í stað þess að gera þá að bótaþegum.