Samband ungra sjálfstæðismanna styður þingflokk og forystu Sjálfstæðisflokksins til áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarfs. Mörg stór verkefni bíða afgreiðslu ríkisstjórnarinnar sem miða að afnámi hafta, lækkun skatta og auknu frelsi.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur á undanförnum þremur árum lyft grettistaki í því að snúa af braut ofurskatta og ríkisafskipta síðustu vinstristjórnar. Mikil ánægja hefur verið með þær breytingar og stendur Ísland nú upprétt í efnahagslegu tilliti. Árangurinn er mikill; uppgjör við erlenda kröfuhafa tókst með eindæmum vel, skattar voru lækkaðir, skattkerfið einfaldað, tollar afnumdir, erlendar skuldir greiddar niður og svo mætti áfram telja.
Þessar breytingar hafa bætt verulega hag einstaklinga og fyrirtækja. Það er nú betra að vera á Íslandi en áður og það er nú betra að snúa heim frá útlöndum en áður. Ísland verður að vera ákjósanlegur staður fyrir fólk og fyrirtæki.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur látið verkin tala og þarf að halda því áfram og til þess hefur formaður og forysta Sjálfstæðisflokksins fullt traust Sambands ungra sjálfstæðismanna.