Stjórn SUS harmar það að enn eina ferðina hafi álagningarskrár einstaklinga verið bornar á borð, fyrir hvern þann sem vill skoða viðkvæmar persónuupplýsingar um einkamálefni almennra borgara.
Fjárhagsmálefni einstaklinga eru viðkvæmar persónuupplýsingar sem njóta verndar 71. gr. stjórnarskrár. Það þurfa því að liggja gildar ástæður til grundvallar þeirri stefnu stjórnvalda að heimta þessar upplýsingar í krafti valds og leggja þær fram fyrir hvers manns augu. Sú skýring að borgararnir eigi að hafa virkt eftirlit með skattgreiðslum nágranna síns geta vart talist grundvöllur slíkrar valdbeitingar enda á skattaeftirlit að vera í höndum skattstjóra.
Þá verður sú framkvæmd ríkisskattstjóra að taka saman lista yfir þá skattgreiðendur sem eru með mestar skattgreiðslur og senda á fjölmiðla að teljast í besta falli ámælisverð. Engin heimild er fyrir slíkri framkvæmd í núgildandi lögum og verður hún ekki varin með vísan til langrar venju.
Ungir sjálfstæðismenn telja að birting skránna brjóti gegn stjórnarskrárvörðum rétti einstaklinga til friðhelgi einkalífs og sé með öllu óeðlileg. Ungir sjálfstæðismenn hvetja þingmenn og stjórnvöld til að standa vörð um friðhelgi einkalífsins og breyta lögum um framlagningu álagningarskráa.