Samband ungra sjálfstæðismanna (SUS) fagnar aðgerðum og áformum stjórnvalda um einföldun regluverks. Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, tók í gær stórt skref í þá átt með því að fella úr gildi 1090 reglugerðir. Í nýju frumvarpi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, er lagt til að ýmsar leyfisskyldur og 16 lagabálkar falli brott. Allt er þetta til þess fallið að draga úr kostnaði og óþarfa fyrirhöfn.
Íþyngjandi regluverk og skrifræði dregur úr þrótti atvinnulífsins. Einfalt regluverk stuðlar að aukinni verðmætasköpun, skilvirkni, samkeppni og framþróun. Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur athafnafrelsis og einkaframtaks. SUS fagnar öllum ákvörðunum sem ryðja steinum úr vegi þeirra sem stunda atvinnurekstur í landinu.
SUS vill minna á að þingmenn Sjálfstæðisflokksins voru kosnir til þess að minnka umsvif ríkisins. Að bæta opinbera þjónustu með rafrænum leiðum og sjálfvirknivæðingu er nauðsynlegt, en það eitt er ekki nóg til að minnka báknið. Aðgerðir gærdagsins sýna það í verki að ráðherrar flokksins eru á réttri leið og SUS vonar að þetta sé það sem koma skal hjá öllum ráðherrum ríkisstjórnarinnar.
SUS fagnar einnig samstarfi stjórnvalda við OECD, sem leggur grunn að því að lagabálkar og reglugerðir framtíðarinnar skapi ekki óþarfar hindranir. Það er sorglegt að hugsa til þess að á Íslandi sé nú mest íþyngjandi reglugerðarfargan allra ríkja innan OECD. Einnig er ánægjulegt að sjá að stjórnvöld leiti nú leiða til að útvista verkefnum til atvinnulífsins í ríkari mæli en verið hefur. SUS ber miklar væntingar til þessarar vinnu.