Áyktun SUS vegna álits umboðsmanns Alþingis um ólögmæti ákvörðunar matvælaráðherra
Samband ungra Sjálfstæðismanna krefst þess að Svandís Svavarsdóttir axli ábyrgð með því að segja af sér sem matvælaráðherra.
Frá því að matvælaráðherra tók ákvörðun um að banna hvalveiðar hefur því verið haldið fram að ákvörðunin bryti gegn atvinnufrelsi sem eru stjórnarskrárvarin réttindi. Matvælaráðherra var einnig bent á að ákvörðunin væri ekki lögmæt og stæðist ekki meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Sérfræðingar ráðuneytisins lýstu því ítrekað yfir í minnisblöðum til ráðherra að brýnt væri að tryggja að meðalhófs yrði gætt og ráðherra hefði öll nauðsynleg gögn og upplýsingar áður en ákvörðunin um setningu reglugerðarinnar væri tekin. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins voru meðal þeirra sem skoruðu á ráðherra að draga ákvörðunina til baka.
Álit umboðsmanns Alþingis sem birtist á vef hans 5. janúar sl. undir fyrirsögninni „Frestun hvalveiða ekki í samræmi við lög” staðfestir þessi atriði.
Ljóst virðist að matvælaráðherra hafi með ákvörðun sinni bakað skattgreiðendum skaðabótaskyldu sem nemur allt að nokkrum milljörðum. Þessu til viðbótar olli ákvörðunin tjóni hjá mörgum fjölskyldum og námsmönnum sem höfðu ráðið sig til vinnu með réttmætar væntingar um háar tekjur sem ekki stóðu til boða annars staðar. Þá voru sérstaklega tvö sveitarfélög sem urðu af hundruðum milljóna í útsvarstekjur vegna ákvörðunarinnar og hefur hún því neikvæð áhrif á íbúa Akraneskaupsstaðar og Hvalfjarðarsveitar.
Að fylgja lögum er ekki valkvætt, heldur skylda ráðherra. Ráðherra sem tekur ákvörðun um að brjóta lög er ekki sætt í embætti. Það sem hér er um að ræða snýst ekki um hvalveiðar eða dýravelferð, heldur stjórnsýslu ráðherra í ríkisstjórn Íslands.