Byrjum á að árétta það að mér finnst kapítalisminn ekki sökka. Ég veit að frasar eins og „ríkasta eina prósentið á meira en hin 99 prósentin“ fer illa í réttlætiskenndina á fólki. Eðlilega, því þó að tölfræðin í þessum frasa sé ekki beint nákvæm, þá er það samt mjög óeðlilegt að fáir eigi svo miklu, miklu meira heldur en milljarðar manna. Þannig ég er fullkomlega sammála mönnum eins og Bernie Sanders. Því staðreyndin er sú að kapítalisminn sem við öll lifum við er ósanngjarn. Hann hyllir sumum á kostnað annarra og hann hvetur til mikillar auðsöfnunar á hendur fárra útvalda. Og það sökkar.
En þar sem okkur Bernie greinir á er lausnin á vandanum. Á meðan að lausn fólks eins og Bernie er að hækka skatta og álögur á fyrirtæki og þar með stórauka umsvif ríkissins á mörkuðum, þá vil ég frekar fara í hina áttina og minnka umsvif ríkissins. Því mín nálgun á að tækla vandamál er að líta ekki einungis á einkenni vandamálsins heldur frekar á rót þeirra. Því flestir geta verið sammála um það að veita verkjalyf við krabbameini er engin lausn.
Kapítalisminn er í raun bara náttúrulögmál og hefur alltaf fylgt manninum. Hann er bæði sanngjarn og miskunnarlaus. Hann verðlaunar hugvit og vinnusemi en refsar leti og óheiðarleika. Og í sínu hreinasta formi standa allir jafnir og hafa jafn mikla möguleika á velgengni, svo lengi sem fólk er tilbúið að vinna fyrir henni. Í því fyrirkomulagi græða allir.
„Með þessari látlausu löngun minni í túnfisksamloku er ég því búinn að hefja keðjuverkun sem stuðlar að framleiðslu gæða og atvinnu hjá fjölda fólks.“
Þegar ég segi að allir græða, þá er ég hvorki að ýkja né alhæfa. Ef ég vil fá mér túnfisksamloku og fer út í bakarí að kaupa brauð, þá eru það langt því frá bara ég og bakarinn sem græðum á þeim viðskiptum. Því fyrst ræktaði bóndinn kornið, úr því gerði malarinn hveitið, þangað til bakarinn gerði það að brauðinu sem ég svo keypti. Með þessari látlausu löngun minni í túnfisksamloku er ég því búinn að hefja keðjuverkun sem stuðlar að framleiðslu gæða og atvinnu hjá fjölda fólks. Í hnotskurn mætti segja að þó ég einn hafi borðað samlokuna mína, þá var ég ekki sá eini sem naut hennar.
En ef kapítalisminn er jafn frábær og æðislegur eins og ég útlista fyrir ofan, þá hlýtur að vera eitthvað annað sem veldur þessum ójöfnuði. Þá komum við aftur að Bernie Sanders eða raunar bara stjórnmálamönnum almennt. Því í hinum óhefta kapítalisma þá er ekkert magn peninga sem getur hagrætt leikreglum markaðarins í þinn hag. Það á hinsvegar ekki við um þann kapítalisma sem við lifum við.
Þegar ríkið eitt hefur einkarétt á að beita ofbeldi án afleiðinga og aðeins handfylli af fólki hefur umboð til að beita því valdi, þá geta peningar og miklir fjárhagslegir hagsmunir fljótt skekkt leikreglurnar, þá sérstaklega í höndum óábyrgs stjórnmálafólks. Þetta má t.d. bersýnilega sjá í Bandaríkjunum, en þar hafa hagsmunahópar sér skrifstofur í þinghúsinu, enda er ekki kapítalismi við líði í Bandaríkjunum, heldur ljót og afbrigðileg útgáfa af honum (Chrony capitalism).
„Enn fremur er ekkert kerfi sem hefur fleytt mannkyninu jafn mikið áfram og kapítalismi.“
Til að draga þetta saman þá getur kapítalisminn aldrei valdið fátækt eða gróðurhúsaáhrifum, heldur aðeins óábyrgt fólk, þá sérstaklega stjórnmálamenn með hótun um ofbeldi á bak við sig. En þrátt fyrir það þá fyrirfinnst ekki mannúðlegra eða sanngjarnara kerfi. Enn fremur er ekkert kerfi sem hefur fleytt mannkyninu jafn mikið áfram og kapítalismi. Kapítalisminn hefur lyft okkur upp úr miðöldunum, færði okkur iðnbyltinguna og fært milljarða manna upp úr fátækt. Því eru öll þau þægindi og tækni sem við lifum við kapítalismanum að þakka. Því hann býr til aðstæðurnar sem gefa einstaklingum, hugmyndum þeirra og ástríðu til að blómstra og verða að því besta sem það getur orðið.
Svo ekki segja að kapítalisminn sökki, þegar það er fólkið sem misnotar hann og brenglar sem sökkar. Ekki skella skömminni á kerfi sem er jafn náttúrulegt og býflugurnar og blómin, skilið henni þangað sem hún á heima, til stjórnmálamannanna sem sökka. Því ef það er eitthvað sem okkur vantar þá er það meiri, óheftri kapítalismi og ábyrgara fólk. Því þá fyrst getum við öll farið að græða aftur, en ekki bara þessir fáu.