Umsögn SUS um fjárlög 2021 og fjármálaáætlun 2021-2025

Umsögn SUS um fjárlög 2021 og fjármálaáætlun 2021-2025

 

Samband ungra sjálfstæðismanna fagnar áherslum í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2021 og þingsályktun um fjármálaáætlun 2021-2025. Þökk sé fjármálastefnu síðustu ára er hægt að nýta góða stöðu ríkissjóðs til þess að lágmarka atvinnuleysi, hlífa heimilum og styðja við fyrirtæki. Núverandi aðstæður kalla þó á frekari forgangsröðun og telur SUS að ganga mætti lengra, svo hægt sé að fjárfesta enn frekar í innviðum, menntun og nýsköpun. Slíkar aðgerðir væru kröftug viðspyrna við vaxandi atvinnuleysi. Jafnframt telur sambandið að taka þurfi hagvaxtarforsendum fjármálaáætlunarinnar með nokkrum fyrirvara.

Óhjákvæmilegur hallarekstur

Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2021 gerir ráð fyrir því að halli ríkissjóðs nemi 264 milljörðum króna og að samanlagður halli ríkissjóðs fram til ársins 2025 muni nema 900 milljörðum. Samband ungra sjálfstæðismanna gerir sér grein fyrir því að um sé að ræða óhjákvæmilegan hallarekstur. Við aðstæður sem þessar felur hallarekstur ekki í sér þjóðhagslegt tap, heldur er komið í veg fyrir enn frekari skaða með því að styðja við heimili og fyrirtæki í landinu. Samband ungra sjálfstæðismanna leggur áherslu á að ríkið reyni að snúa hallarekstri við sem fyrst og að skuldasöfnun (sem hlutfall af vergri landsframleiðslu) verði stöðvuð eins fljótt og mögulegt er. Sjálfbær ríkisfjármál eru undirstaða velferðar og ef ekki væri fyrir sterka stöðu ríkissjóðs, væri hann illa í stakk búin til þess að takast á við núverandi kreppu.

Forgangsröðunar þörf

Aðstæðurnar sem nú eru uppi kalla á mikla forgangsröðun og þá sér í lagi í þágu fjárfestinga. Samband ungra sjálfstæðismanna fagnar því að auka eigi fjárfestingu í samgöngumannvirkjum, rannsóknum og nýsköpun, upplýsingatækniverkefnum og umhverfismálum. SUS telur þó að skerpa þurfi á hlutverki hins opinbera. Draga þarf úr umsvifum ríkisins á samkeppnismarkaði, kanna sameiningu ríkisstofnana og lágmarka óþarfa lögverndun, leyfisskyldu og eftirlit. Þjóðarbúið vantar einnig fleiri gjaldeyrismyndandi stoðir og hér þarf að skapa skilyrði fyrir vöxt nýrra atvinnugreina, auk þess sem áhersla þarf að vera á að efla þær stoðir sem nú þegar eru fyrir hendi. Til að nýtt og sjálfbært hagvaxtarskeið geti runnið upp, þarf að tryggja að menntakerfið sé á heimsmælikvarða, nýsköpun sé í góðum farvegi, innviðir séu sterkir og að lagaumhverfið hjálpi fyrirtækjum að vera alþjóðlega samkeppnishæf.

Menntun forsenda nýsköpunar

Svo hægt verði að skapa fleiri störf og stuðla að efnahagslegri viðspyrnu, þarf að fjárfesta í menntun og nýsköpun. Mannauður er forsenda nýsköpunar og því þarf að tryggja að íslenskt menntakerfi sé framúrskarandi fyrir bæði þá sem huga að bók- og iðnnámi. SUS fagnar aukinni áherslu á menntamál, en minnir á að meiri útgjöld þýði ekki endilega betri árangur. Mikilvægt er að fjármagninu sé vel varið og hagur nemenda hafður að leiðarljósi. SUS skorar jafnframt á stjórnvöld að taka til greina tillögur Samtaka atvinnulífsins um hvernig megi bæta öll skólastig landsins. Mikilvægt er að hvetja til aukinnar aðsóknar í menntun á sviði vísinda, tækni og stærðfræði og halda áfram að bæta styrkjaumhverfið í samvinnu við alþjóðlegar stofnanir og innlend fyrirtæki. Þar sem atvinnuleysi er sérstaklega hátt meðal fólks á aldrinum 18 til 35 hvetur SUS stjórnvöld til þess að tryggja nauðsynlegan stuðning við námsmenn svo hægt sé að lágmarka brottfall úr skólum og frekari hvatar myndist til þess að sækja í framhaldsnám.

Samvinnuleið í innviðafjárfestingum

Núverandi aðstæður kalla á umfangsmiklar innviðaframkvæmdir. Slíkar fjárfestingar skapa störf og verðmæti sem þjóðin býr að til frambúðar. Flest verkefnin liggja nú þegar fyrir, það þarf því aðeins að tryggja að hægt verði að ráðast í þau sem fyrst. SUS fagnar því fjárlögin leggi áherslu á aukna innspýtingu í innviðafjárfestingar, en betur má ef duga skal. SUS skorar því á stjórnvöld að nýta tækifæri í samvinnu við einkaaðila og lífeyrissjóði í auknum mæli, t.d. með samvinnuleið (e. Public Private Partnership) um innviðaverkefni. SUS leggur einnig áherslu á að íslensk stjórnvöld leyfi sér að vera stórhuga og láti greina í þaula tækifæri á borð við sæstreng og umskipunarhöfn.

Frekari skattalækkanir æskilegar

Samband ungra sjálfstæðismanna fagnar því að skattleysismörk erfðafjárskatts verði hækkuð, að reynt sé að lækka skattbyrði heimilanna og að endurskoða eigi fjármagnstekjuskatt svo að skattstofn fjármagnstekna miði við raunávöxtun en ekki nafnávöxtun. SUS skorar á Sjálfstæðisflokkinn að beita sér fyrir frekari skattalækkunum á komandi árum. Til að mynda leggur SUS áherslu á að tryggingargjaldið lækki til frambúðar og að virðisaukaskattkerfið verði einfaldað. Jafnframt telja ungir sjálfstæðismenn óæskilegt að vörugjöld af bensíni, áfengisgjald, tóbaksgjald og olíugjald séu hækkuð.