Allsherjar- og menntamál

Menntamál

Öflugt menntakerfi er grundvöllur hagsældar íslensks samfélags og því brýnt að tryggja öllum jöfn tækifæri til menntunar. Samband ungra sjálfstæðismanna (SUS) leggur áherslu á að auka samvinnu hins opinbera við einkaaðila með sjálfstætt starfandi skólum. Tryggja þarf að fé fylgi hverjum nemenda, óháð rekstrarformi þess skóla sem að hann sækir – þetta gildir á öllum skólastigum. 

Aðlaga þarf skólakerfið betur að þörfum hvers nemenda svo að allir geti blómstrað á eigin forsendum. Styðja þarf betur við nemendur með erlent móðurmál auk nemenda með námsörðugleika. 

Ráðast þarf í verulegar umbætur á launakerfi kennara. Í stað miðlægra kjarasamninga vill SUS að skólastjórnendum sé veitt meira svigrúm til að semja við starfsmenn sína á einstaklingsgrundvelli. Slíkt kerfi er betur til þess fallið að skapa hvata til nýsköpunar í kennsluháttum. 

Skólastarf

Brúa þarf betur bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla með því að tryggja öllum börnum leikskólapláss eða annað úrræði að fæðingarorlofi loknu. Auk þess þarf að tryggja sveigjanlegri opnunartíma leikskóla, það hefur sýnt sig að skertir opnunartímar bitna helst á fólki í vaktavinnu, vinnandi mæðrum og fólki erlendum uppruna sem er með lítið bakland. 

Skoða ætti að stytta grunnskólann í níu ár, í stað tíu, þannig að ungmenni útskrifist að jafnaði úr framhaldsskóla 18 ára. Það er til þess fallið að auka samkeppnishæfni ungmenna og hækka ævitekjur landsmanna. Stytting framhaldsskóla úr fjórum árum í þrjú var stórt framfara skref í þá átt. 

Mæta þarf vaxandi þörfum atvinnulífsins fyrir iðn- og tæknimenntað starfsfólk með því að leggja aukna áherslu á list- og verkgreinar í grunnskólum landsins. Samhliða því þarf að auka valfrelsi nemenda til að fá að sinna betur sínu áhugasviði í list- og verkgreinum. 

Tryggja þarf að ungmenni sem útskrifast úr grunnskóla geti lesið sér til gagns. Þá þarf sérstaklega að huga að nemendum með erlent móðurmál og drengjum sem, samkvæmt rannsóknum og alþjóðlegum samanburði, standa höllum fæti í þeim efnum. 

Uppfæra og nútímavæða þarf aðalnámskrá í grunnskólum. Brýnt er að innleiða kynfræðslu, hinseginfræðslu, forritunarkennslu, fjármálalæsi og kennslu í gagnrýnni hugsun og rökhugsun í aðalnámskrá. 

Háskólar og vísindastarf

Skoða ætti háskólastigið í heild og kanna hvar tækifæri eru til aukins einkarekstrar, samstarfs og sameiningar, nemendum og vísindum til heilla. Brúa þarf betur bilið milli háskólans og atvinnulífsins með raunhæfari verkefnum og möguleikum á starfsnámi. Nýta á þá reynslu sem að hefur skapast síðustu mánuði til þess að efla stafræna kennslu enn betur, fólk á að geta menntað sig óháð búsetu, fjölskylduaðstæðum, fjárhag eða vinnu. Efla þarf rannsóknar- og þróunarstarf á vegum háskólans.

Halda á áfram umbótum á menntasjóði námsmanna. Skoða ætti að gera sjóðinn aðgengilegan öllum námsmönnum sem náð hafa 18 ára aldri, óháð skólastigi, þannig að nemendur á framhaldsskólastigi geti einnig nýtt sjóðinn. Brúa þarf betur bilið sem hefur skapast milli sumarsins og haust – og vormisseris til að tryggja betur fjárhagslegt öryggi stúdenta. Endurskoða þarf frítekjumarkið og skerðinguna sem að á sér stað er tekjur fara umfram frítekjumarkið. 

Fjölmiðlar, menning og íþróttastarf

Endurskoða þarf stöðu RÚV sem ríkisrekinn fjölmiðill. Fyrsta skref er að taka RÚV af auglýsingamarkaði og í kjölfarið ráðast í aðgerðir með það að markmiði að gera RÚV að sjálfstæðum fjölmiðli án ríkisstuðnings. Rekstur ríkisins á fjölmiðlum má ekki hamla frjálsri samkeppni og raska rekstrargrundvelli annarra fjölmiðla. 

Heimila á auglýsingar á áfengis- og tóbaksvörum auk veðmálastarfsemi. Nú þegar eru auglýsingar fyrir léttöl heimilaðar og því telst óeðlilegt að ekki sé heimilt að auglýsa hefðbundið áfengi. Að auki eru auglýsingar á áfengi heimilaðar á erlendum miðlum. Ungir sjálfstæðismenn vilja heimila íslenskar veðmálasíður. Með því að heimila ofangreind atriði þá er jafnræði á þessum tveimur mörkuðum tryggt og auglýsinga- og skatttekjur koma inn í landið.

Tryggja þarf áframhaldandi grósku í íslensku menningarlífi um allt land og hlúa vel að skapandi greinum, eins og kvikmyndagerð, sem fela í sér mikil tækifæri. 

Viðhalda þarf öflugu íþróttastarfi í landinu og áframhaldandi hvatningu ungmenna til þátttöku í íþrótta- og tómstundastarfi enda hefur slíkt starf mikið forvarnargildi. Bæta þarf umhverfi afreksíþróttafólks í öllum greinum. 

Dóms – og löggæslumál

Rekstur dómstóla er eitt af grunnhlutverkum hins opinbera. Nauðsynlegt er að einstaklingar geti fengið úrlausn ágreiningsmála sinna fyrir hlutlausum dómstólum. Málarekstur fyrir dómstólum getur valdið fólki óhóflegum kostnaði miðað við fjárhag þess og gert það letjandi fyrir þá sem standa verr fjárhagslega að leita réttar síns. Dæmdur málskostnaður þarf að taka mið af raunkostnaði, enda mikilvægt að einstaklingar hafi jöfn tækifæri til að reka mál sín fyrir dómstólum óháð fjárhag. Huga ætti að því að auka skilvirkni einkamála í dómskerfinu.

Löggæsla er grunnskylda hins opinbera. Öryggi og réttindi einstaklinganna byggja á því að sterk löggæsla sé starfandi. Heimildir lögreglu til að hefja rannsókn verða að byggja á rökstuddum grun um refsiverða háttsemi. Þetta kemur í veg fyrir að brotið sé á stjórnarskrárbundnum rétti til friðhelgi einkalífs og öðrum mannréttindum. 

Veruleg ógn stafar skipulagðri  glæpastarfsemi. Auka þarf þjálfun og þekkingu í kringum skipulagða glæpastarfsemi til að sporna gegn slíkri starfsemi

Fíkniefnaneysla er heilbrigðismál en ekki löggæslumál. Neysla fíkniefna og varsla neysluskammta ætti ekki að vera refsiverð. Einnig ætti að endurskoða refsistefnu í kringum burðardýr þar sem að oftar en ekki eru einstaklingarnir í bágri stöðu og þurfa á aðstoð frekar en refsingu að halda.

Innflytjendur

Stytta og einfalda þarf alla ferla og kerfi er varða umsækjendur um alþjóðlega vernd, auk þess skal ávallt hafa mannúðarsjónarmið að leiðarljósi við meðhöndlun slíkra mála. Auðvelda ætti fólki utan EES að koma hingað og starfa. 

Jafnrétti, mannréttindi og trúarmál

Öll ættu að búa við jöfn tækifæri óháð kynferði, kynhneigð, uppruna, trú eða öðrum þáttum. fjölbreytni þrífst best í frjálsu samfélagi.

Klára ætti að fullu aðskilnað ríkis og kirkju. Ríkið á að hætta innheimtu félagsgjalda trúfélaga. 

SUS fagnar áformum um að leyfa blóðgjöf óháð kynhneigð og vonar að sú breyting nái fram að ganga. 

Lækka á áfengisaldurinn þannig að hann miði við 18 ára aldur. Einstaklingur sem er 18 ára telst lögum skv. lögráða og því óeðlilegt að hann megi ekki versla áfengi sjálfur.