Það er ótrúlega skrýtið þegar talað er um vandamál eins og það sé óleysanlegt. Enn þá skrýtnara verður það þegar lausnin við vandamálinu er augljós en fólkið með valdið til að leysa það eru þeir sömu og segja það óleysanlegt . Þetta er nákvæmlega það sem er að gerast með tvö vandamál sem eru daglegt fréttaefni, þétting byggðar og húsnæði fyrir ungt fólk. Það sem stendur í vegi fyrir að þessi mál séu leyst eru byggingarreglugerðir og svæðisskipulag. Þeir sem hafa vald til að breyta þessu? Alþingi og borgarstjórn. Hverjir tala um þetta sem óyfirstígandi vandamál? Alþingi og borgarstjórn.
Í Kips Bay hverfinu á Manhattan hefur fyrirtækið NArchitects reist háhýsið Carmel Place. Byggingin er 3250 fermetrar og inniheldur 55 íbúðareiningar á bilinu 23 til 34 fermetrar, micro íbúðir. Þar sem æ fleiri búa einsamlir sáu NArchitects að það er stór markaður fyrir minni hýbíli þar sem enginn var að svara mikilli eftirspurn markaðarins. „Byggingarreglugerðir borgarinnar hafa ekki fylgt breytingum á íbúasamsetningu og leyfir því ekki þessar minna húsnæði eða micro íbúðir yfirleitt“ sagði talsmaður NArchitects. Byggingarreglugerðir í New York krefjast þess að lágmarksstærð á íbúð þarf að vera 37 fermetrar, reglugerð sem gerð var undanþága á fyrir Carmel Place.
Hönnun NArchitecture var sigurtillagan í hönnunarkeppni árið 2012 sem var skipulögð af fyrrum borgarstjóra New York Michael Bloomberg. Tilgangur keppnarinnar var að bjóða hönnuðum að þróa micro hýbíli sem gætu virkað sem framtíðarmódel að smáíbúðum á viðráðanlegu verði fyrir eina eða tvær manneskjur.
Samkvæmt fréttum New York Times mun leiguverð íbúðanna vera 950$ sem er langt undir meðal leiguverði á Manhattan, en tölur Bloomberg fréttaveitunnar segja verð fyrir 1-herbergja íbúð á svæðinu í kringum 3400$ sem sýnir glögglega muninn. Verið er að vinna við að klára leigusamninga við fyrstu leigjendur, en yfir 60 þúsund umsóknir bárust samkvæmt fyrirtækinu sem sýnir hveru gífurleg eftirspurnin er.
Fyrirtækið Resource Furniture í Brooklyn var fengið til að hanna og smíða innbyggðar innréttingar sem samanstenda af sófa, rúmi og geymslu svo hægt sé að breyta stofunni í svefnherbergi. Svona er markmiðinu um rýmd og sveigjanleika náð þrátt fyrir takmarkaðan fermetrafjölda. Þótt að einingarnar séu hannaðar fyrir lág- og meðaltekjuhópa býður byggingin uppá þægindi sem vanalega eru tengdar við lúxushúsnæði. Þessi sameiginlegu þægindi eru til dæmis líkamsrækt, setustofur og þakgarður, auk hjólageymslu og geymsluskápa sem eru dreifðir um bygginguna.
„Hinsvegar mætti ekki byggja þessar íbúðir vegna frumskógar byggingarreglugerða“
Einingarnar eru smíðaðar úr stálramma og steypubútum í Brooklyn áður en þeim er raðað saman í Manhattan til að sparar byggingartíma og minnka truflun á svona þéttbýlu svæði. Farið var að setja einingarnar saman 2014 og lóðavinna hófst í mars 2015. Reiknað er með að framkvæmdir klárist þessum mánuði og fyrstu íbúar munu flytji inn í næsta mánuði. Hvað er því til fyrirstöðu að sjá svona byggingu í miðbæ Reykjavíkur, þar sem hamrað er á þéttingu byggðar? Ég gæti mjög vel hugsað mér að búa í svona micro íbúð enda einstæður og barnlaus. Það eru margir í minni stöðu sem koma út á húsnæðismarkaðinn beint eftir nám og þá stendur lítið til boða.
Valmöguleikarnir eru:
- Íbúðamarkaðurinn, sem er oft of dýr fjárfesting fyrir nýútskrifaðan eintakling.
- Leigumarkaðurinn, sem hefur mjög takmarkað úrval af einstaklingsíbúðum og þarf fólk oft að taka sig saman í að deila kostnaði á leigu stærri íbúða.
- Snúa aftur í foreldrahús, fyrir þá sem eiga þess kost.
Það kemur ekki á óvart að fleiri og fleiri velja þriðja kostinn og flytja aftur heim fram yfir þrítugt, því hinir tveir kostirnir eru einfaldlega ekki raunhæfir eða svo óhagstæðir að ekki er hægt er réttlæta þá.
Þessi tegund íbúða gætu vel brúað þetta bil fyrir einstaklinga, því það er svo sannarlega markaður fyrir það. Hinsvegar mætti ekki byggja þessar íbúðir vegna frumskógar byggingarreglugerða sem hafa verið innleiddar.
Það er talað um þéttingu byggðar og fyrstu íbúðarkaup sem stórvægilegt vandamál, en við vandamálinu liggur lítil lausn. Smærri íbúðir eru svarið. Svo eina spurningin sem stendur eftir, hvenær hættum við að heyra merkingarlaus svör frá ráðamönnum og sjáum þennan umtalaða vilja til að koma til móts við ungt fólk í samfélaginu í verki?