Lög SUS

Lög Sambands ungra sjálfstæðismanna

I. kafli

Nafn og tilgangur

1. gr.

Sambandið er bandalag félaga ungra sjálfstæðismanna og heitir „Samband ungra sjálfstæðismanna”. Stjórnarsetur þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.

Tilgangur sambandsins er:

a) Að vinna að varðveislu hins íslenska lýðveldis, sjálfstæðis og fullveldis og hagnýtingu gæða landsins í þágu íslenskra þegna.

b) Að efla í landinu þjóðlega, víðsýna og frjálslyndrar framfarastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis, atvinnufrelsis og séreignar, með hagsmuni allra stétta fyrir augum.

3. gr. Tilgangi þessum vill sambandið ná með því að styðja Sjálfstæðisflokkinn, útbreiða stefnu sína meðal ungra manna, efla samtök og félög sjálfstæðismanna og sameina þau til áhrifa á stjórnmál og kosningar.

II. kafli

Aðildarfélög

4. gr.

Aðild að sambandinu eiga félög ungra sjálfstæðismanna, en rétt til aðildar að félögum hefur fólk á aldrinum 15 til 35 ára.

5. gr.

Til að félag geti fengið aðild að sambandinu þarf það að hafa a.m.k. 20 félagsmenn er það er stofnað. Áður en félag fær aðild með fullum réttindum skal það hafa starfað í þrjá mánuði, en í fyrstu getur félag fengið áheyrnaraðild að stofnunum sambandsins.

Sambandsstjórn tekur ákvörðun um það hvort félag fær aðild að sambandinu.

6. gr.

Aðildarfélög skulu halda aðalfund ár hvert. Þar skal kosin stjórn fyrir næsta starfsár, en að öðru leyti fer um störf aðalfundar eftir lögum sérhvers félags.

III. kafli

Sambandsþing

7. gr.

Reglulegt þing sambandsins skal koma saman annað hvert ár, í ágúst eða september. Stjórn sambandsins getur kallað saman aukaþing ef henni þykir ástæða til.

Til þings skal boða með a.m.k. tveggja mánaða fyrirvara og auglýsa það tryggilega.

8. gr.

Á dagskrá reglulegs þings skal vera:

1) Setning.

2) Kosning þingforseta, fundarritara, kjörbréfanefndar og kjörnefndar.

3) Skýrsla stjórnar fyrir liðið kjörtímabil.

4) Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til samþykktar.

5) Umræður og afgreiðsla ályktana.

6) Lagabreytingar.

7) Kosning stjórnar, varastjórnar og tveggja endurskoðenda.

Endurskoðendur skulu kosnir hlutfallskosningu eftir lista.

8) Önnur mál.

9) Þingslit.

Þingið getur, með einföldum meirihluta þeirra sem mættur er á fund hverju sinni þegar til atkvæðagreiðslu kemur, samþykkt breytingu á niðurröðun dagskrárliða og bætt við dagskrárliðum. Kosningar skv. lið 7 skulu þó ekki fara fram fyrr en framboðsfrestur er liðinn sbr. 3 mgr. 11 gr. Lagabreytingar skulu þó fyrst fara fram þegar þinghald hefur staðið í sex klukkustundir annan dag þingsins.

9. gr.

Sambandsþing er skipað þingfulltrúum þeirra aðildarfélaga er fullra réttinda njóta. Aðildarfélögin annast sjálf val á sínum þingfulltrúum, en þeir þurfa að vera félagsmenn í viðkomandi félagi sem tilnefnir þá sem fulltrúa. Þing getur heimilað félaga í aðildarfélagi að sitja þing sem áheyrnarfulltrúi og hafa málfrelsi í einstökum tilfellum. Aðalstjórnarmenn sambandsins hafa þó alltaf málfrelsi og tillögurétt á sambandsþingi.

Hverju aðildarfélagi er heimilt að tilnefna svo marga varamenn sem það vill. Geta skal þess í hvaða röð þeir taka sæti en farist það fyrir skal stafrófsröð ráða. Þegar varamenn koma til þings skulu þeir gefa sig fram við kjörbréfanefnd. Kjörstjórn skal ákveða og auglýsa reglulega hvenær kosning formanns, stjórnar og varastjórnar hefjast. Ákvörðunum hennar verður skotið til þingsins. Fyrst er heimilt að hefja kosningu formanns kl. 13:00 á lokadegi þingsins. Kosning stjórnar skal hefjast 15 mínútum eftir að formaður hefur verið kosinn. Kosning varastjórnar skal hefjast 15 mínútum eftir að kosning stjórnar liggur fyrir. Klukkustund fyrir þann tíma sem formannskosning er fyrirhuguð skal kjörbréfanefnd tilkynna hve margir aðalmenn hvers félags höfðu þá leyst út kjörbréf. Því næst skal afhenda þeim varamönnum sem gefið höfðu sig fram á þeim tíma kjörbréf eftir því sem þau endast og skal þá farið eftir þeirri röð sem félagið valdi þá. Standi þá enn eftir kjörbréf skal þeim úthlutað til þeirra fultrúa viðkomandi aðildarfélags sem síðar koma, og skulu aðalmenn og allir varamenn þá vera jafn gildir og taka kjörbréf eftir þeirri röð sem þeir gefa sig fram í.

10. gr.

Fulltrúatala aðildarfélaga skal fundin með því að deila 20 í félagatölu þeirra eins og hún er 6 vikum fyrir upphaf þings. Komi þá út brot, skal það hækkað upp, ef það er meira en hálfur, ella skal því sleppt, þó skal hvert fullgilt aðildarfélag hafa a.m.k. einn fulltrúa. Þess skal gætt að ekkert eitt félag má tilnefna meira en 35 af hundraði af fjölda þingfulltrúa, sem leyfilegur er samkvæmt lögum þessum.

Aðildarfélagi ber að tilkynna til skrifstofu sambandsins, eigi síðar en 15 sólarhringum fyrir þingsetningu, um tilnefningu þingfulltrúa. Aðildarfélög geta þó breytt tilnefningum sínum á félags- eða aðalfundi og skulu þær breytingar hafa borist skrifstofu sambandsins eigi síðar en 4 sólarhringum fyrir þingsetningu. Að því loknu gefur stjórn sambandsins út kjörbréf til réttkjörinna fulltrúa, og skulu þau send stjórn viðkomandi aðildarfélags.

Í upphafi þings skal kosin þriggja manna kjörbréfanefnd sbr. 2. tl. 8 gr., til að kanna kjörbréf áður en regluleg þingstörf hefjast. Þeir einir hafa rétt til þingsetu sem samþykkt kjörbréf hafa. Verði ágreiningur um niðurstöðu kjörbréfanefndar er hægt að skjóta ákvörðun hennar til þingsins, sem hefur endalegt úrskurðarvald um kjörgengi þingfulltrúa.

11. gr.

Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála á þinginu, nema þegar um breytingu á lögum félagsins er að ræða sbr. 19. gr.

Í upphafi þings skal kjörnefnd kjörin sbr. 2. tl. 8. gr., skal hún skipuð sjö mönnum og velur hún sér sjálf formann. Nefndin skal taka á móti framboðum til stjórnar og annast framkvæmd stjórnarkosningar.

Framboðum til aðalstjórnar skal skilað til kjörnefndar fyrir kl. 12:00 lokadag þingsins.

IV. kafli

Stjórn og starfsemi

12. gr.

Stjórn sambandsins skal skipuð 32 mönnum, að formanni meðtöldum. 27 stjórnarmanna skulu kosnir á sambandsþingi og gildir kosningin á milli reglulegra þinga. Formaður stjórnar skal kosinn sérstaklega óhlutbundinni leynilegri kosningu, en aðrir stjórnarmenn í einu lagi og skulu þeir vera fulltrúar fyrir kjördæmi sem hér segir: Reykjavík norður- og suðurkjördæmi 10, Suðvesturkjördæmi 6, Norðvesturkjördæmi 3, Norðausturkjördæmi 3 og Suðurkjördæmi 4. Einnig sitja í stjórn formenn kjördæmasamtaka ungra sjálfstæðismanna, fjórir að tölu, auk formanns Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, eða þeir sem stjórnir viðkomandi samtaka og Heimdallar skipa í stað formanns.

Á sambandsþingi skulu ennfremur kosnir 15 varastjórnarmenn, 6 fyrir Reykjavík norður- og suðurkjördæmi, 3 fyrir Suðvesturkjördæmi og 2 fyrir hvert hinna kjördæmanna. Varaformenn kjördæmasamtaka og Heimdallar, eða þeir sem viðkomandi stjórnir skipa í þeirra stað, eiga sæti í varastjórn.

Samhliða því sem kosin er stjórn skulu þingfulltrúar merkja við þann frambjóðanda til stjórnar sem þeir kjósa sem 1. varaformann S.u.s. Sá er kjörinn 1. varaformaður sem flest atkvæði hlýtur enda hafi hann einnig náð kjöri til stjórnar. Verði frambjóðendur jafnir skal stjórn velja 1. varaformann.

Varamenn taka sæti á stjórnarfundum í forföllum stjórnarmanna frá viðkomandi kjördæmi. Atkvæðafjöldi í varamannakjöri á sambandsþingi ræður því í hvaða röð varamenn taka sæti í stjórn. Hafi varamenn orðið sjálfkjörnir skal dregið um það á stjórnarfundi í hvaða röð varamenn taka sæti á stjórnarfundum.

Á fyrsta stjórnarfundi eftir sambandsþing skiptir stjórnin með sér verkum, og kýs sér 2. varaformann, ritara, gjaldkera og meðstjórnendur.

Nú hlýtur enginn einn meirihluta þeirra atkvæða sem greidd eru í formannskjöri og skal þá kjósa að nýju milli þeirra tveggja sem flest atkvæði hlutu. Auðir seðlar teljast greidd atkvæði. Sá sem þá hlýtur fleiri atkvæði telst réttkjörinn formaður. Nú falla atkvæði jöfn og skal þá kosið að nýju þar til úrslit fást.

13. gr.

Kjörgengir í stjórn sambandsins eru allir félagar aðildarfélaga sambandsins, sem fullra réttinda njóta.

Menn eru kjörgengir til stjórnar fyrir ákveðið kjördæmi í allt að tvö ár eftir að þeir hafa flutt úr viðkomandi kjördæmi. Enginn getur þó boðið sig fram eða tekið kjöri fyrir fleiri en eitt kjördæmi á sama tíma.

14. gr.

Framkvæmdastjórn sambandsins skipa formaður, varaformenn, ritari og gjaldkeri. Framkvæmdastjórn annast daglegan rekstur sambandsins á milli stjórnarfunda og tekur ákvarðanir um mál, sem lúta að starfsemi sambandsins á hverjum tíma. Framkvæmdastjórn skal halda fundargerðir um fundi sína og gera stjórn grein fyrir störfum sínum á stjórnarfundum. Sérhver framkvæmdastjórnarmaður getur krafist þess að máli verði vísað til stjórnarfundar til ákvörðunar. Framkvæmdastjórn er óheimilt að álykta um stjórnmál. Sambandsstjórn er þó í einstökum tilfellum heimilt að fela framkvæmdastjórn að útfæra þær ályktanir sem sambandsstjórn hefur rætt, enda verði sambandsstjórn um það einhuga.

15. gr.

Auk framkvæmdastjórnar annast stjórn og sambandsþing málefni sambandsins og hefur sambandsþing æðsta vald varðandi öll málefni sambandsins.

Stjórn sambandsins ákveður sjálf hvenær stjórnarfundir skulu haldnir, en skylt er framkvæmdastjórn að boða til stjórnarfundar krefjist 5 stjórnarmenn stjórnarfundar. Stjórnarfundir skulu boðaðir með tryggilegum hætti.

Stjórnarmenn og varastjórnarmenn eiga seturétt, málfrelsi og tillögurétt á stjórnarfundum. Stjórnarmenn eiga einir atkvæðisrétt sem og varamenn fjarstaddra stjórnarmanna. Stjórn er auk þess frjálst að veita trúnaðarmönnum sambandsins og öðrum gestum aðgang að fundum sínum með málfrelsi og tillögurétti. Fari þrír stjórnarmenn eða fleiri fram á að fundur skuli lokaður skal þó orðið við því.

Á stjórnarfundum ræður einfaldur meirihluti atkvæða og skal atkvæðagreiðsla fara fram skriflega sé þess óskað. Atkvæði formanns er oddaatkvæði ef atkvæði falla jafnt. Stjórnarfundur er löglegur þegar meiri hluti stjórnar situr fund.

V. kafli

Ýmis ákvæði

16. gr.

Í kjördæmum sem hafa fleiri en eitt aðildarfélag er heimilt að stofna kjördæmasamtök ungra sjálfstæðismanna. Kjördæmasamtök eru ekki ályktunarbær en eru samstarfsvettvangur félaga í kjördæmum og hafa það hlutverk að styrkja og styðja við innra starf ungra sjálfstæðismanna í viðkomandi kjördæmi.

Í stjórn kjördæmasamtaka skulu eiga fast sæti formenn aðildarfélaga sem fullra réttinda njóta, en samtökin geta að öðru leyti sjálf sett sér reglur um kjör stjórnar.

Kjördæmasamtök skuli semja sér lög og starfsreglur sem samþykktar skulu af stjórn sambandsins.

17. gr.

Nú hefur stjórn aðildarfélags eigi aðalfund á löglegum tíma og getur sambandsstjórn þá boðað til aðalfundar í nafni stjórnarinnar. Aðalfundur fer þá fram á ábyrgð sambandsstjórnar.

18. gr.

Reikningstímabil sambandsins skal vera tíminn milli reglulegra sambandsþinga, þó skal miða við að því ljúki 1. ágúst það ár sem reglulegt þing er haldið. Framkvæmdastjórn skal, eigi síðar en 15. nóvember á því ári er sambandsþing er haldið, birta stjórn milliuppgjör fyrir tímabilið frá lokum síðasta reikningsárs til 30. september. Skal uppgjörið vera sambærilegt við þau uppgjör er birt eru í lok reikningsárs og yfirfarið af kjörnum skoðunarmönnum og endurskoðendum sambandsins.

19. gr.

Lögum þessum verður aðeins breytt á sambandsþingi og þarf samþykki 3/5 hluta þeirra þingfulltrúa sem kjörbréf hafa fengið afhent til að breyting öðlist gildi.

Tillögum til lagabreytinga skal skilað til framkvæmdastjórnar 10 dögum fyrir upphaf þings og þrem dögum síðar skal það auglýst að tillaga til lagabreytinga verði tekin fyrir á þinginu. Efni breytingatillagna skal kynnt í upphafi þings og skulu tillögurnar afhentar þingfulltrúum með öðrum fundargögnum.

20. gr.

Lög þessi öðlast gildi þegar í stað, og falla þá úr gildi eldri lög sambandsins.

Síðast breytt á Eskifirði á 44. sambandsþingi SUS, 8. september til 10. september 2017.