Á Íslandi á að vera hægt að finna sömu lífsgæði og þekkjast erlendis. Enginn ætti að fara á mis við eðlilegt vestrænt lífsmynstur þegar kemur að neysluvörum við það eitt að koma heim til Íslands úr ferðalagi eða námi. Áfengi er selt í matvöruverslunum í nær öllum vestrænum ríkjum en á Íslandi er það enn í höndum ríkisins. Íslendingar kaupa áfengi í matvöruverslunum á ferðalögum sínum en þegar þeir koma heim þá er þeim ekki lengur treyst – hérlendis þarf ríkið að selja áfengið. Hvers vegna?
Á Alþingi í dag verður frumvarp Sjálfstæðisflokksins um frjálsa sölu áfengis á Íslandi lagt fyrir þingheim. Nú gefst þingmönnum kjörið tækifæri til að stíga mikilvægt skref í átt að auknu viðskiptafrelsi og leggja af löngu úrelt fyrirkomulag áfengissölu hér á landi. Staðreyndirnar í málinu eru þekktar enda í sjöunda sinn sem frumvarpið er lagt fram – það hefur þó aldrei náð í atkvæðagreiðslu. Þingmenn eiga því að taka afstöðu og sýna hvort frjálslyndi þeirra á sér bara stað í orði en ekki á borði.
„Þingmenn eiga því að taka afstöðu og sýna hvort frjálslyndi þeirra á sér bara stað í orði en ekki á borði.“
Það telst seint hlutverk ríkisins að standa í verslunarrekstri með löglegar neysluvörur. Allir eru nú löngu sammála um að ríkinu fór ekki vel á því að reka mjólkurverslun, bakarí eða sælgætisverslun. Þó er sælgæti og kolvetni miklir skaðvaldar þegar kemur að heilsutengdum sjúkdómum fólks. Engum dettur í hug að færa rekstur þeirra í hendur ríkisins svo nammisjúkir, matarsjúkir eða aðrir sem hafa illa stjórn á fíkn sinni þurfi ekki að sjá tilteknar vörur þegar þeir versla í matinn. Það veldur sá er á heldur í allri fíkn enda er fyrsta skrefið í því að losna úr viðjum fíknar ávalt að viðurkenna að viðkomandi verður sjálfur að taka stjórn á eigin lífi.
Fullorðnu fólki á að treysta fyrir lífi sínu og þeim ákvörðunum sem verða á vegi þeirra, hvort sem það eru kaup á áfengi þar sem því hentar hjá þeim sem því hentar eða kaup á nammi á laugardögum.