Sem ungur frjálslyndur sjálfstæðismaður þá ætti það ekki að koma neinum á óvart að úr þeirri stafasúpu sem úrslit síðustu kosninga buðu upp á þá varð ég afar ánægður með útkomuna. Jú þessi ríkisstjórn er líklega sú hægrisinnaðasta frá upphafi sem þýðir að við getum átt von á ábyrgum ríkisrekstri og áframhaldandi hagvexti og öllu þessu klassíska hægrisinnaða dóti sem ég og skoðanasystkini mín teljum ákaflega mikilvægt fyrir velferð þjóðar. En það sem ég, persónulega er hvað spenntastur fyrir er hvort að þessari ríkisstjórn takist að standa undir því að vera kölluð frjálslyndasta ríkistjórnin frá upphafi.
Því þó mér finnist aukinn hagvöxtur, lítið atvinnuleysi, skuldaniðurgreiðsla, aukinn einkarekstur og öflugt atvinnulíf alveg gífurlega mikilvægt, sérstaklega í stærra samhengi hlutanna, að þá verð ég bara að viðurkenna að mér finnast þessir hlutir kannski ögn of þurrir og hvimleiðir til að ég nenni að velkjast í þeim dagsdaglega. Enda, frá mínum bæjardyrum séð, virðast þessir hlutir vera í góðum og tryggum höndum.
„Því í sífellt minnkandi heimi, þar sem flugið til San Francisco er farið að kosta minna en flugið til Akureyrar…“
Það sem mér finnst hinsvegar spennandi eru litlu hlutirnir; vín í búðir, engin mannanafnanefnd og öll þessi litlu frjálslyndu mál sem að þeir sem eru ósammála mér telja algjöra vitleysu að eyða einhverjum tíma í að ræða yfir höfuð og þá allra síst í þingheimi. Sitt sýnist hverjum og allt það. En ástæðan fyrir því afhverju þessu litlu mál eru mikilvæg fyrir mér er því þau einfalda og auðvelda mér tilveruna.
Ég eins og svo margt ungt fólk hef ferðast ágætlega utan landsteinana og upplifað hið daglega amstur í stærri, fjölbreyttari og meira framandi plássum en fyrirfinnast hér. Eins höfum við öll heyrt sögurnar af því hvernig þetta og hitt er gert í London, París og Róm. En það er einmitt málið. Því í sífellt minnkandi heimi, þar sem flugið til San Francisco er farið að kosta minna en flugið til Akureyrar, þá þýðir það að við sem samfélag erum í sífellt aukinni samkeppni við umheiminn hvað varðar mannauð.
„Því valið fyrir ungt fólk í dag stendur ekki lengur á milli landsbyggðarinnar og Reykjavíkur, heldur á milli Íslands og umheimsins.“
Því er það kannski ekki nóg að allir hagvísar séu jákvæðir og að við séum alltaf í topp sætum á listum yfir þjóðir með mestu lífsgæðin. Því þótt að þjóð sé rík þá þýðir það ekki að hún sé endilega skemmtileg, blómstrandi eða spennandi, sérstaklega ekki þegar mengi auðugra þjóða fer ört stækkandi.
Þess vegna eru smámálin farin að skipta æ meira máli. Því valið fyrir ungt fólk í dag stendur ekki lengur á milli landsbyggðarinnar og Reykjavíkur, heldur á milli Íslands og umheimsins. Þá getur skipt sköpum hvort við leyfum vín í verslanir, opnum á þjónustur eins og Uber og Airbnb, leggjum niður mannanafnanefnd, leyfum hunda á kaffihúsum, hættum tollabraski með matvæli, leyfum skemmtihald á helgidögum og æ reynum bara að gera samfélagið aðeins skemmtilegra, fjölbreyttara og tilveruna í því auðveldari fyrir margbrotnu einstaklinganna sem byggja það. Því rétt eins og að fyrirtæki þurfa að vera í stanslausri þróun til að haldast samkeppnishæf, þá þurfa samfélög þess líka.