Fordæma ummæli þingmanns

Ungir sjálfstæðismenn hvetja Ásmund Friðriksson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, til að biðja íslenska múslima afsökunar á þeim ummælum sínum um að það beri að kanna bakgrunn þeirra múslima sem búa hér á landi vegna þeirra hræðilegu atburða sem hafa átt sér stað í Frakklandi.

Mikilvægt er að leiðtogar heimsins gefi ekki eftir í baráttunni gegn hryðjuverkahópum eins og Íslamska ríkinu, en reyni jafnframt á sama tíma að sporna við því að minnihlutahópar sæti ofsóknum vegna trúarskoðana sinna.

Það er því virkilega óviðeigandi og til umhugsunar að maður sem á sæti á æðstu stofnun Íslendinga láti ummæli sem þessi falla. Sjálfsögð borgararéttindi minnihlutahópa falla ekki niður vegna hryðjuverkaárása ofstækismanna. Ummæli Ásmundar eru aðeins til þess fallin að stuðla að félagslegri einangrun múslima á Íslandi.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið mikilvægt afl í mannréttindamálum hér á landi. Ummæli í þessum dúr eru í engu samræmi við grunngildi flokksins um einstaklingsfrelsi og borgararéttindi.