Heilbrigðismál

Mikilvægt er að skattfé almennings sé vel nýtt og er það fé sem rennur til heilbrigðis- og velferðarmála engin undantekning þar á. Tryggja verður að þeim fjármunum sem varið er í þessa málaflokka sé ráðstafað þannig að þjónusta sé efld og aukin skilvirkni nái fram að ganga. Efla þarf nýsköpun í heilbrigðiskerfinu og ríkið má á engan hátt torvelda einkaaðilum sem koma fram með nýjungar í heilbrigðisþjónustu.

Aukin aðkoma einkareksturs

Í heilbrigðiskerfinu er almennt fjallað um þrjár tegundir rekstrarforma: opinber rekstur, einkarekstur og einkavæðing. Öll þessi rekstrarform eru mikilvægur partur af heildarmynd íslenska heilbrigðiskerfisins. Skerpa verður betur á þessum atriðum með það að markmiði að auka hagkvæmni og skilvirkni á sama tíma og dregið er úr sóun.

Ómögulegt er fyrir hið opinbera að veita alla heilbrigðisþjónustu landsins og á því ríkið ekki að leitast eftir því að taka að sér aukið hlutverk í heilbrigðisþjónustu á kostnað einkareksturs. Uppfylli einkaaðilar þau skilyrði sem gerð eru til reksturs heilbrigðisstofnana á ríkið ekki, undir neinum kringumstæðum, að leggja stein í götu þeirra fyrirtækja eða góðgerðarsamtaka sem kæmi í veg fyrir að þau geti hafið þjónustu.

Einkarekstur í heilbrigðiskerfinu mun stuðla að samkeppni sem eykur bæði skilvirkni og gæði þeirrar þjónustu sem sjúklingurinn fær. Jafnframt verður nýsköpun meiri.

Allir skulu vera þjónustutryggðir

Setja þarf aukinn kraft í Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) þannig að SÍ sé heimilt að semja við sem flesta einkarekna þjónustuaðila í heilbrigðiskerfinu. Horfa má til Norðurlandanna sem fyrirmynd í þessum efnum, sérstaklega þegar kemur að heilsugæslum.

Fé fylgir hverjum einstakling þannig að ríkið skuli greiða jafn mikið með hverjum og einum, óháð því hvert rekstrarform þeirrar stofnunnar er sem viðkomandi velur. Aukið valfrelsi mun skapa tækifæri fyrir ný fyrirtæki í heilbrigðisgeiranum.

Rétt forgangsröðun

Forgangsraða þarf þeirri heilbrigðisþjónustu sem veitt er á Landspítalanum. Leitast skal eftir að útvista einfaldari og valkvæðum aðgerðum af Landspítalanum til þess að auka gæði og skilvirkni spítalans. Efla ber heimahjúkrun fyrir þá sem geta. Heimahjúkrun er bæði þægilegri fyrir einstaklinginn og ódýrari í kostnaði en á sama tíma myndi þetta losa um fjölda sjúkrahúsrýma fyrir þá sem þurfa frekar á innlögn að halda.

Taka skal upp fjármögnunarkerfi þar sem hvati er til staðar til þess að auka framleiðni, gæði og þjónustu. Einnig þarf að einfalda regluverk svo fleiri geti veitt heilbrigðisþjónustu, óháð staðsetningu, að öllum gæðaskilyrðum uppfylltum.

Setja þarf stjórn yfir Landspítalann til að tryggja að fjármagn fari í það sem máli skiptir og nýtist sem best. Brýnt er að stjórnvöld marki sér heildræna framtíðarstefnu í heilbrigðismálum.

Heilbrigðisþjónusta er líka andleg

Á síðustu árum hefur orðið vitundarvakning á andlegri heilsu og á heilbrigðisþjónusta sem snýr að meðhöndlun andlegra veikinda. Gera þarf Sjúkratryggingum Íslands kleift að semja við sálfræðinga.

SUS vill að bráðamóttaka geðdeildar verði opin allan sólarhringinn, líkt og bráðamóttaka líkamlegra kvilla. Auk þess að skólasálfræðingar verði jafn aðgengilegir og skólahjúkrunarfræðingar og námsráðgjafar á öllum skólastigum.

 Auknar tæknilausnir í sálfræðiþjónustu hafa í för með sér stórt framfaraskref í átt að aukinni geðheilbrigðisþjónustu óháð búsetu. 

Fyrirbyggjandi heilbrigðisþjónusta

Auka þarf forvarnir gagnvart lífstílstengdum sjúkdómum með það að markmiði að stuðla að heilbrigðara líferni og koma í veg fyrir alvarleg veikindi síðar, hvort heldur andleg eða líkamleg. Með fyrirbyggjandi heilbrigðisþjónustu fylgir aukinn sparnaður, minna álag og styttri biðlistar.

Allsherjar heilsufarsskoðanir ættu að vera aðgengilegar öllum. Skapa ætti hvata fyrir einstaklinga til að nýta sér slíka þjónustu á fimm ára fresti. Slík aðgerð er til þess fallin að greina sjúkdóma fyrr og þar með auðvelda meðhöndlun sjúkdómsins. Lækka ber aldurstakmörk á krabbameinsskimunum og fjölga þeim eins og kostur er. Endurskoða þarf þá ákvörðun að færa leghálsskimanir frá Krabbameinsfélaginu til heilsugæslunnar.  

Aukið valfrelsi í heilbrigðiskerfinu

Samþykki tveggja heilbrigðissérfræðinga á ekki að vera skilyrði fyrir því að geta gengist undir þungunarrof. Sjálfsákvörðunarréttur kvenna á að vega þyngra en samþykki heilbrigðisstarfsmanna. Einnig ætti að leyfa staðgöngumæðrun undir sömu forsendum.

Mikilvægt er að leyfa dánaraðstoð hérlendis líkt og tíðkast víðast annars staðar.

Nútímaleg heilbrigðisþjónusta

Efla þarf stafræna heilbrigðisþjónustu í samræmi við nútímatækni. Vinna þarf markvisst að því að koma snjalllausnum að í heilbrigðiskerfinu, svo sem fjarþjónustu, þegar hún á við. Heilbrigðiskerfið þarf að fylgja tækniþróuninni.

Nútímavæða samskiptakerfi með öllum mögulegum tækninýjungum til að brúa bil sjúklinga og starfsmanna heilbrigðisgeirans. Myndi það auðvelda fyrir sjúklingum og aðstandendum að halda utan um sín mál.

Fíkn er sjúkdómur en ekki glæpur

Aukin vitundarvakning hefur orðið í samfélaginu og eru sífellt fleiri að verða meðvitaðir um að fíkn er sjúkdómur en ekki glæpur og því eiga einstaklingar með sjúkdóminn að vera meðhöndlaðir í samræmi við það. Við eigum að hjálpa fólki en ekki refsa því.

Stríðið gegn fíkniefnum er löngu tapað. Við þurfum að leita leiða til að lágmarka skaðann sem hlýst af fíkniefnum. Afglæpavæða ætti því neysluskammta af öllum fíkniefnum sem fyrst. Lögleiða ætti kannabis. Með lögleiðingu kannabiss fylgir betra eftirlit og í fyrsta sinn væri hægt að innheimta skatttekjur af fíkniefnum öðru en áfengi og tóbaki. Við leggjum einnig til að þær skatttekjur sem hljótast af kannabisi skuli vera eyrnamerkt forvörnum gegn fíkniefnum ásamt eflingu meðferðarúrræða. Einstaklingar með fíknivanda eiga heima í meðferð en ekki í fangaklefa. Vinna ætti að fullri lögleiðingu fíkniefna. 

Fjölga þarf meðferðarúrræðum fyrir fólk með fíknivanda.

Málefni aldraðra

Þjóðin er að eldast og fjöldi einstaklinga á ellilífeyrisaldri fer sífellt hækkandi. Bregðast þarf við þessari þróun með því að innleiða nýtt fyrirkomulag ellilífeyris almannatrygginga til að skapa raunhæfa hvata til atvinnu. Endurskoða þarf skipulag þjónustu við aldraða með það að leiðarljósi að auka skilvirkni og bæta heildarþjónustu við eldri borgara. Þá þarf að að bæta heimahjúkrun, félags- og tómstundaþjónustu, sálgæslu og heilsueflingu. Til þess þarf aðkomu einkaaðila og félagasamtaka.   

Stokka þarf upp lífeyriskerfið með tilliti til hagsmuna eldri borgara samhliða breytingum á almannatryggingakerfinu. Starfslok verði sveigjanlegri og skerðingar heyra sögunni til. Hætta verður að horfa á þetta sem bætur og þess í stað horfa á þetta sem réttindi.

Málefni öryrkja og fatlaðra

Öryrkjar þurfa að sjá hag sinn í því að afla sér aukinna tekna. Gefa þarf þeim öryrkjum, sem geta, ráðgjöf og hvata til vinnu sem tekur mið af starfsgetu hvers og eins. Afnema þarf krónu á móti krónu skerðingu og viðmiðið þarf að miðast við að tryggja lágmarkstekjur til lífsviðurværis án þess að draga úr hvata til sjálfsbjargar

Sporna þarf gegn fjölgun ungra öryrkja til dæmis með því að efla starfsendurhæfingu og beita starfsmati frekar en örorkumati. Vinna þarf markvisst að því að aðstoða fólk sem vill og getur unnið við að koma sér aftur út í atvinnulífið og fækka þar með fólki sem er að þiggja bætur.

Auka ber sjálfstæði fatlaðra einstaklinga og tryggja að allir sem geta hafi val um að stýra sinni þjónustu sjálfir meðal annars með notendastýrðri persónulegri aðstoð (NPA).